Fjárhagslegar þvinganir og hærri skattar

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Viðhorf til skatt­heimtu, hóf­semd­ar og sam­spils skatta og vel­meg­un­ar, kem­ur fram með ýms­um hætti. Það skal játað að oft á ég erfitt með að skilja hug­mynda­fræði skatt­heimtu­flokk­anna, sem bygg­ist á þeirri sann­fær­ingu að ríki og sveit­ar­fé­lög séu að „af­sala sér tekj­um“ ef skatt­ar og gjöld eru lækkuð eða ef skatt­ar eru lægri en leyfi­leg há­marks­álagn­ing sam­kvæmt lög­um.

Jafn­vel þegar gjöld eru hækkuð, en ekki jafn­mikið og hinir skattaglöðu höfðu hug á, er því haldið fram að um sé að ræða „eft­ir­gjöf“ tekna. Þannig var 50% hækk­un kol­efn­is­gjalda sögð „eft­ir­gjöf“ þar sem stjórn­ar­meiri­hluti taldi of langt gengið að hækka gjöld­in um 100%. Þegar fjár­magns­skatt­ur var hækkaður úr 20% í 22% var rík­is­stjórn­in sökuð um að „gefa eft­ir“ tekj­ur þar sem vel hefði verið hægt að hækka skatt­inn í 25% – jafn­vel 30%.

Þótt ég eigi erfitt með að skilja hug­mynda­fræði af þessu tagi átta ég mig sæmi­lega á þeirri sann­fær­ingu sem hún bygg­ist á: Sjálfsafla­fé ein­stak­linga er eign hins op­in­bera. Ríkið á allt það sem ein­stak­ling­ur­inn afl­ar og ríkið „af­sal­ar sér“ því sem hann held­ur eft­ir þegar búið er að greiða skatta og gjöld.

Í hug­um skattaglaðra vinstri manna er það merki um full­komið „getu­leysi“ til að afla ríki og sveit­ar­fé­lög­um tekna þegar skatt­stofn­ar eru ekki „full­nýtt­ir“ eins og það er kallað þegar annað hvort er slakað á skattaklónni eða op­in­ber gjöld eru ekki í hæstu hæðum sam­kvæmt lög­um. Að sama skapi er það eit­ur í bein­um vinstri manna að leggja til í lang­tíma­áætl­un­um um op­in­ber fjár­mál að auk­inn hluti hag­vaxt­ar verði eft­ir í vös­um ein­stak­ling­anna. Með því verður hlut­falls­leg stærð rík­is og sveit­ar­fé­laga af þjóðar­kök­unni minni þegar kak­an stækk­ar en engu að síður verður kökusneið þeirra stærri og verðmæt­ari.

Svo það sé sagt enn einu sinni. Skattaglaðir vinstri menn eru áhuga­sam­ari um að stækka sneið hins op­in­bera af þjóðar­kök­unni en að baka stærri köku. Með sama hætti eru þeir upp­tekn­ir af því að auka jöfnuð í þjóðfé­lag­inu en hafa minni áhyggj­ur af því að bæta al­menn lífs­kjör. Mar­gret Thatcher, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, gerði góðlát­legt grín að vinstri mönn­um og benti á að þeir vilji jafna kjör­in niður á við en hægri menn berj­ist fyr­ir því að bæta kjör allra upp á við.

Sveit­ar­fé­lög­um refsað

Í sam­ráðsgátt stjórn­valda ligg­ur skýrsla starfs­hóps um end­ur­skoðun á reglu­verki Jöfn­un­ar­sjóðs sveit­ar­fé­laga og drög að frum­varpi um breyt­ing­ar á lög­um um sjóðinn. Um það verður ekki deilt að end­ur­skoðunin er löngu tíma­bær. En til­lög­ur að breyt­ing­um valda mér áhyggj­um og þá ekki síst tvö af meg­in­mark­miðum sem virðist vera stefnt að:

 Að beita sveit­ar­fé­lög fjár­hags­leg­um þving­un­um til sam­ein­ing­ar í stað þess að inn­leiða fjár­hags­lega hvata.

 Að þvinga sveit­ar­fé­lög til að leggja á há­marks­út­svar. „Vannýt­ing“ út­svars verður dreg­in frá fram­lög­um úr Jöfn­un­ar­sjóði. Sem sagt: Nýti „sveit­ar­fé­lag ekki út­svars­hlut­fall að fullu komi til skerðing­ar á fram­lög­um úr Jöfn­un­ar­sjóði sem nemi vannýtt­um út­svar­s­tekj­um, þ.e. mis­muni á út­svari miðað við há­marks­álagn­ingu og út­svari miðað við álagn­ing­ar­hlut­fall sveit­ar­fé­lags“. Hið sama á við um álagn­ingu fast­eigna­gjalda.

