Einungis íslensk lög gilda á Íslandi

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra:

Í síðustu viku lagði ég fram á Alþingi frum­varp sem vakið hef­ur tölu­vert um­tal. Frum­varpið snýst um hina þrjá­tíu ára gömlu bók­un 35 og er ætlað að tryggja að dóm­stól­ar geti leyst úr til­tölu­lega sjald­gæfu viðfangs­efni í sam­ræmi við skýr­an vilja Alþing­is um að tryggja Íslend­ing­um þau rétt­indi sem fel­ast í samn­ingn­um um Evr­ópska efna­hags­svæðið. Þótt um frem­ur tækni­legt mál sé að ræða hef­ur skap­ast líf­leg umræða um laga­frum­varpið og ýmis stór orð heyrst um að bráð hætta steðji að full­veldi þjóðar­inn­ar og að verið sé að flytja laga­setn­ing­ar­vald úr landi. Skilj­an­legt er að marg­ir séu hugsi þegar svo mikl­ar yf­ir­lýs­ing­ar heyr­ast og koma frá máls­met­andi fólki.

Hin há­væra umræða á sér einkum stað meðal tveggja hópa; ann­ars veg­ar þeirra sem hafa sér­stak­an áhuga á laga­tækni­leg­um úr­lausn­ar­efn­um og hafa efa­semd­ir um að EES-samn­ing­ur­inn sjálf­ur sé inn­leidd­ur rétt í ís­lensk lög, og hins veg­ar þeirra sem al­mennt hafa efa­semd­ir um veru Íslend­inga í Evr­ópska efna­hags­svæðinu. Mesta gagn­rýn­in á frum­varpið kem­ur vita­skuld frá þeim sem til­heyra báðum þess­um hóp­um.

Stór­yrðin inni­stæðulít­il

Ég ef­ast um að rök mín eða sann­fær­ing­ar­kraft­ur dugi til þess að snúa þeim sem fylgja hvort sem er leynt eða ljóst þeirri stefnu að Íslandi eigi ekki að vera í EES. Sá hóp­ur er fyrst og fremst að mót­mæla ákvörðun sem tek­in var fyr­ir þrjá­tíu árum. Að sama skapi er ég ekki bjart­sýn á að mér tak­ist að sann­færa þann hóp laga­spek­úl­anta sem hafa ætíð haft efa­semd­ir um að hin þrjá­tíu ára gamla bók­un 35 veiti full­nægj­andi stoð til þess að inn­leiða í ís­lensk­an rétt þær regl­ur sem þarf vegna EES-samn­ings­ins. Ég tel hins veg­ar mik­il­vægt að þeir sem styðja aðild okk­ar að EES fái staðfest­ingu á því að stór­yrðin séu inni­stæðulít­il og að ótt­inn sem í þeim felst sé ástæðulaus. Ekki minnsta hætta steðjar að full­veldi Íslands vegna þessa máls. Hér eft­ir sem hingað til verða ein­ung­is ís­lensk lög gild á Íslandi og eng­in breyt­ing er á því hvernig EES-lög og -regl­ur taka gildi hér á landi.

