Stækkum kökuna

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Í heimi íþrótt­anna er stund­um talað um mik­il­vægi þess að hrista upp í liðinu.“ Svona hófst Morg­un­blaðsgrein mín um nýtt ráðuneyti há­skóla, iðnaðar og ný­sköp­un­ar fyr­ir ári. Við eig­um hvort sem það er í íþrótt­um eða stjórn­mál­un­um að hugsa í nýj­um lausn­um og tæki­fær­um, hlaupa hratt um leið og við höld­um fókus og sækj­um fleiri sigra.

Við eig­um að horfa til þess að stækka kök­una áður en við skipt­um henni. Það ger­um við með stefnu­mörk­un, for­gangs­röðun og vand­virkni í ákv­arðana­töku. Ég er sann­færð um það að mála­flokk­arn­ir sem heyra und­ir ráðuneytið séu þeir sem geta skapað mestu tæki­fær­in til vaxt­ar í ís­lensku hag­kerfi. Segja má að ráðuneytið haldi utan um stærsta efna­hags­málið, það teng­ir há­skól­ana, vís­ind­in, ný­sköp­un og þekk­ing­ariðnað til að skapa ný störf, ný tæki­færi um leið og þau færa gam­al­grón­um at­vinnu­grein­um og op­in­berri þjón­ustu ferska vinda. Við höf­um séð hvernig iðnaður sem bygg­ist á nýrri þekk­ingu hef­ur vaxið sem út­flutn­ings­grein og það eru tæki­færi fyr­ir hendi til að gera enn bet­ur, búa til frek­ari verðmæti og stækka kök­una.

Á for­send­um ein­fald­ara lífs, frels­is og sam­keppni hef­ur okk­ur tek­ist að leysa ýmis mál á þessu eina ári. Verk­efnið snýst að miklu leyti um að leysa krafta úr læðingi í staðinn fyr­ir að vera fast­ur í skri­fræði eða flók­inni laga­setn­ingu. Það blasa við ýms­ar áskor­an­ir í sam­fé­lag­inu og meðal ann­ars hef­ur verið kallað eft­ir aukn­um slag­krafti og sveigj­an­leika gagn­vart lands­byggðinni, auknu fjar­námi, betra aðgengi alþjóðlegra sér­fræðinga, fleira heil­brigðis­starfs­fólki og leik­skóla­kenn­ur­um auk stuðnings við inn­leiðingu ný­sköp­un­ar. Öll þessi verk­efni eru kom­in í fram­kvæmd á þessu eina ári.

Slík­ur ár­ang­ur hefði ekki náðst nema með breyttu hug­ar­fari og skýrri sýn og for­gangs­röðun á hverju við ætl­um að ná fram. Breytt vinnu­lag ásamt ýms­um aðgerðum til að skapa ráðuneyti með minni yf­ir­bygg­ingu og meiri skil­virkni. Meiri ár­ang­ur á skemmri tíma en á sama tíma er lögð áhersla á mál­efna­leg og gagn­sæ vinnu­brögð.

Ég hef stund­um verið hvött til þess að búa til besta ráðuneytið á Íslandi, en svara því yf­ir­leitt þannig að ég vildi búa til besta ráðuneytið fyr­ir Ísland. Ráðuneyti sem trygg­ir og styður við að við náum ár­angri fyr­ir Ísland til skemmri og lengri tíma. Því framtíðin er jú það sem þetta snýst allt sam­an um.

Íslenskt sam­fé­lag er nú í kjör­stöðu til þess að horfa til framtíðar og sækja fram í þágu vax­andi vel­sæld­ar.

Það ligg­ur fyr­ir að stjórn­kerfið þarf að vera í stakk búið til að leiða þá þróun sem hið op­in­bera þarf að leiða og sinna því þjón­ustu­hlut­verki sem það þarf að sinna. Þess vegna þarf stund­um að hrista upp í liðinu eins og á íþrótta­vell­in­um. Þannig sækj­um við fleiri sigra og stækk­um kök­una.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. febrúar 2023.