Yfirvofandi þjónustuskerðing

Alda Pálsdóttir og Sigurður Einar Guðjónsson, fyrir hönd D-listans í Hveragerði:

Undanfarna mánuði hafa miklar breytingar átt sér stað á Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings. Það liggur fyrir að samlagið verður lagt niður innan fárra vikna og starfsmenn eru nú þegar farnir að róa á önnur mið. Það virðist vera að nýr meirihlut bæjarstjórnar sé ekki tilbúinn með áætlun sem miðar að því að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin.

Nú þegar hefur átt sér stað þjónustuskerðing á starfseminni sem kemur niður á skjólstæðingum Hveragerðisbæjar í viðkomandi málaflokki. Skóla- og velferðarþjónusta er mikilvæg þjónusta sem vert er að standa vörð um og þess vegna höfum við í D-listanum bent ítrekað á mikilvægi þess að bæjarstjórn bregðist við þeirri stöðu sem upp er komin og á satt að segja ekki að koma okkur á óvart.

Þjónusta með minni hættu á hagsmunaárekstrum og vanhæfni

Byggðasamlag um Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings (SVÁ) var stofnað 2013. Samlagið samanstendur af Hveragerðisbæ, Bláskógabyggð, Flóahreppi, Grímsnes- og Grafningshreppi, Hrunamannahreppi, Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Sveitarfélaginu Ölfus.

Á haustdögum 2021 var gerð úttekt og greining á því hvort samstarfið henti Hveragerðisbæ jafn vel eftir íbúafjölgun  eða hvort aðrir möguleikar henti þjónustuþegum enn betur. Í lok desember 2021 skiluðu úttektaraðilar skýrslu til bæjaryfirvalda. Mat hópsins var að þessi leið (samlagið) væri líklegust til að skila sveitarfélögunum hagkvæmri þjónustu með faglegri breidd, öflugum stuðningi við og milli sérfræðinga, gæðum við ákvarðanatöku og minni hættu á hagsmunaárekstrum og vanhæfni. Þetta gefur jafnframt meiri möguleika á að innleiða ákvæði farsældalaganna með skilvirkum hætti. Stærri rekstrareiningar eru taldar vera meira aðlaðandi vinnustaðir fyrir sérfræðimenntað starfsfólk og því auðveldara að manna þær, og möguleikar á sérhæfingu starfsmanna eru að sama skapi meiri.

Örugg skref á krefjandi tímum

Þann 7. júní 2022 lögðu fulltrúar D-listans fram tillögu á fundi bæjarstjórnar þess efnis að fenginn yrði óháður aðila til að meta stöðu Hveragerðisbæjar gagnvart Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings og gera grein fyrir þeim kostum sem Hveragerðisbæ standi til boða er varðar framhald á skóla- og velferðarþjónustu í Hveragerði. Úttektina skyldi leggja fram á fyrsta fundi bæjarráðs í október. Tillagan var felld með fimm atkvæðum nýs meirihluta. Hugsun okkar með þessari tillögu var að við myndum skoða hvaða leið væri best að fara með hagsmuni sveitarfélagsins að leiðarljósi. Það hefði lágmarkað óvissustig og þá þjónustuskerðingu sem nú er upp komin.

Síðan við lögðum fram tillögu okkar hefur margt breyst í stöðu Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings. Hveragerðisbær sagði upp húsnæðinu sem hýsti þjónustuna og í kjölfar þess og þeirrar óvissu sem þessu fylgir hafa þónokkrir starfsmenn leitað á ný mið. Nú í byrjun febrúar er staðan sú að ekki er tekið við nýjum málum sem berast.  Þjónustuþegar okkar og starfsfólk eru því í algjörri óvissu um það hvort og þá hvenær þeir megi vænta þess að geta fengið þjónustu.

Breytingum sem ekki eru undirbúnar fylgir óvissa og jafnvel virka sem ógn á þá sem fyrir verða. Svo við tölum nú ekki um þegar algjört stefnuleysi ríkir. Samráð, samvinna og upplýsingaflæði eru lykilatriði svo að breytingunum geti fylgt tækifæri sem nýta má til góðs.

Greinin birtist fyrst í Dagskránni, 2. febrúar 2023.