Ef­laust velta marg­ir fyr­ir sér: Af hverju þarf að setja þessi lög? Ástæðan er sú – í sem ein­föld­ustu máli – að lög og stjórn­valds­fyr­ir­mæli eru á tíðum ófull­kom­in og stang­ast stund­um á. Þetta er ekki heppi­legt, leysa þarf úr því hvaða regla eigi að gilda um­fram hinar. Meg­in­regl­an er sú að æðri rétt­ar­heim­ild geti rutt úr vegi óæðri rétt­ar­heim­ild. Þannig þurfa ákv­arðanir stjórn­valda að vera í sam­ræmi við reglu­gerðir, reglu­gerðir þurfa að byggj­ast á lög­um og lög mega ekki vera í ósam­ræmi við stjórn­ar­skrá. Hið sjald­gæfa vanda­mál sem ég vísa til er þegar tvær regl­ur úr jafn­hárri rétt­ar­heim­ild stang­ast hvor á við aðra. Að jafnaði er þetta vegna ein­hvers kon­ar yf­ir­sjón­ar eða vegna þess að upp koma ófyr­ir­séð til­vik. Engu að síður er það verk­efni dóm­stóla að kom­ast að niður­stöðu og þarf þá að taka af­stöðu til þess hvora regl­una eigi að nota. Við slík­ar aðstæður er beitt lög­skýr­ing­ar­regl­um til þess að meta hvor regl­an kom­ist nær því að vera í sam­ræmi við vilja Alþing­is og sé því rétt niðurstaða. Ein þess­ara lög­skýr­ing­ar­reglna er að sér­tæk­ari regla gildi um­fram al­menn­ari; önn­ur er að nýrri regla eigi að gilda um­fram eldri reglu – og á Íslandi var í lög­um um EES-samn­ing­inn lög­fest sú lög­skýr­ing­ar­regla að lög sem byggj­ast á skuld­bind­ing­um okk­ar í EES eigi að gilda um­fram lög sem eiga ann­an upp­runa. Um það snýst bók­un 35 sem Ísland samþykkti við inn­göngu í EES og frum­varpið sem ég lagði fram í vik­unni er ein­fald­lega sett fram til þess að festa til­gang henn­ar bet­ur í sessi.

Dóm­stól­ar á Íslandi þurfa meira af­ger­andi laga­stoð til þess að beita þess­ari lög­skýr­ing­ar­reglu. Laga­frum­varp­inu sem ég hef lagt fram er ætlað að taka af öll tví­mæli og tryggja bet­ur stöðu þess­ar­ar reglu, svo ekki leiki vafi á því að ís­lensk­ir borg­ar­ar njóti þess rétt­ar í hví­vetna sem ætlað var að tryggja með aðild­inni að EES. Málið snýst ein­ung­is um þetta, og er hvorki meira í sniðum né minna.

Alþjóðleg­ar fyr­ir­mynd­ir

Lík­lega á flest í ís­lenskri lög­gjöf ein­hvers kon­ar alþjóðleg­ar fyr­ir­mynd­ir og margt í okk­ar lög­um er bein inn­leiðing á reglu­verki sem Ísland hef­ur ákveðið að und­ir­gang­ast í alþjóðlegu sam­starfi. Meira að segja stjórn­ar­skrá­in var að stærstu leyti byggð á þeirri dönsku, og þegar mann­rétt­inda­ákvæðum var bætt inn í hana byggðist það al­gjör­lega á Mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu. Það að leita fyr­ir­mynda í öðrum lönd­um og setja lög sam­kvæmt alþjóðleg­um skuld­bind­ing­um er ekki óeðli­legt eða sér­ís­lenskt fyr­ir­bæri og fel­ur ekki í sér minnstu eft­ir­gjöf á full­veldi eða sjálfs­ákvörðun­ar­rétti þjóða.

Ekk­ert í bók­un 35, EES-löggöf­inni eða frum­varpi mínu breyt­ir þó þeirri reglu að laga­setn­ing­ar­valdið er al­gjör­lega og óskipt hjá Alþingi Íslend­inga. Ef Alþingi hugn­ast get­ur það sett lög sem fara þvert gegn EES-skuld­bind­ing­um, en til þess að hún hafi for­gang þarf Alþingi að taka það fram. Tal um að laga­setn­ing­ar­vald sé fram­selt með þess­ari breyt­ingu er því full­kom­lega fjar­stæðukennt. Við þau sem heyra yf­ir­lýs­ing­ar og dóms­dagstal um að frum­varpið sem ég lagði fram í vik­unni feli í sér framsal á full­veldi eða laga­setn­ing­ar­valdi segi ég: Það er mis­skiln­ing­ur. Hér eft­ir sem hingað til eru það ein­ung­is ís­lensk lög gilda á Íslandi.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 23. apríl 2023.