Fjölmiðlaflóran verður enn fátækari

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Öllum hef­ur verið það lengi ljóst eða mátt vera ljóst að um­svif rík­is­ins á inn­lend­um fjöl­miðlamarkaði gera sjálf­stæðum fjöl­miðlum erfitt fyr­ir – kippa rekstr­ar­grunni und­an sum­um miðlum og veikja mögu­leika annarra. Strand­högg er­lenda sam­fé­lags­miðla inn á ís­lensk­an aug­lýs­inga­markað ger­ir stöðuna enn erfiðari.

Um­svif rík­is­valds­ins á sam­keppn­ismarkaði þrengja eðli máls sam­kvæmt að einka­rekn­um fyr­ir­tækj­um. Lög­málið gild­ir jafnt um fjöl­miðla (og já, fjöl­miðlar eru á sam­keppn­ismarkaði), snyrti­vör­ur, fjár­málaþjón­ustu, fjar­skipti og öll önn­ur viðskipti. Þegar ákvörðun er tek­in um að ríkið skuli stunda ákveðna at­vinnu­starf­semi er um leið verið að taka ákvörðun um að draga úr um­svif­um einka­rek­inna fyr­ir­tækja. Þetta eru svo aug­ljós sann­indi að ekki þarf að deila um þau.

Heil­ög kýr, fíll og engisprett­ur

Það er at­hygl­is­vert að í hvert skipti sem kast­ljósið bein­ist að erfiðri stöðu sjálf­stæðra fjöl­miðla er tekið til varna fyr­ir Rík­is­út­varpið, sem er líkt og heil­ög kýr í huga margra – ekki síst, að því er virðist, for­ystu Blaðamanna­fé­lags Íslands. Allt fjöl­miðlaum­hverfi á að mót­ast af Rík­is­út­varp­inu og hags­mun­um þess. Sjálf­stæðum miðlum skal haldið á lífi en í súr­efn­is­vél­um rík­is­styrkja.

Síðastliðinn föstu­dag­ur var dap­ur dag­ur. Þá var til­kynnt að út­gáfu Frétta­blaðsins væri hætt og sjón­varpstöðin Hring­braut heyrði sög­unni til. Ekki eru marg­ar vik­ur síðan sjón­varps­stöðin N4 lagði upp laup­ana. Með þroti þess­ara miðla verður fjöl­miðlaflór­an á Íslandi fá­tæk­ari og sjón­ar­horn frétta og þjóðmá­laum­ræðunn­ar fá­breytt­ari. Sig­mund­ur Ern­ir Rún­ars­son, síðasti rit­stjóri Frétta­blaðsins, hef­ur rétti­lega sagt að það sé kol­vit­laust gefið á fjöl­miðlamarkaði. „Það þekkja all­ir sem reka einka­rekna fjöl­miðla í dag að það er mjög hart sótt að þeim af hinu op­in­bera,“ sagði rit­stjór­inn meðal ann­ars í sam­tali við Vísi.

Við Sig­mund­ur Ern­ir höf­um ekki alltaf verið sam­mála enda er það ekki sér­lega skemmti­legt að eiga bara góða vini sem eru sama sinn­is í öllu. En gagn­rýni hans er hár­rétt. Lögvar­in for­rétt­indi Rík­is­út­varps­ins hafa orðið til þess að heil­brigð sam­keppni á jafn­ræðis­grunni verður ekki tryggð með nein­um skyn­sam­leg­um hætti. Sé það ein­læg­ur vilji lög­gjaf­ans að jafna stöðuna, gera til­raun til að tryggja sæmi­lega heil­brigðan grunn und­ir rekst­ur sjálf­stæðra fjöl­miðla, verður það ekki gert án þess að skil­greina hlut­verk, skyld­ur og um­svif Rík­is­út­varps­ins að nýju. Ef það er ein­beitt­ur ásetn­ing­ur lög­gjaf­ans að ríkið stundi fjöl­miðlarekst­ur (sem ég hef aldrei skilið) verður a.m.k. að tryggja að um­svif­in hafi sem minnst nei­kvæð áhrif á einka­rekna miðla.

Ég hef leyft mér að kalla Rík­is­út­varpið fíl­inn í stof­unni og það hef­ur farið fyr­ir brjóstið á velunn­ur­um rík­is­rekstr­ar­ins. Magnús Ragn­ars­son, fram­kvæmda­stjóri miðla hjá Sím­an­um, hef­ur líkt sam­keppn­is­rekstri rík­is­ins á aug­lýs­inga­markaði við engisprettufar­ald­ur. Varn­ir einka­rek­inna fjöl­miðla eru litl­ar sem eng­ar.

