Áramótapistill oddvita D-listans í Húnabyggð

Það er óhætt að segja líðandi ár einkennist af miklum breytingum í okkar samfélagi eftir tvö rennsli af sameiningarviðræðum og kosningum þar um, fyrst milli allra sveitarfélaga í A-hún og svo milli Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps sem endaði með sameiningu þeirra og til varð sveitarfélagið Húnabyggð, stórt og glæsilegt. Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga var svo ákveðið að bjóða fram undir merkjum Sjálfstæðisflokksinns, Sjálfstæðismenn og óháðir, í fyrsta skipti síðan árið 2006 ef mér telst rétt til. En skemmst er frá því að segja að kjörsókn var með besta móti eða 83,7% og D listi Sjálfstæðismanna og óháðra bar sigur úr býtum með 37,7% fylgi og hlaut 4 sveitarstjórnarfulltrúa af 9. Samkomulag um meirihlutasamstarf D og B lista var svo undirritað í júní. Það hefur verið töluvert átak að slípa saman öll tannhjól en framtíðin er okkar og mikið af tækifærum til uppbyggingar á svæðinu. Það hefur svo sannarlega ekki allt verið einfalt og það hefur þurft að taka stórar ákvarðanir sem miklu máli skipta við mótun samfélagsins og ljóst að aldrei verður öllum gert til hæfis. Það þarf að hafa kjark og þor til breyta annars blasir stöðnunin við.

Í ágúst síðastliðnum reið svo yfir samfélagið okkar gríðarlegt áfall sem skilur eftir varanleg ör en þjappar okkur að sama skapi saman í öfluga heild. Þegar svona gerist koma svo aftur ýmsir þættir í ljós sem skipta gríðarlegu máli fyrir samfélagið eins og td flugvöllurinn, atriði sem þarf að laga strax og hefur verið viðurkennt af held ég bara öllum, EN hvað, ég bara get ekki séð að það sé nokkursstaðar gert ráð fyrir því. Við horfum þó björtum augum til framtíðar og treystum því að staðið verði við gefin loforð.

En aftur á jákvæðu nóturnar, Uppbygging gamla bæjarins á Blönduósi er hafin í samstarfi við Info Capital, Húnavellir eru svo annað vel staðsett tækifæri til uppbyggingar í sveitarfélaginu. Síðan má geta þess að Hveravellir og uppbygging Kjalvegar eru verkefni sem þarf að skoða að auki á næstu misserum ásamt mörgum öðrum verkefnum. Uppbygging gagnaversins heldur áfram, virkjanakostir til stækkunar Blönduvirkjunar eru til staðar. Það er nýtt hverfi fyrir íbúðarhúsnæði á leið í úthlutun, tækifærin eru allsstaðar, já framtíðin er björt í Húnabyggð.

Að lokum óska ég ykkur öllum gleðilegs nýs árs, megi árið 2023 verða okkur öllum farsælt.

Guðmundur Haukur Jakobsson, oddviti D-listans í Húnabyggð.