Börn eiga betri byggingar skilið

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir borgarfulltrúi:

Nú stefnir í enn meira neyðarástand í leikskólamálum í Reykjavík vegna starfsskerðingar eða lokunar fjölda leikskóla sem hafa orðið myglu og áratuga löngu viðhaldsleysi að bráð. Þrátt fyrir síendurtekin loforð Samfylkingarinnar um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskólans hefur innritunaraldur raunar farið hækkandi á mörgum leikskólum og nú stefnir í að börn komist ekki að fyrr en hátt í þriggja ára gömul í einhverjum leikskólum. Viðhaldsfælni allra meirihluta Samfylkingarinnar virðist vera inngróin í erfðamengi hennar enda hafa bæði leikskóla- og grunnskólabyggingar verið illa hirtar síðan 2008. Samfylkingin hefur innleitt metnaðarleysi í málefnum barna í borginni sem birtist ekki síst í skólabyggingum og umhirðu þeirra.

Fyrir stuttu síðan rakst ég á myndir frá sumrinu 1957 af borgarstjórahjónunum Gunnari Thoroddsen og Völu Ásgeirsdóttur ásamt Auði Auðuns borgarfulltrúa, síðar meir fyrsta kvenkyns borgarstjóra Reykjavíkur (öll frá Sjálfstæðisflokki), þar sem þau ganga á löngum dregli við hátíðlega athöfn í Melaskóla í tilefni heimsóknar finnsku forsetahjónanna. Saga Melaskóla er fyrir margt mjög merkileg en þá kannski sérstaklega fyrir það hversu táknrænn skólinn er fyrir ríkjandi viðhorf í uppbyggingu barnaskóla sem og annarra opinbera bygginga á þessum tíma. Þegar ákveðið var byggja Melaskóla í stríðslok var öllu tjaldað til og okkar færasta fólk fengið til að hanna og skreyta skólann af listaverkum. Skólahald hófst 1946 í reyndar ókláruðum skóla en afraksturinn var þessi glæsilega bygging utan um okkar dýrmætasta fólk.

Byggingin þótti svo mikil prýði að í fleiri áratugi lék skólinn lykilhlutverk í móttöku erlendra þjóðhöfðingja eins og finnsku forsetahjónanna en einnig má nefna að þegar þeir Gorbatsjov og Reagan komu hingað til lands til að ljúka kalda stríðinu fundum við samastað í Melaskóla fyrir alla erlendu ljósmyndarana sem fylgdu með til að sýna þeim okkar bestu hliðar. Þá má hafa í huga að þegar skólinn var byggður voru borgar- og ríkissjóður alls ekki jafn digrir og nú en metnaðurinn fyrir reykvísk börn var þess meiri. Margar bygginganna sem byggðar voru á þessum tíma og í þessum samfélagslega anda (t.d. Austurbæjarskóli) standa enn sem tímalausar og glæsilegar vörður í sögu Reykjavíkur.

Mér þykir stundum gleymast að borgir eru líka söfn og það eru þessar byggingar sem og litlu bárujárnshúsin sem trekkja að og segja sögu íbúa borgarinnar. Allt eru þetta miklar menningarminjar að mínu mati og fyrir vikið hefur sinnuleysi borgaryfirvalda gagnvart Melaskóla verið sérlega dapurlegt. Í áraraðir hafa skólastjórnendur og kennarar kallað eftir viðhaldsfé til skólans og listaverkum hans og varað við afleiðingum þessa hirðuleysis. Myglan á þar sérstakan sess líkt og í flestum skólabyggingum borgarinnar, ofan á allt hitt. Nú á að fara í viðhaldsátak í skólabyggingum borgarinnar sem svo sem er vonarglæta í annars myrkri sögu tæplega 15 ára viðhaldsleysis en átök og áætlanir hafa oftast reynst villuljós. Sjálfstæðismenn þurfa að komast í meirihluta í borgarstjórn og endurvekja metnaðinn til betri bygginga fyrir börn.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. mars 2023.