Hug­vitið í sókn á Norður­landi

Berglind Ósk Guðmundsdóttir alþingismaður:

Háskóla- iðnaðar og nýsköpunarráðherra tilkynnti í dag um úthlutun á yfir milljarði króna til aukins samstarfs háskóla á Íslandi. Hugmyndin var fyrst tilkynnt í haust og fór strax af stað gríðarlega mikið og öflugt samtal á milli háskólanna um aukið og bætt samstarf milli þeirra til að efla gæði náms á háskólastigi.

Aukin áhersla á STEAM greinar

Lykillinn að auknum lífsgæðum er frjór jarðvegur fyrir rannsóknar- og vísindastarfsemi. Með öðrum orðum er nýsköpun á öllum sviðum samfélagsins mikilvæg til að mæta áskorunum og finna nýjar lausnir. Háskólarnir fá nú aukið fjármagn til að fjölga brautskráningum í STEAM greinum, þ.e. vísindum, tækni, verkfræði, listum og stærðfræði en bent hefur verið á að færni í þessum greinum efli nýsköpunarhæfni samfélaga. Von er um að hlutfalli háskólamenntaðra í STEAM greinum muni hækka við aukna áherslu á nám í þessum greinum.

Öflugra háskólanám fyrir landið allt

Það vekur mikla ánægju að Háskólinn á Akureyri er aðili að 19 af 25 verkefnum sem hljóta úthlutun. Háskólinn á Akureyri sinnir mikilvægu hlutverki sem háskóli á landsbyggðinni og hefur lengi verið í sókn, þá sýnir þessi niðurstaða hversu öflugt og metnaðarfullt starfslið skólans er.

Tækninám loks á Norðurlandi

Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Akureyri fá 33. m.kr. til að setja á laggir B.Sc. nám í iðnaðar- og orkutæknifræði fyrir tæknifræðinga á Akureyri. Á Norðurlandi hefur lengi verið talað um vöntun á námi í tæknigreinum á háskólastigi og því er afskaplega jákvætt að námið muni hefjast strax í haust. Bæði HA og HR standa að baki námsins en með því gefst nemendum tækifæri til að stunda tækninám í heimabyggð og mun þannig styðja við atvinnulíf á Norðurlandi.

Hugvitið eflir samkeppnishæfni dreifðari byggða

Íbúar í hinum dreifðari byggðum þurfa betra aðgengi að námi á háskólastigi. Aukið samstarf háskólanna hvetur til fjölbreyttara framboðs náms nær heimabyggð. Háskólarnir hafa ekki allir lagt áherslu á rafræna kennslu, þar sem mæting í skólastofuna er ekki nauðsyn, en með auknu samstarfi eru nú skólar sem ýmist sérhæfa sig í starfrænu námi og þeir sem bjóða upp á hefðbundið nám í skólastofum knúin til að veita sveigjanlegra nám, íbúum alls landsins til heilla. Þess má vænta að möguleikar á fjölbreyttari störfum opnast um leið og menntunarstig hækkar í byggðunum.

Greinin birtist á visir.is 12. janúar 2023.