Útlit fyrir aukinn kaupmátt á árinu

Sé tekið mið af nýundirrituðum kjarasamningum á almennum markaði er útlit fyrir kaupmáttaraukningu heimila á þessu ári. Í frétt á fjármála- og efnahagsráðuneytinu er áætlað að ráðstöfunartekjur meðaleinstaklings á almennum vinnumarkaði verði um það bil 50 þúsund krónum meiri í hverjum mánuði í ár en í fyrra, bæði vegna hækkunar með nýjum kjarasamningum og breytinga í tekjuskattskerfinu þar sem persónuafsláttur og þrepamörk hækka um 10,7%.

„Þetta er niðurstaða greiningar fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem ráðherra fjallaði um í ríkisstjórn í dag. Þar kemur fram að launahækkanir umfram þær spár sem hafa legið til grundvallar hagstjórnarákvörðunum séu til þess fallnar að valda meiri verðbólgu en ella. Engu að síður er nú útlit fyrir að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann, áður en tekið er tillit til vaxtagjalda, aukist nokkuð á árinu og að kaupmáttarrýrnun undanfarinna missera verði meira eða minna endurheimt,“ segir í fréttinni.

Mesta hækkun launa á almennum vinnumarkaði frá 2016

Þar segir jafnframt: „Miðað við niðurstöður nýrra kjarasamninga er útlit fyrir að hækkun launavísitölu á almennum vinnumarkaði í ár verði sú mesta frá 2016. Um áramótin tóku jafnframt gildi uppfærð viðmið í tekjuskattskerfinu þar sem persónuafsláttur og þrepamörk hækka um 10,7%. Persónuafsláttur er nú um 60 þús. kr. á mánuði eða 6 þús. kr. hærri en 2022. Áætla má, miðað við niðurstöður launarannsóknar Hagstofunnar og með hliðsjón af niðurstöðum kjarasamninga, að ráðstöfunartekjur meðaleinstaklings á almennum vinnumarkaði verði u.þ.b. 50 þús. kr. meiri í hverjum mánuði í ár en í fyrra, þar af 8 þús. kr. meiri vegna uppfærðra viðmiða tekjuskatts.“

Sjá nánar hér.