„Kveikt er ljós við ljós“

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

„Virk­ustu mann­hat­urs­ma­skín­ur og drápsvél­ar allra tíma voru hin guðlausu ríki 20. ald­ar­inn­ar, Sov­ét­rík­in, Þýska­land nas­ism­ans og Kína. Nú í dag held­ur Norður-Kórea uppi merki hins guðlausa sam­fé­lags, og síst er mannúðinni fyr­ir að fara þar. Skyldi vera sam­hengi á milli guðleys­is­stefn­unn­ar, hat­urs­ins á krist­in­dóm­in­um og grimmd­ar­inn­ar og mann­fyr­ir­litn­ing­ar­inn­ar sem þess­ar hel­stefn­ur ólu af sér? Alla vega ætt­um við að gefa því gaum hvað ger­ist þegar Jesú Kristi er rýmt út úr lífi ein­stak­linga og sam­fé­lags – eins og virðist keppikefli svo margra sem ráða upp­eldi og skoðana­mót­un á Íslandi í dag. Við verðum vitni að út­breiddri trú­ar­fælni og gegnd­ar­laust er blásið að glæðum andúðar á kirkju og kristni. Hvað býr þar að baki? Sann­leiks­ást? Rétt­lætis­kennd? Frels­is­hug­sjón? Draum­ur­inn um hið guðlausa sam­fé­lag – eða bara geðvonska?“

Spurn­ing­un­um sem herra Karl Sig­ur­björns­son varpaði fram í pre­dik­un í Kópa­vogs­kirkju á gaml­árs­dag 2017 verður hver og einn að svara fyr­ir sig. Í van­trú á hand­leiðslu hins góða finnst svarið hins veg­ar ekki, held­ur í lif­andi trú á kær­leik­ann – á Guð í al­heimi og í okk­ur sjálf­um. Í trúnni finn­ast ekki svör við öll­um okk­ar spurn­ing­um en við vit­um að aðeins sá sem þyk­ist vita nóg spyr ekki. „Eng­inn finn­ur, sem einskis leit­ar. Og sá einn leit­ar, sem skil­ur, að hon­um er ein­hvers vant,“ skrifaði herra Sig­ur­björn Ein­ars­son bisk­up í hug­vekju sem birt­ist í Morg­un­blaðinu í fe­brú­ar 2008: „Vits­muna­dramb, þekk­ing­ar­hroki, of­læti vegna gáfna og lær­dóms fær þunga dóma bæði í helg­um ritn­ing­um og fyr­ir dóm­stóli lífs­ins og reynsl­unn­ar fyrr og síðar.“

Trú­in tor­tryggð

Sá er ekki trú­ir hef­ur ekki þörf fyr­ir að spyrja. Í ver­ald­ar­hyggju trú­leys­is, hraða sam­tím­ans og vel­meg­un er hætt­an sú að and­leg nær­ing verði fá­breyti­leg og inni­halds­laus. Aðeins það sem hægt er að kaupa, grípa og eign­ast er ein­hvers virði. Trú­in á Guð er gerð út­læg úr skól­um og op­in­beru lífi. Að þiggja kristna bless­un er litið horn­auga. Trú­in er tor­tryggð og skorið á kristn­ar ræt­ur. Kenni­maður­inn Sig­ur­björn Ein­ars­son varaði oft og iðulega við því að í hugs­un­ar­lausri vel­sæld og ver­ald­ar­hyggju lét­um við „helgi­dóm­inn veðrast og fylla alla forg­arða heiðnum hug­s­míðum“.

Sig­urður Sig­ur­jóns­son, einn far­sæl­asti leik­ari lands­ins, sagði að spurn­ing Kol­brún­ar Bergþórs­dótt­ur blaðamanns um hvort hann væri trúaður væri stór og til væru mörg og flók­in svör. Í viðtali sem birt­ist í Morg­un­blaðinu 2009 sagðist Sig­urður hafa velt trú­mál­um tals­vert fyr­ir sér: „Já, ég er trúaður maður og hef lesið tals­vert um trú­mál. Ég sæki kirkju og mér líður vel í kirkj­unni minni. Ég trúi á þær leiðbein­ing­ar sem eru sett­ar fram í kristn­inni. Þær eru um­ferðarregl­urn­ar okk­ar. Fal­leg­ar regl­ur sem við eig­um að fara eft­ir. Það tekst ekki alltaf en breyt­ir ekki því að ég trúi á þær.“

Lík­leg­ast er óhætt að segja að flest­ir geti tekið und­ir með leik­ar­an­um sem ját­ar trú sína en viður­kenn­ir um leið að sér tak­ist ekki alltaf að fylgja orði Krists – um­ferðarregl­un­um. Í sam­tím­an­um er það meiri áskor­un en oft áður. Í skjóli sam­fé­lags­miðla höf­um við orðið óheflaðri og harka­legri hvert við annað. Ber­um minni virðingu fyr­ir ólík­um skoðunum. Erum til­bú­in til að særa og meiða sam­ferðafólk með stór­yrðum og sleggju­dóm­um. Í mörgu er umb­urðarlyndið á und­an­haldi og þar eiga báðir sök; trú­leys­ing­inn og trúmaður­inn sem geng­ur gegn kær­leiksorði Krists.

And­leg nær­ing

Á jól­um býðst okk­ur ekki aðeins and­leg nær­ing held­ur fáum við einnig staðfest­ingu á því að krist­in trú bygg­ist á trausti á orðum og per­sónu Jesú Krists. „Hann vek­ur það traust á sér, að maður vill þiggja það að fylgja hon­um og lofa hon­um að hjálpa sér til þess að sjá lífið og til­ver­una í ljósi hans,“ skrifaði Sig­ur­björn í hug­vekju í mars 2008. Þannig sjá­um við „allt sköp­un­ar­verkið með undr­un þess og dá­semd­um, gát­um þess og skugg­um, í sama ljósi“. Trú­in og traustið á Krist svari ekki öllu og leysi ekki all­ar gát­ur. En öll get­um við notið ljóss­ins ef við vilj­um taka á móti því.

Kveikt er ljós við ljós,
burt er sort­ans svið.
Ang­ar rós við rós,
opn­ast him­ins hlið.
Niður stjörn­um stráð,
eng­ill fram hjá fer.
Drott­ins nægð og náð
boðin alþjóð er.
(Stefán frá Hvíta­dal)

Jól­in eru hátíð ljóss og friðar, hátíð gleði, feg­urðar og hins sanna og góða. Þegar við fögn­um komu frels­ar­ans öðlumst við ró hug­ans. Helgi jól­anna stend­ur okk­ur öll­um til boða ef við opn­um hjartað fyr­ir ljós­inu. Guð hvorki neyðir okk­ur né þving­ar til að taka á móti Jesú. Hann býður öll­um sem vilja leiðarljós kær­leika og von­ar.

Kom blessuð, ljóss­ins hátíð, – helgi þín
minn hug og vilja göfgi, vermi, fylli,
svo mátt­ug verði og heil­ög hugs­un mín
og hörpu mína Drott­ins andi stilli

„Ó, gef mér barns­ins glaðan jóla­hug,
við geisla ljósa­dýrðar vært er sofn­ar.
Þá hef­ur sál mín sig til þín á flug,
og sér­hvert ský á himni mín­um rofn­ar.“
(Guðmund­ur Guðmunds­son)

Ég óska les­end­um Morg­un­blaðsins og lands­mönn­um öll­um gleðilegra jóla.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. desember 2022.