Tíu stofnanir ráðuneytisins verði að þremur

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, kynnti á fundi ríkisstjórnar í gær áform sín um sameiningu tíu stofnana ráðuneytisins í þrjár, en stofnanirnar tíu verða Náttúruverndar- og minjastofnun, Náttúruvísindastofnun og Loftslagsstofnun. Stofnanir Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins eru í dag þrettán talsins og þar starfa 600 manns á 40 starfsstöðvum um landið. 61% starfanna eru á höfuðborgarsvæðinu. Í undirbúningi er að setja strax af stað vinnu með fulltrúum stofnana varðandi mannauðsmál, húsnæðismál og upplýsingatækni og gert er ráð fyrir að vinna við lagafrumvörp um nýju stofnanirnar þrjár verði í forgangi.

Að því er fram kemur í frétt á vef mbl.is er gert ráð fyrir að minnsta kosti 650 millj­óna króna hagræðingu á ári við sam­ein­inguna.

Að því er fram kemur í frétt á vef Stjórnarráðsins yrðu stofnanirnar þrjár kröftugri og faglegri en þær sem fyrir eru:

  • Náttúruverndar- og minjastofnun – þar sameinast Vatnajökulsþjóðgarður, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, náttúruverndarsvið Umhverfisstofnunar og Minjastofnun.
  • Náttúruvísindastofnun – þar sameinast Náttúrufræðistofnun Íslands, Veðurstofa Íslands, Landmælingar Íslands, ÍSOR (Íslenskar orkurannsóknir) og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn.
  • Loftslagsstofnun – þar sameinast Orkustofnun og öll svið Umhverfisstofnunar utan náttúruverndarsviðs.

„Stóra markmiðið er að efla stofnanir ráðuneytisins til að takast á við gríðarlegar áskoranir sem bíða okkar sem samfélags og eru þar loftslagsmálin efst á blaði. Með nýju stofnanaskipulagi er stefnt að því að auka skilvirkni og draga úr sóun sem hlýst af tvítekningu og skorti á sam­starfi. Einnig eru mikil sókn­arfæri í­ fjölgun starfa á landsbyggðinni, fjölgun á störfum óháð stað­setn­ingu og upp­bygg­ingu eft­ir­sókn­ar­verðra vinnu­staða,“ er haft eftir Guðlaugi Þór á vef Stjórnarráðsins.

Image

Endanleg afstaða hefur ekki verið tekin til staðsetninga höfuðstöðva nýrra stofnana, en með tilliti til byggðasjónarmiða er lögð mikil áhersla á fjölgun starfa á landsbyggðinni. Að því er fram kemur á Stjórnarráðsvefnum er með sameiningunni meðal annars ætlað að ná eftirfarandi markmiðum:

  • Til verði stærri, kröftugri og faglega öflugri stofnanir sem geti tekist á við áskoranir  til framtíðar og unnið að markmiðum Íslands í umhverfismálum.
  • Efla þekkingar- og fræðasamfélag og nýsköpun í opinberum rekstri.
  • Fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu.
  • Nýta betur þekkingu og innviði og auka sveigjanleika til að takast á við stór verkefni.
  • Einfalda áætlanagerð og auka rekstrarhagkvæmni.
  • Tryggja aðkomu nærsamfélaga að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum.

Þær stofnanir sem nú heyra undir ráðuneytið eru: Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR), Landmælingar Íslands, Minjastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn, Orkustofnun, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Umhverfisstofnun, úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, Úrvinnslusjóður, Vatnajökulsþjóðgarður, Veðurstofa Íslands og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.