Stýrihópar eða lausnir

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

„Skipu­lag á snjómokstri í Reykja­vík er gott í grunn­inn og hef­ur verið und­an­far­in ár.“ Svohljóðandi var inn­legg borg­ar­stjóra í umræðu um vetr­arþjón­ustu í borg­inni liðinn þriðju­dag. Virt­ist borg­ar­stjóri í full­komnu snert­ing­ar­leysi við þær áskor­an­ir sem hafa mætt borg­ar­bú­um í vetr­ar­færð liðinna vikna.

Vetr­arþjón­usta er öll­um mik­il­væg

Það er óhætt að segja að líf og starf­semi í borg­inni hafi orðið fyr­ir tölu­verðu raski und­anliðnar vik­ur vegna snjóþyngsla. Við þess­ar aðstæður hef­ur getu­leysi borg­ar­inn­ar við sjálf­sagða vetr­arþjón­ustu birst glögg­lega. Starfs­fólk hef­ur sann­ar­lega staðið sig með ágæt­um en van­búnaður­inn verið aug­ljós.

Framúrsk­ar­andi vetr­arþjón­usta er sjálf­sögð grunnþjón­usta. Það gild­ir einu hvaða far­ar­máta fólk vel­ur sér, öll þurfa á öfl­ugri snjó­hreins­un að halda. Vönduð og yf­ir­grips­mik­il vetr­arþjón­usta er jafn­framt mik­il­vægt aðgeng­is­mál. Þá eru ótal­in þau verðmæti sem sam­fé­lagið verður af vegna alls þess rasks sem at­vinnu­líf verður fyr­ir við aðstæður sem þess­ar.

Að segj­ast lesa samn­inga

Full­trú­ar meiri­hlut­ans hafa í til­svör­um sagt mik­il­vægt að rýna samn­inga við verk­taka og kanna hvernig þeim megi breyta svo efla megi þjón­ust­una. Af skoðun samn­ing­anna hef­ur komið í ljós að Reykja­vík­ur­borg hef­ur aðeins gert samn­inga við þrjá verk­taka um snjó­hreins­un og hálku­varn­ir gatna og göngu­leiða í borg­inni. Á grund­velli þess­ara samn­inga hafa aðeins 22 snjóruðnings­tæki verið að störf­um í Reykja­vík að und­an­förnu. Til sam­an­b­urðar hafa tæk­in verið 20 í Hafnar­f­irði, 20 í Kópa­vogi og 10 í Garðabæ. Ef höfuðborg­in stæði sig hlut­falls­lega jafn­vel og ná­granna­sveit­ar­fé­lög hefðu snjóruðnings­tæki að störf­um verið tæp­lega 80 tals­ins.

Borg­ar­stjóri og formaður borg­ar­ráðs hafa farið mik­inn á síðustu vik­um – sagt borg­ar­bú­um að anda létt­ar því þeir væru að yf­ir­fara samn­inga við verk­taka. Það vakti því áhuga und­ir­ritaðrar á fundi borg­ar­stjórn­ar síðastliðinn þriðju­dag þegar í ljós kom að hvorki borg­ar­stjóri né formaður borg­ar­ráðs höfðu kynnt sér téða samn­inga. Það er ekki flókið verk, en und­ir­rituð las yfir samn­ing­ana og dró sam­an helstu efn­is­atriði þeirra yfir morgunkaff­inu í vik­unni.

Að tala eða fram­kvæma

Það er eitt að tala og annað að fram­kvæma. Full­trú­ar meiri­hlut­ans leysa sér­hvert vanda­mál með stofn­un stýri­hópa, starfs­hópa og sprett­hópa. All­ar til­tæk­ar leiðir dregn­ar fram til að tefja og þvæla mál. Segj­ast önn­um kafn­ir við yf­ir­lest­ur samn­inga sem aldrei hafa verið lesn­ir.

Stýri­hóp­ar hafa al­mennt ekki flýtt fyr­ir af­greiðslu mála. End­ur­bæt­ur á vetr­arþjón­ustu borg­ar­inn­ar eru aðkallandi vanda­mál sem þola enga bið. Full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks telja mik­il­vægt að stytta boðleiðir frá vanda­mál­um að lausn­um inn­an borg­ar­kerf­is­ins. Þegar van­búnaður borg­ar­inn­ar í erfiðri vetr­ar­færð blas­ir við þarf að taka ákv­arðanir hratt og ör­ugg­lega. Það er eðli­legt að gera á vett­vangi borg­ar­ráðs og á skrif­stofu borg­ar­stjóra. Ekki inn­an stýri­hópa með eng­ar vald­heim­ild­ir.

Stýri­hóp­ar kunna að vera góðra gjalda verðir við lang­tíma­stefnu­mót­un, en þeir geta ekki falið í sér lausn aðkallandi vanda. Lausn­in ligg­ur í fleiri samn­ing­um, fleiri vél­um, betra skipu­lagi og öfl­ugri þjón­ustu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. janúar 2023.