Sláandi tölur sem kalla á umræðu

Guðrún Hafsteinsdóttir alþingismaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Op­in­ber­um starfs­mönn­um fjölgaði um 11.400 á ár­un­um 2015-2021 eða um 21,4%. Á sama tíma fjölgaði starfs­fólki á al­menn­um vinnu­markaði um 4.200 eða um 3%.

Þetta kem­ur fram í skýrslu sem Fé­lag at­vinnu­rek­enda lét gera og kynnti ný­lega á árs­fundi sín­um. Skýrsl­an ber yf­ir­skrift­ina Er ekki bara best að vinna hjá rík­inu? og er allr­ar at­hygli og umræðu verð. Ég ræddi um fjölg­un op­in­berra starfa á þess­um árs­fundi Fé­lags at­vinnu­rek­enda og í fram­hald­inu í út­varpsþætt­in­um Sprengisandi á Bylgj­unni þar sem líka var for­ystumaður einna af stærstu heild­ar­sam­tök­um launa­fólks á vinnu­markaðnum. Sá hafði það ít­rekað til mál­anna að leggja að með því að ræða þenn­an kjarna skýrsl­unn­ar um­ræddu væri „talað niður til op­in­berra starfs­manna“ (!) og viðraði jafn­framt afar þrönga og sér­staka sýn sína á sam­hengi hluta á vinnu­markaði og í sjálfu hag­kerf­inu.

Nefnd­ur viðmæl­andi í út­varpsþætt­in­um skýrði heild­ar­fjölg­un op­in­berra starfs­manna með aukn­um um­svif­um í heil­brigðis­kerf­inu vegna heims­far­ald­urs­ins og fjölg­un op­in­berra starfa tengd­um vinnu­markaðsúr­ræðum vegna at­vinnu­leys­is. Ekki dett­ur mér í hug að and­mæla því og tek und­ir að skýr­ing­una megi að ein­hverju leyti rekja til þessa en alls ekki alla. Mesta at­hygli vek­ur nefni­lega sú niðurstaða að störf­um í op­in­berri stjórn­sýslu hafi fjölgað mest. Þar bætt­ust við 4.600 starfs­menn á ár­un­um 2015-2021 sem jafn­gild­ir fjölg­un um 60%!

Þess­ar upp­lýs­ing­ar segja sögu sem eðli­legt er að ræða og velta fyr­ir sér or­sök og af­leiðing­um án þess að hlaupið sé í skot­graf­ir og talað sé um að slík umræða jafn­gildi því að „tala niður“ til op­in­berra starfs­manna. Ég frá­bið mér með öllu að slíkt vaki fyr­ir mér, fjarri því.

Merki­legt er ann­ars til þess að hugsa að á und­an­förn­um árum og ára­tug­um hafi vinnu­markaður­inn okk­ar þró­ast með þeim hætti að einka­geir­inn á oft í vand­ræðum með að fá fólk til starfa í sam­keppni við op­in­bera geir­ann og kjaraþró­un­ina þar. Samt held­ur einka­markaður­inn op­in­bera kerf­inu uppi, eðli máls sam­kvæmt!

  • Laun eru orðin hærri víða í op­in­bera kerf­inu en á einka­markaði.
  • Líf­eyr­is­rétt­indi eru orðin jöfn í op­in­bera geir­an­um og á einka­markaði.
  • Vinnu­tím­inn er styttri hjá hinu op­in­bera.
  • Starfs­ör­yggið er meira með ráðning­ar­vernd hins op­in­bera.
  • Verðmæt­in verða til í einka­geir­an­um til að standa und­ir stjórn­sýslu og op­in­berri starf­semi að stór­um hluta.

Skrifað er í ský­in að rík­is­út­gjöld eiga eft­ir að aukast vegna öldrun­ar þjóðar­inn­ar. Eng­in önn­ur viðbrögð duga en að auka verðmæta­sköp­un í land­inu og það meira en lítið. Við verðum að stækka kök­una. Skapa fleiri störf og stór­auka gjald­eyris­tekj­ur. Fyr­ir ligg­ur að við þurf­um að auka út­flutn­ing um þúsund millj­arða króna á næstu tveim­ur ára­tug­um til að halda hér uppi þeim lífs­gæðum sem við þekkj­um í dag. Það ger­ir um millj­arð króna á viku!

Eina leiðin og eina ráðið til að auka verðmæta­sköp­un er að örva einkafram­takið enda verður nán­ast all­ur út­flutn­ing­ur til í einka­geir­an­um. Straum­ur­inn ligg­ur hins veg­ar í aðra átt í sam­fé­lag­inu okk­ar og það er með mikl­um ólík­ind­um. Það birt­ist ekki síst í stór­fjölg­un starfa hjá ríki og sveit­ar­fé­lög­um á sama tíma og störf­um fjölg­ar tak­markað á al­menn­um markaði.

Hvað sem hver seg­ir þá ber brýna nauðsyn til þess að stíga á brems­ur, stöðva þenslu op­in­bera kerf­is­ins, koma á það bönd­um og draga úr um­svif­um þess með því að flytja þaðan verk­efni og störf til einka­geir­ans í mun meira mæli en gert hef­ur verið. Í þeim efn­um höf­um við ekki val.

Við verðum í raun að starfa í sam­ræmi við þá staðreynd að verðmæt­in skap­ast í at­vinnu­rekstri einkafram­taks­ins en ekki í skrif­borðsskúff­um op­in­berra emb­ætt­is­manna. Mörg dæmi eru hins veg­ar um að stjórn­mála­menn og emb­ætt­is­menn hafi sann­fær­ingu fyr­ir því að verðmæt­in skap­ist inn­an skrif­stofu­veggja hins op­in­bera. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. febrúar 2023.