Áramótakveðja

Kæru félagar

Ótrúlegu ári er að ljúka fyrir okkur sjálfstæðismenn í Árborg. Haldið var prófkjör í mars þar sem 18 frambærilegir einstaklingar buðu fram krafta sína fyrir flokkinn. Úr varð öflugur listi með góðri blöndu af nýju og reynslumiklu fólki sem flokkurinn bauð fram fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Kosningabaráttan í Sveitarfélaginu Árborg var spennandi með sex flokka í framboði en þegar talningu lauk var ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hafði náð inn sex bæjarfulltrúum og hreinum meirihluta. Markmiðið náðist með öflugri samvinnu flokksmanna undir dyggri stjórn kosningastjórans, Guðmundar Þórs Guðjónssonar og Halldóru Guðlaugu Þorvaldsdóttur sem sá um samfélagsmiðlana. Vil fyrir hönd bæjarfulltrúa sjálfstæðisflokksins þakka öllum þeim sem lögðu hendur á plóg við þetta verðuga verkefni.

Skýr framtíðarsýn fyrir sveitarfélagið

Í kjölfar kosninga hefst vinnan fyrir alvöru og hér í Sveitarfélaginu Árborg stöndum við frammi fyrir krefjandi en um leið spennandi verkefni. Áhugi einstaklinga á að setjast að í Árborg og fyrirtækja að koma upp starfsemi er einstakt tækifæri fyrir svæðið. Stærsta verkefni okkar sem sitjum í bæjarstjórn er að nýta þennan meðbyr sem best fyrir sveitarfélagið en um leið endurskipuleggja reksturinn með það að markmiði að bæta þjónustu og gera hann sjálfbæran til lengri tíma. Skýr framtíðarsýn er hluti af þeirri vegferð og bæjarstjórn Árborgar hefur verið að vinna að 10 ára fjármálaætlun fyrir sveitarfélagið í samstarfi við KPMG ásamt því að koma af stað vinnu við fjölda deiliskipulaga sem gefa tækifæri til áframhaldandi uppbyggingar.

Það er spennandi ár fram undan og vil ég koma á framfæri hátíðarkveðju til allra landsmanna með ósk um farsæld á nýju ári.

Bragi Bjarnason, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Árborg