Baráttan um bílastæðin

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Reykjavík:

 

Meirihluti Framsóknar, Pírata, Samfylkingar, og Viðreisnar gengur hart fram við að fækka almennum götustæðum í borginni án samráðs við íbúa.

Ágæti lesandi!

Hvernig yrði þér við ef þú kæmist að því að yfirvöld hefðu ákveðið að fækka mjög eða útrýma almennum bílastæðum í götunni við heimili þitt? Þetta væri gert án samráðs við þig og aðra íbúa götunnar.
Þegar þú loks næðir símasambandi við fulltrúa yfirvaldsins, væri svarið á þá leið að þú gætir bara lagt í næstu götu þótt augljóst væri að þar væru bílastæði af skornum skammti.

Þetta er nákvæmlega það sem gerist í Reykjavík í dag. Meirihluti Framsóknar, Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar vinnur ötullega að því að fækka bílastæðum í íbúahverfum í því skyni að gera fólki sem erfiðast fyrir að eiga bíl. Markmiðið er auðvitað að sem flestir Reykvíkingar losi sig við hinn hræðilega fjölskyldubíl.

Við hverja skipulagsbreytingu í grónum hverfum reynir meirihlutinn að fækka almennum bílastæðum í leiðinni eða útrýma þeim jafnvel alveg úr viðkomandi íbúagötu.

Ekkert samráð við Rauðarárstíg

Í júní 2022 lagði glænýr meirihluti Framsóknar, Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar til að öll almenn bílastæði (36 talsins) við Rauðarárstíg milli Hverfisgötu og Bríetartúns, yrðu lögð niður.
Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í ráðinu lögðum til að fyrirhugaðar breytingar yrðu kynntar fyrir íbúum og rekstraraðilum á umræddum götukafla og engin ákvörðun tekin fyrr en þeir hefðu fengið að tjá sig. Tillaga okkar um samráð var felld og breytingin keyrð í gegn með atkvæðum meirihlutans og VG.
Í ljósi þess að umræddum framkvæmdum er ekki lokið, lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins aftur til nýlega að íbúunum yrði boðið til samráðs um fyrirhugað brotthvarf allra bílastæða frá heimilum þeirra. Enn og aftur hafnaði vinstri meirihlutinn samráði við íbúana um málið.

Íbúum fjölgar við Brautarholt – bílastæðum fækkar

Í febrúar sl. samþykkti meirihluti Framsóknarflokks, Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar að fækka bílastæðum við Brautarholt um 19. Á sama tíma er verið að fjölga íbúðum við götuna um a.m.k. 78, sem hefur auðvitað mikla fjölgun íbúa í för með sér. Bílastæði skortir nú þegar við Brautarholt en ljóst er að með þessari breytingu er bílastæðamálum við götuna stefnt í mikið óefni. Hef ég fengið margar ábendingar um að þessi fækkun komi illa við íbúa Brautarholts.
Þá hafa íbúar við Skipholt, næstu götu við Brautarholt, mótmælt þessari fækkun bílastæða harðlega. Benda þeir á að hún muni valda íbúum annars staðar í Holtunum óþarfa átroðningi enda séu bílastæði í hverfinu nú þegar af skornum skammti.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til að fram færi  samráð við íbúa og rekstraraðila við Brautarholt og nágrenni vegna málsins. Fulltrúar meirihlutans höfnuðu því hins vegar algerlega.

Miklar breytingar á Mjölnisholti

Nú í marz 2023 samþykkti meirihluti Framsóknarflokks, Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar miklar breytingar á umferðarskipulagi Mjölnisholts og eru framkvæmdir áætlaðar á árinu. Mjölnisholti verður breytt í tvístefnugötu sem mun auka umferð um götuna. Þá munu breytingarnar hafa í för með sér brotthvarf flestra ef ekki allra bílastæða við Mjölnisholt en þau eru nú 24 talsins.
Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðum til að þessar veigamiklu breytingar á Mjölnisholti yrðu kynntar vandlega fyrir íbúum götunnar og þeim gefinn kostur á að tjá sig um þær áður en ákvörðun yrði tekin. Meirihlutinn vildi ekki heyra á slíkt minnst og vísaði tillögunni hiklaust frá.

Verður þín gata næst?

Það hlýtur að vera algert lágmark að viðamiklar breytingar á bílastæðum og umferðarskipulagi gatna séu kynntar vandlega fyrir íbúum og rekstraraðilum og þeim gefinn kostur á að lýsa skoðun sinn áður en yfirvöld taka ákvörðun. Slíkt væri í samræmi við háleitar yfirlýsingar meirihlutaflokkanna um gagnsæi í stjórnsýslu og mikið samráð við íbúa í skipulagsmálum.
Sú er hins vegar ekki raunin. Borgarstjórnarmeirihlutinn gengur hart fram við að framfylgja stefnu sinni um fækkun bílastæða, jafnvel í ört vaxandi íbúahverfum eins og Holtunum.
Á þessari stundu er ekki vitað hvar meirihlutinn hyggst næst fækka almennum bílastæðum. Það gæti verið hvaða íbúagata sem er. Leggja verður áherslu á vandað samráð við íbúa í slíkum málum og að borgin láti almenn bílastæði íbúa í friði, kjósi þeir svo.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 23. mars 2023