Gámurinn sem breytti heiminum

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Það er svo margt sem okk­ur þykir sjálfsagt í nú­tíma­sam­fé­lagi, sem þó ein­hvern tím­ann fól í sér bylt­ingu á ein­hverju sviði. Flutn­ingagám­ar eru gott dæmi.

Það þekkja ef­laust ekki marg­ir til banda­ríska frum­kvöðuls­ins Malcolms Mc­Le­an, en hann er þó þekkt­ast­ur sem faðir gáma­væðing­ar­inn­ar. Eft­ir að hafa út­skrif­ast úr gagn­fræðaskóla árið 1931 safnaði Mc­Le­an sér fyr­ir kaup­um á litl­um vöru­bíl. Örfá­um árum síðar stofnaði hann lítið flutn­inga­fyr­ir­tæki, með fimm bíla í rekstri. Hann lýsti því síðar hvernig hann fylgd­ist eitt sinn með hafn­ar­verka­mönn­um í nokkra klukku­tíma flytja vör­ur við af­ferm­ing­ar skipa og áttaði sig á því að um tölu­verða tíma­sóun væri að ræða. Það var þó ekki fyrr en tæp­um 20 árum síðar sem hann seldi fyr­ir­tæki sitt, tók viðbót­ar­lán og fjár­festi í öðru flutn­inga­fyr­ir­tæki til að þróa hug­mynd­ir sín­ar um gáma­væðingu frek­ar.

Fyr­ir gáma­væðing­una er áætlað að það hafi verið hægt að ferma um eitt tonn af vör­um í skip á klukku­tíma, en með gám­um var hægt að ferma um 30 tonn á sama tíma. Til að gera langa sögu stutta vatt rekst­ur­inn upp á sig og brátt voru skip í eigu Mc­Le­an far­in að flytja vör­ur í gám­um á milli hafn­ar­borga á 25% lægra verði en áður hafði þekkst. Síðar átti gáma­væðing­in eft­ir að lækka flutn­ings­kostnað enn frek­ar og ýta þar með und­ir frek­ari alþjóðaviðskipti með til­heyr­andi hag­sæld fyr­ir fólk út um all­an heim. Í dag eru um 90% af vör­um heims flutt í gám­um.

Þetta fram­fara­skref kom þó ekki til án vand­ræða. Það reyndu marg­ir að tala þessa þróun niður, sögðu að um draumóra væri að ræða og að hvorki fram­leiðend­ur né viðskipta­vin­ir kærðu sig um þessa flutn­ingsaðferð. Þá var ljóst að hafn­ar­verka­mönn­um myndi fækka og snemma á átt­unda ára­tugn­um, nokkr­um árum eft­ir að gáma­væðing­in hófst, fóru hafn­ar­verka­menn víða um Banda­rík­in í verk­fall og reyndu að trufla gáma­flutn­inga.

Það eru nokkr­ar lex­í­ur sem hægt er að draga af þess­ari stuttu sögu um þetta fram­far­skref mann­kyns­ins. Fyr­ir það fyrsta er þetta enn ein áminn­ing­in um það hverju frum­kvöðlar sem láta drauma sína ræt­ast geta áorkað ef þeir gef­ast ekki upp þrátt fyr­ir ýms­ar mót­bár­ur.

Önnur lexía er sú að Mc­Le­an þurfti fjár­magn til að fylgja verk­efn­inu eft­ir. Hann rak og byggði upp sitt eigið fyr­ir­tæki sem hann síðar seldi, en þurfti þó á viðbótar­fjármagni að halda. Í þessu til­viki tók hann lán en þetta minn­ir okk­ur samt á að það þarf ein­hver að vera til­bú­inn til að taka áhættu og leggja fjár­magn und­ir til að ýta und­ir tækniþróun og fram­far­ir.

Enn önn­ur lexía er sú að við eig­um ekki að vera hrædd við framtíðina. Þrátt fyr­ir tíma­bund­in óþæg­indi, breyt­ing­ar á störf­um og mögu­lega ein­hverja óvissu, þá er al­manna­hag­ur­inn það mik­ill að það gagn­ast öllu sam­fé­lag­inu og stund­um öll­um heim­in­um.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. mars 2023.