Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Ég er oft spurður af ungu fólki sem þyrstir í upplýsingar um hugmyndafræði frelsis hvar þeirra sé helst að leita. Við sem höfum skipað okkur undir fána frjálshyggjunnar – trúna á mátt og getu einstaklingsins og að frumréttur hans sé frelsið, andlegt og efnahagslegt frelsi – erum gæfusöm. Hundruð bóka standa okkur til boða eftir íslenska og erlenda hugsuði. Hayek, Friedman, Sowell, Mill, Popper og Nozicks, svo fáeinir séu nefndir. Ólafur Björnsson, Birgir Kjaran, Jón Þorláksson og Hannes Hólmsteinn Gissurarson hafa hver með sínum hætti lagt mikilvægan skerf inn í íslenska hugmyndabaráttu. Þá er ónefndur Matthías Johannessen, ritstjóri og skáld, en í kistur hans hef ég alltaf leitað – sífellt meira eftir því sem árin líða.
Árið 1982 gaf Mattías út safnritið Félagi orð – greinar, samtöl og ljóð. Í grein sem hann skrifaði árið 1981 rifjar Matthías upp að Halldór Laxness hafi haldið því fram í Skáldatíma að stalínismi og nasismi væru greinar á sama meiði. „Það er ekki lítið sagt og íhugunarefni fyrir okkur með tilliti til þess „sannleika“, sem við reynum að finna með aðstoð frjálshyggju og lýðræðis. En sá algildi sannleiki er því miður ekki heldur til. Það er í raun eitt af aðalsmerkjum frjálshyggjunnar að játa svo einfalda staðreynd, þótt slík afstaða dragi ekki úr frjálshyggjumönnum að halda áfram leitinni að því þjóðfélagi, sem næst gæti komist þeim þjóðfélagssannleik, sem við, að því er virðist, þráum umfram allt. Þó er mér nær að halda, að leitin sé eftirsóknarverðari en „sannleikurinn“ sjálfur, á sama hátt og eftirvæntingin er einatt skemmtilegri en reynsla og raunveruleiki.“
Matthías og Karl Popper hafa greinilega átt góða samleið í mörgu. Í viðtali við Hannes Hólmstein árið 1985 bendir Popper á að frjálshyggjan verði aldrei fullsköpuð. „Hún er endalaus leit að lausnum, tilraun til að takmarka valdið, binda það, svo það geti horft til heilla fyrir fólk.“
Stórisannleikur ekki til
Matthías segir frjálshyggjumenn sannfærða um að Stórisannleikur sé ekki til. Það sé hins vegar ekki andstætt frjálshyggju að lúta boðskap Krists um sannleik þess fyrirheitna lands sem hann boðar. „Og eina leið okkar frjálshyggjumanna til að skilja marxisma með einhverju móti er sú að líta á hann sem trúarbrögð. Hann á ýmislegt sameiginlegt með fjölgyðistrú fyrri tíma, þegar kóngar og keisarar voru teknir í guða tölu.“
Matthías hefur aldrei trúað á boð og bönn. Frjálshyggjan krefjist þess skilyrðislaust að staðinn sé vörður um eins mikið frelsi í listum og menningu og unnt er. Það sé að vísu framleitt mikið af hversdagslegu „ófrumlegu dóti í nafni listar á okkar dögum, en sáralítið af listrænum verðmætum“. Skilvinda tímans sjái um þá undanrennu. Nauðsynlegt sé að spyrja margra spurninga um einstaklinginn í því velmegunarsamfélagi sem hefur sprottið úr frjálshyggju og lýðræði. Staldra við og spyrna við fæti. Og ritstjórinn er gagnrýninn á fjölmiðla og sú gagnrýni á enn betur við í dag en fyrir liðlega fjórum áratugum. „Dómgreinarleysi í fjölmiðlum er áberandi. Alls kyns æði fer eins og reykur um sinuhaga. Það minnir annars vegar á húsbóndavald almenningsálitsins, sem Mill nefnir svo, og hins vegar á hræðslugæði, sem talað er um í fornum íslenskum bókum. Brenglað mat er hrikaleg staðreynd. Við sjáum miðaldirnar hilla upp í nútíðinni, dönsum hugsunarlaust inn í tómleika, fánýti, meiri tómleika. Sirkusdvergar með pólitískar gervilausnir og ófullnægðan metnað reyna að draga að sér athygli. Þeir þykjast vera boðberar einstaklingsfrelsis, en eru fulltrúar alræðishyggju og Stórasannleika. Þá skortir alla sjálfsgagnrýni, skortir það sem kann að vera nauðsynlegast alls – efahyggju, sjálfsvirðingu.“
Samhljómur áratuganna
Með orð Matthíasar um skort á sjálfsgagnrýni og efahyggju og stjórnmálamenn gervilausna í huga las ég ádrepu Benedikts Jóhannessonar, sem birtist á Visir.is fyrir tveimur dögum, af athygli enda nokkur samhljómur milli þeirra tveggja þótt 42 ár séu á milli skrifanna.
Benedikt er stofnandi Viðreisnar, fyrrverandi formaður flokksins og fjármálaráðherra: „Oft hef ég talað um þá tilfinningu mína að þingsalurinn kalli fram hið versta í fólki. Vænstu menn, karlar og konur, rjúka upp í heilagri vandlætingu í þingsal yfir smáu sem stóru. Þetta vekur spurninguna: Bera alþingismenn virðingu hver fyrir öðrum og stofnuninni sem þeir skipa? Ef ekki, hví skyldu aðrir treysta henni? Traust þjóðarinnar til Alþingis var 25% í síðustu mælingu.“
Og Benedikt heldur því fram að oftar en ekki breytist „vænsta fólk til hins verra þegar það kemst í áhrifastöðu“. Verði hrokagikkir á örfáum vikum. „Þeir telja sig vaxa með því að gera lítið úr öðrum. Í stjórnarandstöðu er málefnaleg umræða talin ólíkleg til árangurs. Málflutningur minnihlutans virðist að mestu byggður á spælingum og nöldri í garð ráðherra, en óvenjulegt að heyra upplýsandi rökræður, byggðar á reynslu og þekkingu þingmanna, enda fækkar sífellt í hópi þeirra þingmanna sem búa að reynslu úr atvinnulífi eða forystu í félagasamtökum, svo dæmi séu tekin af þekkingu sem nýst gæti við lagasetningu eða stjórn landsins.“
Fjölmiðlar eiga eflaust sína sök skrifar Benedikt enda ná stóryrði og hneykslun eyrum þeirra.
Dómur Benedikts er óvæginn en illa get ég andmælt. Stjórnmál samtímans einkennast fremur af upphrópunum og merkimiða-pólitík en baráttu fyrir hugsjónum. Samfélagsverkfræðingarnir hafa því miður náð yfirhöndinni. Pólitísk rétthugsun kæfir stjórnmálin og ógnar frelsinu. En einmitt þess vegna er mikilvægt að eiga góðan aðgang að hugsuðum frelsisins og kynnast hugmyndum þeirra og rökstuðningi. Ritstjórinn og skáldið Matthías Johannessen er einn þeirra.