Við áramót

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:

Árið 2022 var ár breyttr­ar heims­mynd­ar. Með árás­ar­stríði Rússa snemma árs var ekki aðeins ráðist á sak­lausa íbúa Úkraínu, held­ur þau grunn­gildi sem við Íslend­ing­ar stönd­um vörð um og byggj­um full­veldi okk­ar á. Þar var ráðist gegn virðingu fyr­ir mann­rétt­ind­um, alþjóðalög­um og sjálfs­ákvörðun­ar­rétti þjóða. Langt er síðan svo af­drifa­rík­ir at­b­urðir hafa átt sér stað í ver­öld­inni og samstaða vinaþjóða hef­ur sjald­an skipt meira máli en nú.

Það var því mik­il­vægt að við Íslend­ing­ar tækj­um skýra af­stöðu með Úkraínu strax frá upp­hafi. Við stönd­um með vinaþjóð okk­ar og þeim gild­um sem vest­ræn ríki í Atlants­hafs­banda­lag­inu munu ávallt verja. Grund­völl­ur af­stöðu okk­ar rist­ir djúpt. Fá­menn herlaus þjóð sem hef­ur þurft að berj­ast fyr­ir full­veldi sínu og sjálf­stæði þekk­ir sér­stak­lega vel hve dýr­mætt, en brot­hætt, frelsið get­ur verið. Fyr­ir herlausa þjóð í Norður-Atlants­hafi er stríðið sterk áminn­ing um mik­il­vægi ör­ygg­is- og varn­ar­mála á svæðinu.

Við Íslend­ing­ar mun­um áfram styðja við Úkraínu, jafnt í orði sem á borði, allt þar til inn­rás­in er brot­in á bak aft­ur og mun­um ekki láta okk­ar eft­ir liggja við upp­bygg­ing­ar­starfið sem þá tek­ur við.

Ey­land í al­heimskrísu

Þó þau blikni í sam­an­b­urði við raun­ir Úkraínu­manna hafa áhrif inn­rás­ar­inn­ar fund­ist langt út fyr­ir landa­mæri rík­is­ins. Fram­boðsbrest­ir og rof á fram­leiðslu­keðjum hafa sett efna­hags­líf fjölda ríkja úr skorðum með til­heyr­andi áhrif­um á íbúa. Það er fjar­læg­ur veru­leiki fyr­ir flesta Íslend­inga að ræða um það við ná­ung­ann hvað kost­ar að fara í sturtu eða hella upp á kaffi­könn­una. Sú er hins veg­ar raun­in víða í orkukrepp­unni sem nú skek­ur ná­granna­ríki okk­ar.

Það er á tím­um sem þess­um sem sjálf­bærni í orku­mál­um verður ómet­an­leg, heita vatnið og sjálf­bær raf­orka sér heim­il­un­um fyr­ir hlýju og birtu. Við höf­um marga styrk­leika sem birt­ast um þess­ar mund­ir. Verðmæta­sköp­un hef­ur verið mik­il og at­vinnu­leysi lítið sem ekk­ert, eft­ir mikl­ar hæðir í heims­far­aldr­in­um. Kaup­mátt­ur hef­ur vaxið veru­lega und­an­far­in ár og hald­ist sterk­ur ólíkt því sem þekk­ist víða í kring­um okk­ur – ekki síst vegna lægri tekju­skatts og mik­ils stuðnings við viðkvæma hópa.

Ný fyr­ir­tæki spretta upp, vaxa, dafna og ráða nýtt starfs­fólk. Íslenskt hug­vit nýt­ist til að leysa fjöl­mörg alþjóðleg vanda­mál og með áfram­hald­andi skatt­astuðningi og hvetj­andi um­hverfi má gera ráð fyr­ir að sú þróun haldi áfram af full­um krafti.

Blómstrandi mann­líf

Kvenna­landsliðið stóð sig með prýði á EM í fót­bolta á Englandi í sum­ar og hand­bolta­landslið karla tryggði sér sæti á HM sem hefst á næstu dög­um, en þar eig­um við nú suma af bestu leik­mönn­um sam­tím­ans. Íslenskt íþrótta­fólk nær glæst­um ár­angri, hvort sem er í sundi, á göngu­skíðum eða öðrum grein­um.

Lista­fólkið okk­ar hasl­ar sér völl um all­an heim. Vík­ing­ur Heiðar fékk hin virtu Schock-verðlaun á ár­inu, Lauf­ey Lín átti eina vin­sæl­ustu plötu Banda­ríkj­anna og Ragn­ar Kjart­ans­son, sem pakkaði sýn­ingu sinni í Moskvu sam­an eft­ir inn­rás­ina í Úkraínu, held­ur áfram að slá í gegn um all­an heim. Hild­ur Guðna­dótt­ir fékk svo enn eina til­nefn­ingu til verðlauna nú und­ir lok árs og fjöldi ann­ars hæfi­leika­fólks í kvik­mynda­gerð sæk­ir fram. Áfram mætti lengi telja.

Af­rek árs­ins eru mörg og til marks um þann kraft sem í þjóðinni býr. Sterk staða Íslend­inga á flest­um sviðum er ekki sjálf­sögð, held­ur af­leiðing áræðni, fram­taks­semi og fyr­ir­hyggju – bæði kyn­slóðanna sem nú lifa og þeirra sem á und­an komu. Með sama hug­ar­fari á ári kom­anda held­ur sókn­in áfram.

