Breytt hugarfar

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs:

Þegar heimsfaraldurinn gekk yfir mátti heyra ákall einstakra stjórnmálamanna um að sveitarfélög og ríki ættu að auka verulega opinber umsvif og fjölga starfsfólki til að draga úr atvinnuleysi. Reykjavíkurborg fór einmitt þá leið, sem reyndist þó misráðin í ljósi þeirrar efnahagsþróunar sem á eftir fylgdi og þrátt fyrir ört minnkandi atvinnuleysi eftir heimsfaraldur standa hin nýju stöðugildi hjá borginni eftir óhreyfð. Þetta er áminning um að ekkert er eins varanlegt og skammtímalausn hins opinbera.

Hið opinbera gegnir veigamiklu hlutverki í vestrænum ríkjum, tryggir aðgengi að grunnþjónustu, stendur vörð um innviði samfélagsins og tryggir lágmarkslífsviðurværi. Opinberir starfsmenn sinna fjölbreyttri þjónustu í heilbrigðis- og velferðarmálum, skóla- og leikskólamálum, skipulags- og samgöngumálum og þannig mætti áfram telja.

Hlutverk hins opinbera hefur hins vegar aukist verulega og í auknari mæli hafa verkefni bæst við sem flokkast ekki sem lögbundið hlutverk ríkisvaldsins. Það er þó ekki ókeypis. Fyrir fjórum áratugum námu opinber útgjöld um þriðjungi af framleiðslu þjóðarinnar, hlutfallið var komið í ríflega 40 prósent áratug síðar. Í dag er hlutfallið 50 prósent.

Opinber umsvif á Íslandi hafa að meðaltali aukist hraðar en í öðrum vestrænum ríkjum og eru þau mestu sem þekkjast. Þetta aukna umfang hefur verið fjármagnað með skatttekjum og hefur skattbyrði einstaklinga og fyrirtækja því vaxið samhliða.

Ekki sjálfbært áfram

Aukið umfang hefur haldist í hendur við fjölgun opinberra starfsmanna. Síðastliðinn áratug hefur opinberum störfum fjölgað að meðaltali tvöfalt hraðar en á almennum markaði. Sextán þúsund ný störf hafa orðið til á opinberum vinnumarkaði á tímabilinu, sem er meira en þriðjungs fjölgun. Til samanburðar hefur störfum á almennum vinnumarkaði fjölgað um fjórtán prósent á sama tímabili. Þá hefur opinberi markaðurinn jafnframt leitt áfram launaþróun í landinu. Laun opinberra starfsmanna hafa hækkað um 90 prósent á tíu árum til samanburðar við 70 prósent hækkun launa á almennum vinnumarkaði.

Laun og tengd gjöld vega um þriðjung af heildarútgjöldum hins opinbera og ekkert annað vestrænt ríki ver eins háu hlutfalli í launakostnað. Með hliðsjón af þungum rekstri sveitarfélaga og tug milljarða hallarekstri ríkissjóðs er ljóst að óbreytt þróun á vinnumarkaði getur ekki reynst sjálfbær áfram.

Þegar opinber umsvif hafa aukist hraðar en í öðrum vestrænum ríkjum, fjölgun starfa og launaþróun er leidd áfram af hinu opinbera fara viðvörunarbjöllur að hringja. Niðurskurður sem kemur niður á grunnþjónustu er ekki lausn við þessari þróun því hún ristir dýpra en svo. Hlutverk hins opinbera þarf að endurhugsa, selja fyrirtæki sem eru í beinni samkeppni við einkaaðila og úthýsa sem mest þjónustu hjá stofnunum án þess að það komi niður á kjarnastarfsemi þeirra. Fleira þarf þó að koma til.

Nauðsynlegar breytingar

Opinberi vinnumarkaðurinn er mun ósveigjanlegri en á almennum vinnumarkaði. Í fyrsta lagi njóta opinberir starfsmenn meiri verndar en á almennum vinnumarkaði, sem á rætur að rekja til laga um réttindi opinberra starfsmanna sem samþykkt voru fyrir 30 árum. Á þeim tíma var talið mikilvægt að verja opinbera starfsmenn gegn afskiptum stjórnmálamanna. Síðan þá hafa verkefni hins opinbera breyst, orðið umfangsmeiri og fjölmörg dæmi um að þau séu í beinni samkeppni við fyrirtæki á almennum markaðar. Þá var lengi vel horft til þess að laun á almennum vinnumarkaði væru hærri en á móti nytu opinberir starfsmenn meira starfsöryggis og betri réttinda. Sú staða hefur einnig breyst og í dag er óverulegur launamunur milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins.

Í öðru lagi þá er takmarkað frelsi til að umbuna sérstaklega opinberum starfsmönnum sem þykja skara fram úr í vinnu. Slíkt fyrirkomulag dregur úr hvata starfsmanna til að sýna frumkvæði og nýsköpun sem tengist starfi þeirra. Markviss skref í átt að alvöru kerfisbreytingum á opinberum vinnumarkaði með það að markmiði að auka sveigjanleika og opna á samningsfrelsi opinberra stétta væri til hagsbóta fyrir alla. Það væri til dæmis ágætt að geta umbunað þeim kennurum sem þykja skara fram úr í starfi. Aukinn sveigjanleiki myndi einnig stuðla að framþróun í opinberum rekstri.

Verkefnið fram undan er sporna gegn þessari þróun sem verið hefur. Ekki verður áfram seilst í vasa skattgreiðenda til að fjármagna aukið umfang og fjölgun starfa í opinbera geiranum, þótt einstakir stjórnmálamenn hafi talið sér trú um annað.

Greinin birtist í áramótablaði Viðskiptablaðsins 29. desember 2022.