Frelsismál ársins

Hildur Sverrisdóttir alþingismaður:

Ef ein­hver mál eiga það til að mæta af­gangi í póli­tískri umræðu eru það vafa­lítið frels­is­mál­in. Þetta eru mál sem gjarn­an eru sögð skipta litlu máli og mæta iðulega aðdrótt­un­um um að þau sólundi dýr­mæt­um tíma Alþing­is þegar aðkallandi mál bíða. Það er auðvitað sjón­ar­mið sem hverj­um er frjálst að hafa skoðun á; hvað það er sem er mik­il­væg­ast sem Alþingi sýsl­ar við hverju sinni. Þó má hafa í huga að ann­ars veg­ar er Alþingi þannig upp­byggt að því er bein­lín­is ætlað að tak­ast á við mörg og mis­merki­leg mál í einu og hins veg­ar að ef við tök­um frelsið sem gefið og lát­um það alltaf mæta af­gangi er hætt við að það kvarn­ist af því smám sam­an þar til ekk­ert er eft­ir.

Þingið stíg­ur stærri frels­is­skref

Á umliðnu þingári var gleðilegt að ekki voru ein­ung­is fleiri frels­is­mál á dag­skrá en yf­ir­leitt áður held­ur tóku þau und­an­tekn­ing­ar­laust breyt­ing­um í meiri frels­isátt í meðför­um þings­ins á mál­inu.

Stærsta frels­is­mál árs­ins er án efa lög um sveigj­an­legri um­gjörð á leigu­bíla­markaði sem var samþykkt á loka­degi þings­ins fyr­ir jól. Mál­inu hef­ur verið brigslað um að vera ein­göngu viðbrögð við evr­ópsku boðvaldi en ráðamenn þeir sem lögðu það fram hafa sagt það rangt. Það er enda aug­ljóst öll­um sem vilja sjá að breyt­ing­ar á leigu­bíla­markaði voru nauðsyn­leg­ar, not­end­ur þjón­ust­unn­ar vita að þar blasti við neyðarástand. Frum­varpið sem innviðaráðherra lagði fram á vorþingi var því fagnaðarefni og ekki síst þær breyt­ing­ar sem voru unn­ar á þing­inu í frels­isátt, allt frá starfs­stöðvum til gjald­mæla sem sporna við aðgangs­hindr­un­um á markaðnum. Þessi atriði draga úr niðurnjörvun á tæki­fær­um og starfsaðstæðum þeirra sem starfa við að veita þjón­ust­una. Það er þó ekki þar með sagt að frels­inu fylgi ekki tak­mark­an­ir enda eru í nýju lög­un­um stíf­ar kröf­ur varðandi það hverj­ir geta starfað við leigu­bílaþjón­ustu í þágu ör­ygg­is not­enda.

Til­veru­rétt­ur alls lit­rófs­ins

Frels­is­mál­in eiga það oft sam­eig­in­legt að vera mál­svar­ar ým­issa lasta og oft ógna lýðheilsu. Það er nú samt þannig að það er ým­is­legt und­ir sól­inni sem er kannski ekki í öllu ljósi æski­legt en verður þó að fá sinn til­veru­rétt eins og hinir ólíku lit­ir lit­rófs­ins.

Þar má fyrst nefna brugg­hús­málið sem bar upp­haf­lega með sér að lít­il bjór­brugg­hús mættu selja vör­ur sín­ar á fram­leiðslu­stað. Þingið steig stærra frels­is­skref og víkkaði heim­ild­ina til allra fram­leiðenda áfeng­is, líka lí­kjöra og sterks áfeng­is. Það var frá­bært skref í átt að meira frelsi í áfeng­is­lög­gjöf­inni, sér­stak­lega þar sem net­versl­un­ar­frum­varpið sem und­ir­rituð lagði fram um jafn­ræði í net­sölu áfeng­is fékk ekki fram­göngu á ár­inu og ligg­ur nú hjá rík­is­stjórn.

Önnur mál sem rétt­mætt er að ígrunda vel en tak­marka frelsi fólks eru hug­mynd­ir um að banna bragðefni tób­aks. Á vorþingi lagði heil­brigðisráðherra fram frum­varp sem bannaði nikó­tín­púða með nammi- og ávaxta­bragði, sem fékk væg­ast sagt hörð viðbrögð á þing­inu um að þarna væri of langt seilst í að hefta val­frelsi full­orðins fólks í lög­legri neyslu­vöru og var í kjöl­farið breytt í meðför­um þings­ins. Rétt fyr­ir jóla­frí kom svo annað mál frá heil­brigðisráðherra sem inn­leiðing­ar­mál EES um bann á mentol­bragði í tób­aki. Und­ir­rituð gerði að um­tals­efni við fyrstu umræðu að rök við slíku banni væru væg­ast sagt rýr og hæpið að setja blá­an Capri í sama flokk og t.a.m. jarðarberjasíga­rett­ur sem væru vissu­lega eitt­hvað sem þyrfti að passa vel gagn­vart börn­um. Þetta verður von­andi tekið til end­ur­skoðunar í meðför­um nefnd­ar.

Sjálfs­ákvörðun­ar­rétt­ur fólks í tækni­frjóvg­un­um

Mál sem stend­ur mér nærri um að afmá úr­elt­ar og óþarfar regl­ur sem tálma tæki­fær­um fólks í erfiðum og sár­um kring­um­stæðum í tækni­frjóvg­un­um fékk að kom­ast í meðferð vel­ferðar­nefnd­ar og er þar í vinnslu. Málið sýndi strax mik­inn frelsis­vilja þing­heims þar sem full­trú­ar allra flokka á þingi voru með mér á mál­inu og verður von­andi til þess að það verði samþykkt svo að sam­búðarslit eða and­lát maka eða nokkuð annað en vilji fólks ákveði hverj­ir geti sótt sér aðstoð tækni­frjóvg­ana.

Treyst­um fólki

Í sí­felld­um mála­miðlun­um lýðræðis­sam­fé­lags­ins er frels­is­rödd­in nauðsyn­leg­ur þátt­tak­andi og kom að miklu gagni við að hnika mál­um í frels­isátt á þingár­inu.

Þetta skipt­ir nefni­lega máli; að fólk sé al­mennt frjálst til at­hafna en boð og bönn komi til þegar þörf kref­ur. Það er mun æski­legra en að líf fólks sé tak­markað inn í ramma sem yf­ir­völd­um þykir henta á hverj­um tíma. Ég óska lands­mönn­um þess að þeir njóti gleðilegra hátíða – á hvern þann hátt sem þeir kjósa.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. desember 2022.