Rannsóknir sem grundvöllur nýsköpunar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Há­skóli Íslands var lengi vel eini há­skóli lands­ins og hafði það meg­in­hlut­verk að sjá rík­inu fyr­ir lækn­um, verk­fræðing­um, prest­um og dómur­um. Eft­ir því sem tím­ar liðu varð há­skól­inn einnig að rann­sókn­ar­stofn­un ekki síður en kennslu­stofn­un. Þótt há­skól­um á Íslandi hafi nú fjölgað í sjö tals­ins virðast rann­sókn­ir stund­um gleym­ast, bæði í huga al­menn­ings en einnig hjá fjár­veit­inga­vald­inu.

En hvernig efl­um við rann­sókn­ir og tryggj­um að þær fái nauðsyn­lega nær­ingu til að þró­ast yfir í arðbær og skap­andi fyr­ir­tæki?

Í fyrsta lagi er nauðsyn­legt að end­ur­skoða bæði reiknilík­an og lög um há­skóla. Við þurf­um að treysta fjár­hag þeirra, fjölga mögu­leik­um til tekju­öfl­un­ar og skerpa á fjár­mögn­un rann­sókna. Alþjóðleg­ir list­ar yfir há­skóla eru notaðir sem mæli­stik­ur á gæði en veiga­mikið atriði í þeim út­tekt­um er fjöldi nem­enda á hvern aka­demísk­an starfs­mann þar sem marg­ir nem­end­ur á kenn­ara gefa lága ein­kunn. Reiknilík­an ís­lensku há­skól­anna geng­ur í gagn­stæða átt. Reiknilíkanið var á sín­um tíma hannað til að fjölga nem­end­um. Þetta var fyr­ir síðustu alda­mót. Síðan þá hafa all­ar ná­grannaþjóðir okk­ar end­ur­skoðað sín reiknilíkön og hér á landi hef ég ýtt úr vör vinnu við slíka end­ur­skoðun.

Í öðru lagi verður að huga að stöðu fram­halds­náms á há­skóla­stigi. Ýmis­legt mætti bet­ur fara, til dæm­is með því að skól­ar sam­ein­ist um að halda úti fram­halds­námi í ákveðnum grein­um. Fjölg­un fram­haldsnema á Íslandi hefði margs kon­ar já­kvæð áhrif inn í rann­sókn­astarf enda er rann­sókn­ar­fram­lag þeirra í mörg­um til­vik­um veru­legt. Samt þarf að fara var­lega í þeim efn­um því það er styrk­leiki að öfl­ug­ir nem­end­ur fari utan til náms eft­ir fram­halds­skóla eða grunn­nám. Þeir standa sig oft á tíðum vel í er­lend­um há­skól­um og færa þekk­ing­una með sér heim. Fá­menn há­skóla­deild í ís­lensk­um há­skóla get­ur naum­ast boðið upp á þá breidd og þann sveigj­an­leika sem stærri og öfl­ugri há­skól­ar geta boðið sín­um nem­end­um.

Það þarf þó fleira til að koma.

Með því að gera bú­setu­skil­yrði á Íslandi enn eft­ir­sókn­ar­verðari sköp­um við grund­völl fyr­ir því að ís­lensk­ir nem­end­ur er­lend­is og alþjóðleg­ir sér­fræðing­ar sæk­ist eft­ir því að flytj­ast hingað ásamt fjöl­skyld­um sín­um í vel launuð störf eða til að sinna áhuga­verðum rann­sókn­um. Við höf­um nú þegar náð ár­angri og þurf­um að halda áfram með því að auka fjöl­breytni bæði at­vinnu- og menn­ing­ar­lífs og tryggja gæði heil­brigðis- og skóla­kerf­is svo og frí­stund­a­starfs barna og ung­menna. Allt eru þetta hlekk­ir í þeirri keðju far­sæld­ar sem við vilj­um skapa í land­inu. Öflugt ný­sköp­un­ar­sam­fé­lag þarf fjöl­breytt og iðandi mann­líf til að geta þrif­ist og blómstrað. Þannig sam­fé­lag vilj­um við byggja upp.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. janúar 2023.