Jafn­ræði rík­ir ekki

Svo það sé sagt enn og aft­ur: Jafn­ræði og sann­girni eru ekki til á ís­lensk­um fjöl­miðlamarkaði. Lög­vernduð for­rétt­indi rík­is­ins hafa leitt til þess að sjálf­stæðir fjöl­miðlar eru flest­ir veik­b­urða, marg­ir berj­ast í bökk­um og því miður hafa marg­ir siglt í strand. Það er þrek­virki að halda úti einka­rekn­um fjöl­miðlum á Íslandi.

Litl­ar eða eng­ar lík­ur eru á því, í ná­inni framtíðinni, að spil­in verði stokkuð upp og ríkið dregið út úr fjöl­miðla- og afþrey­ing­ar­rekstri. Mik­ill meiri­hluti þing­manna kem­ur í veg fyr­ir slíkt. Von­in er að hægt sé að jafna leik­inn með öðrum hætti. En þing­menn geta ekki keypt sér af­láts­bréf með því að inn­leiða beina rík­is­styrki líkt og marg­ir láta sig dreyma um – ekki síst rík­is­rekstr­arsinn­ar. Fyr­ir utan sam­keppn­is­rekst­ur rík­is­ins er fátt hættu­legra fyr­ir sjálf­stæða fjöl­miðla en verða háðir op­in­ber­um styrkj­um og nefnd­um hins op­in­bera. Fjöl­miðlun sem er háð hinu op­in­bera með bein­um hætti verður aldrei frjáls nema í orði – aldrei á borði.

Ég hef lengi bar­ist fyr­ir því að rekstr­ar­um­hverfi frjálsra fjöl­miðla verði styrkt með lækk­un skatta, auk þess sem bönd­um verði komið á sam­keppn­is­rekst­ur rík­is­ins. Nauðsyn­legt er að skattaí­viln­an­ir séu sam­ræmd­ar, gegn­sæj­ar og að jafn­ræðis sé gætt.

Tvisvar hef ég lagt fram frum­varp um að fella niður trygg­inga­gjald af einka­rekn­um fjöl­miðlum, a.m.k. upp að efsta þrepi tekju­skatts. Í hvor­ugt skiptið náði frum­varpið fram að ganga. Með slíkri íviln­un sitja all­ir fjöl­miðlar við sama borð og fá hlut­falls­lega sömu íviln­un. Af­nám virðis­auka­skatts af áskrift­um yrði einnig til að rétta stöðuna tölu­vert.

Skatta­leg­ar aðgerðir af þessu tagi eru skyn­sam­leg­ar og skil­virk­ar aðgerðir til að styðja við frjálsa fjöl­miðlun. Það er fagnaðarefni að menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra skuli hafa tekið und­ir að styrkja eigi rekst­ur frjálsra fjöl­miðla með skatta­leg­um aðgerðum.

Í des­em­ber 2021 lagði ég fram frum­varp um að Rík­is­út­varpið yrði dregið út af aug­lýs­inga­markaði í skref­um. Það kom ekki á óvart að frum­varpið náði ekki fram að ganga.

Sem sagt. Það liggja fyr­ir þrjár til­lög­ur um hvernig hægt er að styrkja stoðir sjálf­stæðra fjöl­miðla sé til þess póli­tísk­ur vilji:

– að fella niður trygg­inga­gjald af laun­um fjöl­miðla

– að af­nema virðis­auka­skatt af áskrift­um

– að draga Rík­is­út­varpið út af sam­keppn­ismarkaði fjöl­miðla.

Verði þess­um til­lög­um hrint í fram­kvæmd get­ur um­hverfi fjöl­miðla orðið heil­brigðara og sann­gjarn­ara. Hug­mynd­ir um beina rík­is­styrki er hægt setja ofan í skúffu og læsa henni. Að þessu loknu er hægt að snúa sér að því að verj­ast strand­höggi er­lendra sam­fé­lags­miðla.

Eitt er hins veg­ar víst. Á meðan ekk­ert er gert, leik­regl­un­um ekki breytt og ójafn­ræðið fær að ríkja, mun fjöl­miðlaflór­an verða fá­tæk­ari og fá­tæk­ari með hverju ár­inu sem líður.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. apríl 2023.