Nái þess­ar til­lög­ur fram að ganga verður refsi­vend­in­um beitt harka­lega gagn­vart þeim sveit­ar­fé­lög­um sem hafa ákveðið að gæta hóf­semi í álög­um á íbúa – hóf­semi sem þeim er tryggð í lög­um um tekju­stofna sveit­ar­fé­laga. Til­lög­ur um refs­ingu vegna „vannýt­ing­ar“ af­nem­ur í reynd 3. og 23. gr. lag­anna, ann­ars veg­ar um fast­eigna­gjöld og hins veg­ar út­svar. Og þá er spurn­ing um raun­veru­legt sjálf­stæði sveit­ar­fé­laga gagn­vart rík­is­vald­inu.

Svo það sé skýrt. Á meðan ég sit á þingi mun ég aldrei samþykkja breyt­ing­ar af þessu tagi, jafn­vel þótt gild­andi regl­ur um Jöfn­un­ar­sjóðinn séu í mörgu gallaðar.

Það eru gild rök fyr­ir því að stuðla að sam­ein­ingu sveit­ar­fé­laga og/​eða tryggja aukna sam­vinnu þeirra. En sam­ein­ing verður að vera á for­send­um íbú­anna sjálfra. Til­raun­ir til lögþving­un­ar hafa ekki gengið eft­ir og þá virðist eiga að beita fjár­hags­leg­um þumal­skrúf­um til að ná fram póli­tísk­um mark­miðum um fækk­un sveit­ar­fé­laga. Vald­boð og þving­an­ir í stað já­kvæðra hvata. Til­skip­an­ir í stað val­frels­is íbú­anna.

Gegn sam­keppni og hóf­semd

Sveit­ar­fé­lög­in eru 64 tals­ins og hef­ur fækkað um 60 frá alda­mót­um. Flest voru sveit­ar­fé­lög­in 229 árið 1950. Rök­in fyr­ir sam­ein­ingu, sem fram til þessa hef­ur fyrst og síðast verið á for­send­um íbú­anna sjálfra, er hag­kvæmni stærðar­inn­ar (þó þar geti Reykja­vík aldrei orðið fyr­ir­mynd­in) og þar með meiri styrk­ur til að sinna þeim um­svifa­miklu og mik­il­vægu verk­efn­um sem hvíla á herðum sveit­ar­fé­lag­anna. En „stærðar­hag­kvæmn­in“ trygg­ir ekki að fjár­mun­ir íbú­anna séu nýtt­ir með skyn­sam­leg­um hætti eða þeir fari til þeirra verk­efna sem íbú­arn­ir leggja áherslu á. (Spyrjið íbúa höfuðborg­ar­inn­ar). Stærð sveit­ar­fé­lags er held­ur ekki ávís­un á góða þjón­ustu, ekki frek­ar en á góða fjár­hags­stöðu.

Í des­em­ber 2016 benti ég á það í grein að fátt veiti kjörn­um full­trú­um í sveit­ar­stjórn­um og stjórn­sýsl­unni allri meiri aga og aðhald en sam­keppni um íbú­ana og fyr­ir­tæk­in: „Í mörg­um til­fell­um munu sveit­ar­fé­lög telja það besta kost­inn að sam­ein­ast eða auka sam­vinnu til að vera bet­ur í stakk búin til að veita öfl­uga þjón­ustu og gæta hóf­semd­ar í álög­um á íbúa og fyr­ir­tæki. Sam­ein­ing yrði á for­send­um sam­keppn­inn­ar og betri þjón­ustu en ekki í leit – villu­leit – að hag­kvæmni stærðar­inn­ar, lík­lega með Reykja­vík­ur­borg sem sér­staka fyr­ir­mynd.“

Þær til­lög­ur sem kynnt­ar hafa verið um breyt­ing­ar á Jöfn­un­ar­sjóði draga úr sam­keppni sveit­ar­fé­laga og þar með verður aga­vald íbú­anna minna en ella. Að baki til­lög­un­um er vond hug­mynda­fræði þar hóf­semd í op­in­ber­um álög­um er tal­in merki um „getu­leysi“, „eft­ir­gjöf tekna“ og „vannýt­ingu tekju­stofna“. Verst er að fá staðfest­ingu á því hve hug­mynda­fræði skatt­heimtus­inna er orðin rót­gró­in í allri nálg­un þegar kem­ur að skatta- og gjalda­kerfi hins op­in­bera.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. mars 2023.