Tæki­færi í áskor­un­um

Þrátt fyr­ir að verðbólga sé hér einna minnst í Evr­ópu skipt­ir öllu máli að ná henni áfram niður. Til þess þarf sam­hent átak en stöðug­leiki er mark­mið sem á að vera hægt að sam­ein­ast um. Gott leiðarljós við þær aðstæður sem nú hafa skap­ast er að síg­andi lukka er best. Góð tíðindi af kjara­samn­ing­um nú fyr­ir hátíðarn­ar gefa fyr­ir­heit um að við séum á réttri braut. Hins veg­ar skipt­ir máli að við gef­umst ekki upp á því mik­il­væga verk­efni að styrkja ís­lenska vinnu­markaðslíkanið og sjálfsagt að horfa til Norður­landa í því sam­bandi, með mark­mið um stöðug­leika, græn­an vöxt og vax­andi vel­sæld allra að leiðarljósi.

Enn ber of mikið á ákalli um rík­i­s­væðingu allra verk­efna sem aft­ur kall­ar á enn auk­in út­gjöld sem fjár­magna á með stærri lán­um og hærri skött­um. Ríkið gegn­ir víða lyk­il­hlut­verki, svo sem í heil­brigðis- og fé­lagsþjón­ustu og mennta­kerf­inu, en sam­keppni get­ur þrif­ist víðar og einkafram­takið gegn­ir lyk­il­hlut­verki í því sam­bandi. Við mun­um ekki vaxa til vel­sæld­ar með rík­i­s­væðingu tæki­fær­anna. Mik­il­væg­um áfanga var náð á ár­inu við að draga úr rík­is­um­svif­um með öðrum sölu­áfanga rík­is­ins á hlut í Íslands­banka.

Að und­an­förnu hef­ur náðst mik­ill ár­ang­ur í að staf­væða þjón­ustu rík­is­ins. Við erum í reynd að bylta þjón­ust­unni með tækni og spara um leið tíma og pen­inga. Nýta þarf tækn­ina áfram til að fá meira fyr­ir minna og minnka þannig um­fang hins op­in­bera þar sem færi gefst. Síðustu ár hafa ýms­ar stofn­an­ir verið sam­einaðar og lagðar niður með góðum ár­angri og minni yf­ir­bygg­ingu, en við eig­um enn þá mikið inni. Höfuðáhersl­an á að vera á að sækja lausn­irn­ar út í sam­fé­lagið, en ekki inn í Stjórn­ar­ráðið.

Við end­ur­nýj­un rík­is­stjórn­ar­sam­starfs­ins tókst að leysa úr þeim hnút sem upp var kom­inn í ramm­a­áætl­un. Við Íslend­ing­ar erum fyr­ir­mynd í nýt­ingu jarðvarma og vatns­afls og erum ekki síst þess vegna í dauðafæri til að verða leiðandi afl á sviði grænna lausna. Við búum yfir auðlind­um, þekk­ingu og tæki­fær­um til að ná dýr­mætu for­skoti í orku­skipt­um og kynna til sög­unn­ar tækni og lausn­ir sem geta haft raun­veru­leg áhrif í bar­átt­unni við lofts­lags­breyt­ing­ar.

Við höf­um sett okk­ur metnaðarfull mark­mið um sam­drátt í los­un sem kall­ar á átak í orku­vinnslu. Al­ger for­senda þess að stór­ir áfang­ar ná­ist í orku­skipt­un­um er auk­inn kraft­ur í virkjana­gerð um leið og öðrum þátt­um aðgerðaáætl­un­ar í lofts­lags­mál­um, varðandi land­notk­un, raf­væðingu hafna, hringrás­ar­hag­kerfið og fleiri þætti er hrint í fram­kvæmd. Það er til mik­ils að vinna.

Takk fyr­ir traustið

Við höf­um sterk­lega verið minnt á það und­an­far­in ár að ómögu­legt er að spá fyr­ir um hvað framtíðin ber í skauti sér. Það breyt­ir því ekki að ávallt er fullt til­efni til að horfa björt­um aug­um fram veg­inn, mæta hverri áskor­un sig­urviss og taka nýju ári fagn­andi. Þrátt fyr­ir strjál­býli, norðlæga legu okk­ar og oft erfitt tíðarfar hef­ur tek­ist að skapa hér sam­fé­lag sem stend­ur öðrum fram­ar. Sam­fé­lag okk­ar hef­ur staðið sterkt í gegn­um inn­lend jafnt sem ut­anaðkom­andi áföll, en upp­skrift­in að þess­um ár­angri er trú­in á ein­stak­ling­inn, fram­taks­semi og frelsi til orða og at­hafna.

Það eru þessi gildi og sam­fé­lagið sem skap­ast hef­ur á grunni þeirra, ekki síst eft­ir að sjálf­stæði og full­veldi lands­ins var tryggt, sem kveiktu áhuga minn á lands­mál­un­um. Fyr­ir mig hef­ur það verið sér­stak­ur heiður að fá að leiða stærsta stjórn­mála­afl lands­ins í rúm­an ára­tug og ótví­ræður hápunkt­ur árs­ins að hljóta sterkt umboð til að halda því áfram eft­ir glæsi­leg­an lands­fundi okk­ar í nóv­em­ber. Frá hon­um kom­um við end­ur­nærð og full af eld­móði til að vinna að frek­ari fram­fara­mál­um fyr­ir þjóðina.

Gleðilegt nýtt ár.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. desember 2022.