Til móts við fólkið í landinu

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Á hverju ári hef­ur þing­flokk­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins farið í hring­ferð um landið. Þegar þessi skrif birt­ast erum við á Hvols­velli á leið til fund­ar á Hellu. Við lögðum í hann síðastliðinn föstu­dag, fór­um um Vest­ur­land og Snæ­fells­nes og gist­um á góðu hót­eli á Laug­ar­bakka í Miðfirði. Þaðan lá leiðin á Blönduós, til Skaga­strand­ar og Sauðár­króks. Svo var það Siglu­fjörður og Ólafs­fjörður, þar sem við gist­um. Eft­ir góðan morg­un­mat var farið til Dal­vík­ur, Ak­ur­eyr­ar og í Mý­vatns­sveit, en hluti hóps­ins heim­sótti Húsa­vík, Raufar­höfn og Þórs­höfn. Við sam­einuðumst seint að kvöldi á Eg­ils­stöðum og morg­un­inn eft­ir var farið niður á firði; Nes­kaupsstaður, Eskifjörður og Reyðarfjörður. Og svo var það Djúpi­vog­ur og Höfn. Í gær vor­um við á Kirkju­bæj­arklaustri og Hvols­velli. Fram und­an eru Hella, Flúðir, Sel­foss, Hvera­gerði, Ölfus, Grinda­vík, Reykja­nes­bær og loks Vog­ar sem verður okk­ar síðasti viðkomu­staður að þessu sinni. Eft­ir páska er stefnt að ann­arri ferð og þá verða Vest­f­irðir málaðir blá­ir!

Fátt er mik­il­væg­ara fyr­ir þing­menn en að vera í góðum tengsl­um við kjós­end­ur. Þekkja aðstæður þeirra – skilja hvað má bet­ur fara og kynn­ast því sem vel er gert. Við sem sækj­umst eft­ir stuðningi kjós­enda til að sitja á Alþingi þurf­um að kunna að hlusta og taka gagn­rýni. Við verðum að vera til­bún­ir til að koma til móts við fólkið í land­inu og eiga við það sam­tal á jafn­ræðis­grunni.

Við höf­um átt fundi, heim­sótt vinnustaði og átt sam­töl við hundruð manna í ná­vígi. Okk­ur hef­ur verið boðið inn á heim­ili fólks, þegið þar kaffi og kræs­ing­ar og átt skemmti­leg og gef­andi sam­töl við gest­gjaf­ana, ná­granna þeirra og vini.

Meiri skiln­ing­ur

Oft finnst mér eins og það sé meiri skiln­ing­ur út á landi en á höfuðborg­ar­svæðinu á því að at­vinnu­lífið – fyr­ir­tæk­in í land­inu – skapa þau verðmæti sem okk­ur eru nauðsyn­leg til að standa und­ir vel­ferðarsam­fé­lag­inu. Út á landi ger­ir fólk meiri kröf­ur til sjálfs sín en annarra en það ætl­ast um leið til þess að hagræn­ir innviðir séu sterk­ir; góðar sam­göng­ur, öfl­ug ljós­leiðara­teng­ing, trygg og nægj­an­leg raf­orka. Traust­ir innviðir eru for­senda líf­væn­legs at­vinnu­lífs. Ekk­ert byggðarlag kemst af án at­vinnu­lífs­ins. Á lands­byggðinni þekk­ir fólk af eig­in raun að þegar fyr­ir­tækj­un­um geng­ur vel, þá geng­ur sam­fé­lag­inu vel.

Kraft­ar einkafram­taks­ins eru sýni­legri í fá­menni en fjöl­menni. Fram­taks­semi og hug­vit eins breyt­ir sam­fé­lagi, styrk­ir það og ger­ir það fjöl­breyti­legra. Í sam­býli við sjó­inn er það lífs­spurs­mál að sjáv­ar­út­veg­ur fái að dafna. Með sama hætti er land­búnaður und­ir­staða blóm­legra byggða. Ferðaþjón­ust­an er ný stoð með fjöl­breyti­leika sem hef­ur gefið áður óþekkt tæki­færi til ný­sköp­un­ar.

Þau eru mörg mál­in – lít­il og stór – sem fólk hef­ur rætt við okk­ur. Það er bjart­sýnt á framtíðina og reiðubúið til að tak­ast á við áskor­an­ir. Á lands­byggðinni sjá menn tæki­fær­in til at­vinnu- og verðmæta­sköp­un­ar. Skilja hve mik­il­vægt það er að sköp­un­ar­kraft­ur og hug­vit ein­stak­ling­anna sé virkjað. Vita af eig­in raun hverju mik­il­vægt það er að op­in­bert reglu­verk og kerfið sé ekki að „flækj­ast“ fyr­ir og gera ein­stak­ling­um erfiðara fyr­ir.

 

Lík­lega er það þess vegna sem hug­mynda­fræði tor­tryggn­inn­ar fest­ir illa ræt­ur út á landi. Hug­mynda­fræði átaka, sem þrífst á að reka fleyg milli launa­fólks og at­vinnu­rek­enda, milli kyn­slóða og milli dreif­býl­is og þétt­býl­is, á erfitt upp­drátt­ar meðal þeirra sem vita hvernig verðmæt­in verða til. Þeir sem skilja sam­hengið milli arðbærra fyr­ir­tækja, blóm­legs byggðarlags og öfl­ugs vel­ferðar­kerf­is, treysta en tor­tryggja ekki.

Verk­efna­listi

Hring­ferð okk­ar þing­manna Sjálf­stæðis­flokks­ins hef­ur treyst enn frek­ar tengsl­in við fólkið í land­inu og aukið skiln­ing á þeim tæki­fær­um sem eru til staðar um allt land. Við höf­um fengið að kynn­ast bet­ur þeim áskor­un­um sem ein­stök byggðalög standa frammi fyr­ir. Við höf­um enn og aft­ur fengið staðfest­ingu á því hve hug­vit og ný­sköp­un er rík­ur þátt­ur í at­vinnu­líf­inu – hve fram­taks­semi ein­stak­ling­anna skipt­ir miklu.

Ég játa að fjör­leg­ir fund­ir og hrein­skiptn­ar sam­ræður við fólk, fyr­ir­tækja­heim­sókn­ir og inn­lit inn á heim­ili fólks eru meira gef­andi en að sitja und­ir málþófi á þingi. Raun­heim­ar gagn­vart sýnd­ar­veru­leika án inni­halds.

Úr hring­ferðinni kom­um við vel nestuð inn í póli­tíska bar­áttu kom­andi miss­era og mánaða. Verk­efn­in eru fjöl­mörg, sum ein­föld en önn­ur flók­in. Það er ætl­ast til þess að við ryðjum úr vegi hindr­un­um, ein­föld­um leik­regl­urn­ar, tryggj­um hagræna innviði og sýn­um í verki að við treyst­um fólki.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. febrúar 2023.