Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:
Um helgina lauk seinni legg hringferðar þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Við lögðum land undir fót fyrr á árinu, en áttum m.a. eftir að heimsækja Vestfirðina.
Ég er Reykvíkingur í húð og hár, fædd og uppalin í höfuðborginni – þingmaður fyrir mitt kjördæmi í Reykjavík. Ég hef samt verið svo lánsöm að fá að hitta fólk á fundum um allt land undanfarin ár, bæði sem aðstoðarmaður ráðherra og nú sem kjörinn fulltrúi. Á þessum fundum kemur það mér alltaf jafn mikið á óvart hversu samhljóma umkvörtunarefni og tillögur fólks á landsbyggðinni eru. Sama hvar okkur ber niður er samhljómur með ábendingum þeirra og kröfum.
Í samandregnu og einfölduðu máli eins og ég upplifi málflutning fólks eru þetta fjögur atriði:
1) Rík krafa um betri samgöngur. Og ekki í þeim skilningi sem við höfuðborgarbúar leggjum nú í hugtakið, heldur fremur að þurfa t.d. ekki að leggja líf sitt að veði til að komast til og frá vinnu eða námi. Að eiga það ekki á hættu að verða innlyksa í vondum veðrum, eða að geta ekki sótt bjargir þegar hætta steðjar að.
2) Fólk af landsbyggðinni vill fá öruggt og stöðugt aðgengi að endurnýjanlegri orku. Það vill ekki þurfa að treysta á dísilvélar – á olíuknúið varaafl árið 2023. Ekki beint vandamál sem við borgarbörnin þekkjum.
3) Aðgengi að grundvallar – og bráða heilbrigðisþjónustu er eitthvað sem við borgarbúar tengjum e.t.v. fremur við tímann sem við eyðum á fjölmörgum biðstofum höfuðborgarsvæðisins. Víða um land er hins vegar ekki aðgengi að grunnþjónustu nema í töluverðri fjarlægð og skortur og rót á læknum er viðvarandi vandamál.
4) Og fólk á landsbyggðinni vill fjölbreyttari atvinnutækifæri svo fólk geti búið í dreifðum byggðum. Byggðum þar sem heilmikil verðmæti verða til fyrir þjóðarbúið. Við sem hugsum um fjölmarga byggðarkjarna um landið sem vetrarfrís- og afþreyingarstaði ættum að reyna að setja okkur í spor þeirra sem horfa á eftir yngri kynslóðum elta atvinnutækifærin til höfuðborgarsvæðisins.
Og alltaf hugsa ég á heimleiðinni; er ekki bara hægt að verða við þessu? Kippa þessu í liðinn? Biður fólk af landsbyggðinni um of mikið?
Greinin birtist fyrst á Vísi 25. apríl 2023.