Vasar skattgreiðenda

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Fast­eigna­skattar á í­búðar­hús­næði í Reykja­vík hækkuðu um 21 prósent um ára­mót. Fast­eigna­skattar á sér­býli hækkuðu um 25 prósent. Þetta er um­­tals­vert meiri hækk­un en til­­kynnt var um fyr­ir ári síðan og tals­vert meiri hækkun en á­ætlanir borgarinnar gerðu ráð fyrir.

Hækkanir á fast­eigna­mati leiða ó­hjá­kvæmi­lega til skatta­hækkana á heimili og fyrir­tæki. Meðal­fa­st­eigna­mat í­búðar­hús­næðis í Reykja­vík er 53,5 milljónir en verður með hækkuninni 64,7 milljónir. Að jafnaði munu því fast­eigna­skattar á meðal­í­búð í Reykja­vík hækka um rúm­lega 20 þúsund krónur ár­lega. Þetta kemur fram í út­reikningum hag­fræði­deildar Hús­næðis- og mann­virkja­stofnunar. Fast­eigna­mat at­vinnuhúsnæðis hækkar um 10,2 prósent á landinu öllu. Þetta þýðir sam­svarandi skatta­hækkun á at­vinnu­líf, án þess að hækkuninni fylgi aukin þjónusta til fyrir­tækjanna í borginni. Í erindi Fé­lags at­vinnu­rek­enda til sveitar­stjórna segir að með hækkuninni muni þrír milljarðar bætast við skatt­byrði at­vinnulífsins ár­lega. Skoraði fé­lagið á sveitar­fé­lögin að lækka á­lagningar­hlut­föll með sam­svarandi hætti.

Á fyrsta borgar­stjórnar­fundi nýs kjör­tíma­bils lagði Sjálf­stæðis­flokkur til lækkun fast­eigna­skatta á at­vinnu­hús­næði og í­búðar­hús­næði fyrir árið 2023. Með lækkuninni yrði brugðist við gríðar­legri hækkun fast­eigna­mats. Sjálf­stæðis­flokkurinn stendur nefni­lega með fólki og fyrir­tækjum í borginni þegar skórinn kreppir. Við viljum draga úr á­lögum – og tryggja sann­gjarna skatt­heimtu í Reykja­vík. Meiri­hlutinn hafnaði til­lögunni.

Við­brögð ná­granna­sveitar­fé­laga við hækkuðu fast­eigna­mati voru aftur á móti önnur – þar voru á­lagningar­hlut­föll lækkuð svo koma mætti til móts við hækkanir. Reykja­víkur­borg er því eina stóra sveitar­fé­lagið sem lætur for­dæma­lausa hækkun fast­eigna­mats leggjast af fullum þunga á þegna sína. Sí­fellt er seilst dýpra í vasa skatt­greið­enda.

Eitt af lykil­at­riðum þess að efla sam­keppnis­hæfi borgarinnar er að lækka skatta á ein­stak­linga og fyrir­tæki. Í dag inn­heimtir Reykja­vík hæsta út­svar og hæstu fast­eigna­skatta á at­vinnu­hús­næði allra sveitar­fé­laga á höfuð­borgar­svæðinu. Við erum í lifandi sam­keppni við er­lendar borgir og inn­lend sveitar­fé­lög um fólk og fyrir­tæki. Við verðum að gera betur.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 10. janúar 2023.