Viljum að áfram verði best að búa í Mosfellsbæ

Það er gott að búa í Mosfellsbæ, ánægja íbúa hefur mælst sú hæsta af sveitarfélögum undanfarin ár og þannig viljum við bæjarfulltrúar D-lista hafa það áfram.

Eftir úrslit kosninga í vor þar sem samstarfsflokkur okkar undanfarin 16 ár Vinstri Grænir misstu sinn mann úr bæjarstjórn var ljóst að meirihlutinn var fallinn og langt, farsælt og árangursríkt samstarf á enda komið að þessu sinni.

Nýr meirihluti Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar tók við völdum eftir kosningar og réðu þeir utanaðkomandi bæjarstjóra Regínu Ástvaldsdóttur, og því ljóst að við erum í nýju hlutverki minnihluta á þessu kjörtímabili

Nýi meirihlutinn nýtur sannarlega góðs af faglegu og góðu starfi starfsmanna bæjarins og bæjarstjórnar undanfarinna ára og það eru allir möguleikar fyrir hendi að halda áfram að auka og bæta þjónustu við bæjarbúa og viðhalda þannig velsæld og ánægju íbúa Mosfellsbæjar.

Undanfarin ár hafa verið ár mikillar vaxtar, fólksfjölgunar og framkvæmda í Mosfellsbæ. Þjónusta hefur sífellt verið aukin og breytingar gerðar sem gerir það að verkum að þjónustan er ekki bera meiri heldur er hún einnig viðtækari, skilvirkari, þægilegri og auðveldari fyrir notendur.

Fjárhagsstaða Mosfellsbæjar er góð, þrátt fyrir tímabundna erfiðleika í efnahagsmálum og ljóst að nýr meirihluti í Bæjarstjórn Mosfellsbæjar tekur við mjög góðu búi. Mjög margt að því sem tilgreint er í nýsamþykktri fjárhagsáætlun fyrir 2023 eru áframhaldandi vinna á  góðum verkum fyrri meirihluta fyrir utan stórfelldar skattahækkanir sem eru alfarið í boði nýs meirihluta.

Í Mosfellsbæ hefur verið rekin ábyrg og fagleg  fjármálastjórn undanfarin mörg ár og bæjarfulltrúar D lista munu áfram leggja áherslu á ábyrga fjármálastjórnun.

Megin áherslumunur okkar og meirihlutans varðandi þeirra fyrstu fjárhagsáætlun eru áform um að skattar og álögur verða stórhækkaðar á íbúa á þessum tímum verðbólgu, mikilla hækkana á allri þjónustu og hárra vaxta.

Við bæjarfulltrúar D lista lögðum fram tillögur til breytingar á fjárhagsáætlun ársins 2023 sem lutu að minni skattahækkunum, og að áfram verði haldið með áður ákveðnar framkvæmdir en þær tillögur voru því miður felldar.

Við munum halda áfram að leggja fram tillögur byggðar á okkar stefnumálum út kjörtímabilið og vonum að þær verði samþykktar svo áfram verði best að búa í Mosó.

Við óskum landsmönnum öllum gleði, hamingju og velgengni á nýju ári og þökkum kærlega fyrir ómetanlegan stuðning árinu sem er að líða.

Ásgeir Sveinsson

Oddviti D-lista í Mosfellsbæ