Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, Óli Björn Kárason þingmaður, Jón Pétur Zimsen skólastjóri og Elfa Lilja Gísladóttir, tónlistarkennari og verkefnastjóri barnamenningarverkefnisins List fyrir alla voru gestir á fyrsta opna fundi nýrrar stjórnar Málfundafélagsins Óðins á miðvikudaginn í síðustu viku. Yfirskrift fundarins var Jöfn tækifæri barna.
Birna Hafstein, formaður Óðins, segir stjórnina hafa lagt mikið kapp á að fá fagfólk til leiks á fundinn. ,,Umræðuefnið er mikilvægt og við vildum að fundurinn væri faglegur og fræðandi,” segir formaðurinn og bætir við að góð stemning hafi myndast í bókastofu Valhallar fyrir fundinn, þar sem lifandi tónlist tók á móti gestum.
Kristrún Lind Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Ásgarðs, stýrði pallborðsumræðum og Hjörtur Ingvi Jóhannsson, píanókennari og píanóleikari hljómsveitarinnar Hjaltalín, lék á píanó.
,,Þessi fundur lukkaðist vel enda var margt að ræða og við hefðum getað setið lengur og rætt þetta mikilvæga málefni sem þarf og á að vera upp á borðum hjá öllum stjórnmálaöflum, alltaf,” segir Birna.
Um var að ræða fyrsta fund í röð funda sem áætluð er út árið. ,,Við í stjórn Málfundafélagsins Óðins þökkum innilega þeim sem komu og tóku þátt í fundinum og ekki síst erum við þakklát þeim einstaklingum sem tóku þátt í pallborðsumræðum okkar,” segir Birna að lokum.
Næsti fundur málfundafélagsins verður í lok þessa mánaðar. Fundurinn verður auglýstur nánar síðar.