Áramótakveðja

Mikil endurnýjun varð á lista Sjálfstæðismanna í Sveitarfélaginu Hornafirði sem bauð sig fram til sveitarstjórnarkostninga í vor. Við náðum mjög góðum árangri, og erum í meirihlutasamstarfi með Kex, sem er óháður listi og réðum til okkar mjög frambærilegan bæjarstjóra, Sigurjón Andrésson.

Við samþykktum nú í desember mjög metnaðarfulla fjárhagsáætlun og framkvæmdaáætlun, þar sem farið verður í ýmsa innviðauppbyggingu, sbr nýjan leikskóla, áframhald á fráveitu, lagfæringu á götum og gangstéttum, leikvöllum og ýmsu öðru. Einnig er farið af stað vinna við skipulagningu á nýrri íbúabyggð á Höfn sem og endurnýjun á aðalskipulagi sveitarfélagsins.

Hafnar eru langþráðar framkvæmdir á nýju hjúkrunarheimili við Skjólgarð á Höfn, en þetta er búið að vera verkefni sem var allt komið í hnút í kerfinu, og  leystist ekki fyrr en gengið var í verkið af fullum þunga af okkar fólki.

Einnig eru hafnar framkvæmdir við nýjan þjóðveg yfir Hornafjarðarfljót, þar sem umferðaröryggi vegfarenda mun aukast til mikilla muna, enda fækkar einbreiðum brúm og vegurinn breikkar.

Nýr framkvæmdarstjóri Vatnajökulsþjóðgarðs var ráðinn á dögunum og verður hann staðsettur hjá okkur, þar sem höfuðstöðvarnar eru á leið í sveitarfélagið, enda erum við í Jöklana skjóli.

Mikil bjartsýni er í samfélaginu öllu,  ferðaþjónustan kominn á fullt, mikil uppbygging framundan í þeirri grein, bæði á gistirýmum sem og afþreyingu, ásamt metnaðarfullum áætlunum heimamanna um uppbyggingu á nýjum miðbæ á Höfn, þar sem nú standa gömul iðnaðarhús.

Með bjartsýnina og gleðina að leiðarljósi sendi ég mínar bestu kveðjur til allra landsmanna með von um farsælt nýtt ár.

Gauti Árnason, forseti bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar.