Áramótakveðja

Þrátt fyrir að stutt sé frá sveitarstjórnarkosningum í Múlaþingi þá er ég stolt af þeim verkefnum sem við höfum komið áfram og eitt af því er átak í húsnæðisuppbyggingu sem er lykillinn að því að grípa tækifærin. Átak í deiliskipulagi fjölbreyttra lóða og áhersla á að koma framkvæmdum í gang sem víðast hefur því tekist afar vel og mikilvægt er að vera í góðu samtali við áhugasama verktaka og það að vera lausnarmiðaður í því samtali er grundvallarforsenda þess að alhliða framkvæmdir fari í gang. Gott samtal við atvinnulífið er einnig gríðarlega mikilvægt því við vitum að atvinnulífið er hjarta hvers samfélags.

Áhersla okkar hefur verið að öllum börnum frá 12 mánaða aldri sé tryggð leikskólavist. Í haust tók til starfa nýr leikskóli í Fellabæ við Egilsstaði og stöndum við þannig við áherslu okkar um trygga leikskólavist allra barna.

Ljósleiðaravæðingu er að ljúka í dreifbýli og leggjum við áherslu á að flýta þrífösun rafmagns í dreifbýli við vinsæla ferðamannastaði eins og t.d. Stuðlagil.

Uppbygging Egilsstaðaflugvallar er Austurlandi mikilvæg m.t.t. útflutnings á sjávarafurðum og farþegaflutningum. Egilsstaðaflugvöllur er skilgreindur í algjörum forgangi í uppbyggingu varaflugvalla hér á landi, hönnun liggur fyrir og nú bíðum við eftir fjármagni til framkvæmda. Varaflugvallargjald sem Njáll Trausti Friðbertsson hefur barist fyrir er mikilvægt svo settir verði fjármunir í þessa mikilvægu uppbyggingu.

Með sameiningu fjögurra sveitarfélaga í Múlaþing höfum við fundið að við erum mun öflugri eining og leggjum gríðarlega áherslu á góðar samgöngur milli byggðakjarna. Fjarðarheiðargöng og heilsársvegur um Öxi eru inni á Samgönguáætlun og mikilvægt er að þeim framkvæmdum seinki alls ekki. Ríkið ýtir undir enn frekari sameingar með sameiningarframlagi og við horfum einnig til enn frekari sameininga. Mín sýn er að allt Austurland verði eitt sameinað sveitarfélag innan tíðar.

Með bestu óskum um gleðilegt og farsælt nýtt ár.

Berglind Harpa Svavarsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi.