Stærsta tækifæri Íslands

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra:

Í ný­legri sam­an­tekt um fjár­fest­ingu í ný­sköp­un á Íslandi á veg­um Northstack kem­ur fram að aldrei fyrr hafi jafn­mikl­ir fjár­mun­ir verið sett­ir í hug­vits­drifna ný­sköp­un á Íslandi og árið 2022. Það sæt­ir ekki síður tíðind­um að sam­kvæmt ann­arri sam­an­tekt sem greint var frá í októ­ber sl. þá var fjár­fest­ing í ný­sköp­un meiri á Íslandi á fyrri hluta árs 2022 miðað við höfðatölu en nokk­urs staðar ann­ars staðar í heim­in­um, að Eistlandi und­an­skildu. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um sem ég aflaði mér hjá Northstack fyr­ir þessa grein þá var ný­sköp­un­ar­fjárfest­ing enn meiri hér á landi á síðari hluta árs 2022 en á fyrri hlut­an­um (lík­lega tvö­falt meiri). Árið 2022 var því al­gjört metár þegar kem­ur að um­fangi fjár­fest­ing­ar í hug­vits­drif­inni ný­sköp­un á Íslandi.

Margt bend­ir því til þess að um þess­ar mund­ir sé fjár­mögn­un­ar­um­hverfi fyrstu stiga ný­sköp­un­ar á Íslandi með því besta sem ger­ist í heim­in­um; sem sagt — sá eða sú sem fær góða hug­mynd á Íslandi hef­ur prýðileg­an mögu­leika til þess að fá það fjár­magn sem þarf til að kom­ast af stað. Þar með er þó ekki sagt að stór­ir sigr­ar séu endi­lega í höfn. Í áhættu­sömu um­hverfi ný­sköp­un­ar skila flest verk­efni litl­um eða eng­um efna­hags­leg­um ábata fyr­ir fjár­festa; en sá minni­hluti verk­efna sem skil­ar ár­angri veg­ur þessa áhættu hins veg­ar upp. Það er því lyk­il­atriði að hafa mörg egg í ólík­um körf­um og að til staðar sé þekk­ing til þess að skapa verðmæti og viðskipta­tæki­færi úr þeim tæki­fær­um sem skap­ast.

Það er því góðs viti að í ný­sköp­un­ar­um­hverf­inu ís­lenska um þess­ar mund­ir fer ekki aðeins upp­hæð heild­ar­fjárfest­ing­ar hækk­andi held­ur hafa aldrei fleiri verk­efni og sprota­fyr­ir­tæki fengið fjár­fest­ingu á svo­kölluðu „klak­stigi.“ Slík fjár­mögn­un gef­ur stjórn­end­um tæki­færi til þess að þróa vöru eða viðskipta­hug­mynd um nokk­urt skeið með nokkr­um starfs­mönn­um áður en sóst er eft­ir frek­ari fjár­mögn­un eða arðbær sala á afurðinni hefst.

Ef­laust eru marg­ar skýr­ing­ar á þess­ari góðu stöðu. Ein er sú að nýir ís­lensk­ir vís­is­sjóðir hafa tekið til starfa og var árið 2021 metár í þeim efn­um eft­ir mörg mög­ur ár þar á und­an. Þessi teg­und sjóða er ólík hefðbundn­um fjár­fest­ing­ar­sjóðum að því leyti að með fjár­fest­ingu í fyr­ir­tæki fylg­ir sérþekk­ing um stjórn­un, viðskiptaþróun og alþjóðleg reynsla og tengsl sem styður við frek­ari vöxt. Til­vist góðra vís­is­sjóða snýst því alls ekki ein­ung­is um fjár­magn held­ur þarf hún að fela í sér verðmæta sérþekk­ingu ef hún á að nýt­ast fyr­ir ný­sköp­un­ar­um­hverfið í heild sinni.

Við blas­ir að smæð ís­lensks markaðar reis­ir skorður við því hversu mikið inn­lent fjár­magn fæst í áhættu­söm ný­sköp­un­ar­verk­efni. Það er því mikið heil­brigðis­merki á ís­lensku ný­sköp­un­ar­um­hverfi um þess­ar mund­ir að lang­stærst­ur hluti fjár­fest­ing­ar í ís­lenskri ný­sköp­un er alþjóðleg. Af þeim 390 millj­ón­um banda­ríkja­dala (tæp­lega 55 millj­örðum króna) sem fjár­fest var fyr­ir árið 2022 komu 78% frá alþjóðleg­um fjár­fest­um utan Íslands. Veru­leg­ur mun­ur er hins veg­ar á því hvers kon­ar fjár­mögn­un ís­lensk­ir og er­lend­ir fjár­fest­ar taka þátt í; og er það annað heil­brigðis­merki á ís­lenska ný­sköp­un­ar­um­hverf­inu að á fyrstu fjár­mögn­un­arstig­um fyr­ir­tækja eru það einkum inn­lend­ir sjóðir sem standa straum af fjár­mögn­un­inni. Eft­ir því sem fyr­ir­tæk­in stækka þurfa þau að stand­ast alþjóðlega sam­keppni um bæði viðskipti og áhættu­fjár­magn. Þessi þróun; að alþjóðleg­ir fjár­fest­ar séu leiðandi þegar upp­hæðirn­ar hækka er al­gjört lyk­il­atriði fyr­ir hið smáa ís­lenska hag­kerfi. Öll fyr­ir­tæki sem ástunda ný­sköp­un þurfa að stand­ast alþjóðlega sam­keppni. Ef þeim á að tak­ast að ná þeirri stærð sem slík sam­keppn­is­hæfni krefst er óhjá­kvæmi­legt að þau vaxi út fyr­ir ís­lensk­ar ræt­ur sín­ar; hleypi heimdrag­an­um og verði alþjóðleg.

Hug­vits­drif­in ný­sköp­un á borð við þá sem laðar að sér alþjóðlegt áhættu­fjár­magn er ákaf­lega ábata­söm og eft­ir­sókn­ar­verð. Slík starf­semi skap­ar áhuga­verð, um­hverf­i­s­væn og skap­andi störf auk þess að vera for­senda efna­hags­legra fram­fara. Víða um heim hafa stjórn­völd því gert metnaðarfull­ar til­raun­ir til þess að umbreyta trénuðu at­vinnu­lífi í blómstrandi upp­sprett­ur ný­sköp­un­ar og fram­fara. Í þeim efn­um skipt­ir þó máli að fara með gát, því raun­veru­lega frjótt ný­sköp­un­ar­um­hverfi þarf lang­an tíma til þess að mót­ast og þarf sú mót­un að stærst­um hluta að vera sjálfsprott­in og án stór­karla­legra inn­gripa frá stjórn­völd­um. Hinar nýju töl­ur frá Northstack benda til þess að Íslandi sé að tak­ast að treysta grund­völl fyr­ir ís­lenska framtíð sem bygg­ist á alþjóðlega sam­keppn­is­hæfri og hug­vits­drif­inni ný­sköp­un. Þetta er stærsta efna­hags­lega og sam­fé­lags­lega tæki­færi Íslands.

Í ný­sköp­un­ar­stefnu ís­lenskra stjórn­valda sem við sett­um fram á síðasta kjör­tíma­bili og ég er mjög stolt af, var unnið eft­ir þeirri til­gátu að fimm meg­in­stoðir þyrftu að vera til staðar svo hug­vits­drif­in ný­sköp­un gæti þrif­ist. Þær eru mannauður, hug­ar­far, um­gjörð, fjár­magn og markaðsaðgengi. Ég var sann­færð um það þá og það blas­ir við nú, að sú vinna hafði já­kvæð áhrif á þróun ný­sköp­un­ar­um­hverf­is­ins á Íslandi en þar var meðal ann­ars lögð mik­il áhersla á að efla um­hverfi vís­is­sjóða. Ef Ísland ætl­ar að halda áfram á þeirri veg­ferð að vera sam­fé­lag sköp­un­ar og hug­vits þarf ekki ein­ung­is að huga að þess­um þátt­um inn­an­lands, held­ur þurfa áhersl­ur okk­ar í sam­skipt­um við um­heim­inn að end­ur­spegla þenn­an metnað. Ég hef til að mynda lagt áherslu á það í störf­um mín­um sem ut­an­rík­is­ráðherra að tala sér­stak­lega fyr­ir mik­il­vægi tján­ing­ar­frels­is; því það að hugsa frjálst er for­senda nýrra hug­mynda, hvort sem á sviði lista, vís­inda eða viðskipta. Þá skipt­ir máli að ut­an­rík­is­póli­tísk afstaða Íslands haldi áfram að grund­vall­ast á virðingu fyr­ir mann­rétt­ind­um, lýðræði og rétt­ar­rík­inu; því ekki ein­ung­is er það hin siðferðis­lega rétta afstaða held­ur ein af for­send­um þess að Ísland njóti áfram virðing­ar og vel­vild­ar.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 12. febrúar 2023.