Reykjavíkurborg rekin á yfirdrætti

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Reykja­vík­ur­borg hætti í fyrra­dag við skulda­bréfa­út­boð sitt fyr­ir apr­íl­mánuð, sem áformað var í gær, 12. apríl. Var útboð þar á und­an einnig fellt niður, sem vera átti 8. mars.

At­hygli vakti meðal markaðsaðila hversu seint borg­in blés útboðið af. Venju­lega eru upp­lýs­ing­ar um fyr­ir­komu­lag slíkra útboða til­kynnt­ar á vef Kaup­hall­ar a.m.k. tveim­ur dög­um áður en það fer fram. Til­kynn­ing frá Reykja­vík­ur­borg um niður­fell­ingu útboðsins í gær barst mjög seint eða kl. 16.49 í fyrra­dag.

Uggvæn­leg skuldaþróun

Skulda­bréfa­út­boð hafa um langt skeið verið mik­il­virk­asti vett­vang­ur vinstri meiri­hlut­ans til að fjár­magna gíf­ur­leg­an halla­rekst­ur Reykja­vík­ur­borg­ar. Áformað er að borg­ar­sjóður taki lán fyr­ir allt að 21 þúsund millj­ón­um króna á ár­inu 2023 sam­kvæmt samþykktri fjár­hags­áætl­un. Til að mæta þess­ari miklu fjárþörf borg­ar­sjóðs er gert ráð fyr­ir stór­felldri skulda­bréfa­út­gáfu eða ann­arri lán­töku.

Ljóst er að Reykja­vík­ur­borg hugðist afla sér stór­an hluta áður­nefndr­ar upp­hæðar með út­gáfu skulda­bréfa á fyrri hluta árs­ins. Niður­fell­ing tveggja útboða í röð gefa skýra vís­bend­ingu um að ekki sé allt með felldu hjá borg­inni varðandi fyr­ir­hugaðar lán­tök­ur. Þess­ar niður­fell­ing­ar má lík­lega rekja til áhuga­leys­is fjár­festa og ört versn­andi kjara borg­ar­inn­ar í skulda­bréfa­út­boðum í janú­ar og fe­brú­ar.

Að und­an­förnu hef­ur ávöxt­un­ar­krafa, sem gerð er til skulda­bréfa Reykja­vík­ur­borg­ar hækkað og er hún tölu­vert hærri en kröf­ur á sam­an­b­urðar­hæf bréf. Hækk­un ávöxt­un­ar­kröf­unn­ar má senni­lega rekja til ört versn­andi skulda­stöðu borg­ar­inn­ar og efa­semda um að gild­andi út­gáfu­áætlun stand­ist. Hækk­un kröf­unn­ar hef­ur leitt til þyngri vaxta­byrði Reykja­vík­ur­borg­ar á nýj­um lán­um.

Ávöxt­un­ar­krafa skulda­bréfa Reykja­vík­ur­borg­ar nálg­ast nú að vera 3% yfir sam­bæri­leg­um rík­is­skulda­bréf­um.

Fátt um svör hjá borg­ar­stjóra

Und­ir­ritaður tók málið upp á fundi borg­ar­stjórn­ar í dymb­il­viku og spurði borg­ar­stjóra, fram­kvæmda­stjóra borg­ar­inn­ar, hvernig borg­in væri að fjár­magna sig og á hvaða vöxt­um þegar slíkt hökt væri á skulda­bréfa­út­gáfu henn­ar.

Afar litl­ar upp­lýs­ing­ar feng­ust um málið hjá borg­ar­stjóra á fund­in­um. Svaraði hann ekki skýr­um spurn­ing­um, sem til hans var beint um málið. Sagði að hægt væri að ræða þessi mál í borg­ar­ráði eða við umræður um árs­reikn­ings borg­ar­inn­ar fyr­ir síðasta ár, sem fara munu fram í næsta mánuði. Er sér­kenni­legt að borg­ar­stjóri vilji helst ræða um fjár­mögn­un halla­rekstr­ar yf­ir­stand­andi árs með bak­sýn­is­spegli, þ.e. und­ir umræðu um upp­gjör liðins ár.

Borg­in til­kynnti í fyrra­dag að þegar hefðu verið seld skulda­bréf fyr­ir um 4,1 millj­arð króna á ár­inu auk þriggja millj­arða króna yf­ir­drátt­ar­láns (lánalínu) hjá Íslands­banka. Greini­legt er því að Reykja­vík­ur­borg er rek­in á yf­ir­drætti um þess­ar mund­ir.

Yf­ir­leitt er dýr­ara fyr­ir sveit­ar­fé­lög að taka yf­ir­drátt­ar­lán en gefa út skulda­bréf. Sé hins veg­ar lít­ill áhugi fyr­ir hendi hjá markaðsaðilum að kaupa skulda­bréf sveit­ar­fé­lags, get­ur það hins veg­ar neyðst til að taka yf­ir­drátt­ar­lán á enn hærri vöxt­um.

Björg­un­araðgerða er þörf

Þróun láns­fjár­mögn­un­ar Reykja­vík­ur­borg­ar að und­an­förnu er uggvæn­leg vís­bend­ing um mjög slæma fjár­hags­stöðu henn­ar. Svo virðist sem skulda­bréfa­markaður­inn sé hægt og ró­lega að loka á borg­ina.

Ef svo held­ur áfram er raun­veru­leg hætta á greiðsluþroti hjá Reykja­vík­ur­borg. Æskilegt er að fjár­hag­ur borg­ar­inn­ar verði tek­inn til skoðunar í eft­ir­lits­nefnd með fjár­mál­um sveit­ar­fé­laga og ráðuneyti sveit­ar­stjórn­ar­mála.

Mikl­ar vaxta­hækk­an­ir að und­an­förnu hljóta að leiða til þess að öll ábyrg fyr­ir­tæki og sveit­ar­fé­lög end­ur­skoði rekst­ur sinn og tak­marki nýj­ar lán­tök­ur eins og kost­ur er.

Ekki verður hjá því kom­ist að borg­ar­stjórn verði gerð skýr grein fyr­ir stöðunni sem fyrst og að í fram­hald­inu verði gripið til björg­un­araðgerða. Þær þurfa að fela í sér gagn­gera end­ur­skoðun á öll­um rekstri borg­ar­inn­ar og víðtæk­ar hagræðing­araðgerðir. Þá þarf að skoða sölu eigna í því skyni að grynnka á skuld­um.

Heild­ar­skuld­ir stefna í 464 millj­arða

Um síðustu ára­mót námu heild­ar­skuld­ir Reykja­vík­ur­borg­ar um 442 millj­örðum króna og höfðu þá hækkað um 35 millj­arða á milli ára. Áætlað er að skuld­irn­ar hækki um 22 millj­arða á ár­inu og nemi um 464 millj­örðum króna um næstu ára­mót.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 13. apríl 2023.