Frumjöfnuður ríkissjóðs batnar áfram

„Frumjöfnuður ríkissjóðs heldur áfram að batna milli ára og langt umfram fyrri áætlanir, svo nemur tugum milljarða. Útlit er fyrir að hann verði jákvæður í ár,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra á facebook síðu sinni í síðustu viku þegar Hagstofan birti bráðabirgðauppgjör opinberra fjármála fyrir árið 2022

„Skuldahlutföll eru fyrir vikið mun lægri en gert hafði verið ráð fyrir. Þegar við lögðum fram fimm ára fjármálaáætlun á síðari hluta Covid ársins 2020 gerðum við ráð fyrir að skuldir hins opinbera yrðu 55% af landsframleiðslu um áramótin 2022-2023. Raunin varð hins vegar sú að hlutfallið var um 40% um nýliðin áramót,“ sagði Bjarni.

Í frétt fjármálaráðuneytisins segir að áætlar tekjur ríkissjóðs í ár verði um 76 milljörðum hærri en búist var við í fjárlögum ársins samkvæmt endurmati ráðuneytisins. Það skýrist af meiri umsvifum en áður var gert ráð fyrir og meiri verðbólgu.

„Útlit er fyrir að tekjur verði um 20 ma.kr. umfram útgjöld ríkissjóðs í ár að frátöldum vaxtatekjum- og gjöldum og því verði frumjöfnuður jákvæður sem því nemur. Yrði það í fyrsta sinn frá árinu 2019 sem frumjöfnuður er jákvæður og næst sá áfangi ári fyrr en gildandi fjármálaáætlun gerir ráð fyrir.

Nemur batinn nálægt 70 ma.kr. miðað við fjárlög ársins, en áætlað var að hann yrði neikvæður um rúmlega 50 ma.kr. Gangi núverandi áætlanir eftir verður batinn til þess að ríkissjóður heldur nokkuð aftur af eftirspurn og þar með verðbólguþrýstingi árið 2023,“ segir í frétt ráðuneytisins.

Þar segir einnig að hraður bati á frumjöfnuði ríkissjóðs og öflugur efnahagsbati hafi leitt til þess að skuldahlutföll ríkissjóðs og hins opinbera séu mun lægri en áður var gert ráð fyrir.

„Þannig er gert ráð fyrir að skuldir hins opinbera, þ.e. ríkissjóðs og sveitarfélaga, við síðustu áramót hafi verið um 40% af landsframleiðslu samanborið við 55% samkvæmt fjármálaáætlun sem lögð var fram haustið 2020,“ segir í fréttinni.

Þann 21. mars birti Hagstofan bráðabirgðauppgjör opinberra fjármála fyrir árið 2022.

Fram kemur að halli ríkissjóðs hafi verið um 125 milljarðar króna á síðasta ári, leiðrétt fyrir afkomu lánasjóða og fyrirtækja. Um 75 milljarða króna hallans má rekja til vaxtajafnaðar sem er hátt í alþjóðlegum samanburði, þrátt fyrir að skuldahlutföll séu ekki há í alþjóðlegum samanburði.

Er það sagt stafa m.a. af því að verðbætur á verðtryggð lán ríkissjóðs séu gjaldfærðar á því ári se mþau falla til þótt þau verði aðeins greidd þegar lán komi á gjalddaga. Framsetning ríkisfjármála á Íslandi sé varfærin þegar kemur að þessum þáttum.

„Samkvæmt bráðabirgðauppgjörinu batnar frumjöfnuður ríkissjóðs milli ára. Hann var neikvæður um 185 ma.kr. árið 2021, sem er ríflega 86 ma.kr. betri niðurstaða en áætlað var í fjárlögum þess árs. Í fjárlögum ársins 2022 var gert ráð fyrir halla upp á rúmlega 131 ma.kr. það ár, en hann er nú talinn verða um 50 ma.kr.,“ segir í fréttinni.