Frelsið fyrir framtíðina

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum:

Þegar við stígum inn í nýtt ár sem loksins hefst án sóttvarnartakmarkana í kjölfar Covid heimsfaraldurs er mikilvægt að við stöldrum við, minnum okkar á hversu mikil höft voru sett á einstaklinga og fyrirtæki á Íslandi og hversu auðvelt það er í raun og veru að svipta okkur þeim grundvallarmannréttindum sem við flest tökum sjálfgefnum. Á sama tíma og erfiðar ákvarðanir voru teknar fyrir almannahagsmuni varðandi samkomutakmarkanir, bólusetningar, sóttkví og einangrun fólks þá er það jafn mikilvægt að þær ákvarðanir þoli gagnrýni og upplýsta umræðu enda er tjáninga- og skoðanafrelsi einn mikilvægasti hornsteinn lýðræðisins.

Frelsið átt undir högg að sækja

Við sjáum víða mannréttindi fótum troðin þessa dagana, stríðið í Úkraínu, fjölmenn mótmæli í Kína vegna sóttvarnarráðstafana þar í landi vegna Covid, uppreisn í Íran fyrir réttindum kvenna, mannréttindabrot á HM í Qatar og jafnvel í sjálfu landi hinna frjálsu, Bandaríkjunum, hafa verið tekin skref afturábak í réttindum samkynhneigðra og transfólks og réttindum kvenna yfir eigin líkama. Þessi dæmi og fleiri sýna svo ekki verður um villst hversu auðvelt það er fyrir stjórnvöld hvers tíma að taka ákvarðanir sem skerða frelsi borgaranna. Á endanum eru það þó alltaf borgararnir sjálfir sem taka málin í sínar hendur, segja hingað og ekki lengra og með málfrelsi sínu og kosningarétti þar sem lýðræði ríkir geta þeir hreinlega kosið í burtu slíkar óstjórnir. Nýlegasta dæmið er þegar Joe Biden forseti Bandaríkjanna staðfesti 13. desember síðastliðinn tímamótalög sem tryggja lögmæti samkynja hjónabanda um öll Bandaríkin.

Heimsmet í jafnrétti kynjanna þrettánda árið í röð

Það er mikilvægt að þjóðir á borð við okkar mótmæli, líkt og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefur gert, þegar á grundvallarmannréttindum þegna annarra landa er brotið. Því þrátt fyrir að við séum fámenn þjóð þá höfum við tekið stór skref í alþjóðlegum og sögulegum samanburði og erum við fyrirmyndir á ýmsum sviðum. Þannig átti t.d. Ísland fyrsta þjóðkjörna kvenforsetann í mannkynssögunni og hefur Ísland haft mesta jafnrétti kynjanna í heiminum skv. World Economic Forum núna þrettánda árið í röð.

Frelsinu fylgja framfarir

Þótt heimsfaraldurinn og afleiðingar hans hafi verið erfiðar, þýtt fórnir, erfið veikindi og jafnvel dauðsföll þá má ekki gleymast að líkt og í flestum hörmungum eru lærdómstækifæri til framfara. Fjarnám og fjarvinna efldist svo um nemur á þessu tímabili sem þýðir aukið frelsi til búsetu og er ekki síst mikilvægt fyrir okkur sem kjósum að búa eða dvelja í lengri tíma á landsbyggðinni. Möguleikar til starfa án staðsetningar hafa verið að aukast og jákvæðni fyrirtækja gagnvart slíku fyrirkomulagi aukist og meira segja hefur Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra háskóla, iðnaðar- og nýsköpunar stofnað ráðuneyti sitt án staðsetningar sem er til mikillar fyrirmyndar. Eyverjar hafa lagt sín lóð á vogarskálarnar, nýtt tjáningafrelsi sitt, fundað með Áslaugu Örnu og hvatt hana sérstaklega til að efla m.a. fjarnám á háskólastigi til að tryggja aðgengi allra Íslendinga að menntun óháð búsetu.  Þórdís Kolbrún og Áslaug Arna eru 35 og 32 ára og teljast því til ungra Sjálfstæðismanna. Þær sýna það í verki svo ekki verður um villst að ungu fólki er vel treystandi til áhrifa, eru ungu fólki fyrirmyndir og ekki síst hvatning til stjórnmálaþátttöku.

Greinin birtist fyrst í Stofnum, riti Eyverja, ungra Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum.