Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
„Virkustu mannhatursmaskínur og drápsvélar allra tíma voru hin guðlausu ríki 20. aldarinnar, Sovétríkin, Þýskaland nasismans og Kína. Nú í dag heldur Norður-Kórea uppi merki hins guðlausa samfélags, og síst er mannúðinni fyrir að fara þar. Skyldi vera samhengi á milli guðleysisstefnunnar, hatursins á kristindóminum og grimmdarinnar og mannfyrirlitningarinnar sem þessar helstefnur ólu af sér? Alla vega ættum við að gefa því gaum hvað gerist þegar Jesú Kristi er rýmt út úr lífi einstaklinga og samfélags – eins og virðist keppikefli svo margra sem ráða uppeldi og skoðanamótun á Íslandi í dag. Við verðum vitni að útbreiddri trúarfælni og gegndarlaust er blásið að glæðum andúðar á kirkju og kristni. Hvað býr þar að baki? Sannleiksást? Réttlætiskennd? Frelsishugsjón? Draumurinn um hið guðlausa samfélag – eða bara geðvonska?“
Spurningunum sem herra Karl Sigurbjörnsson varpaði fram í predikun í Kópavogskirkju á gamlársdag 2017 verður hver og einn að svara fyrir sig. Í vantrú á handleiðslu hins góða finnst svarið hins vegar ekki, heldur í lifandi trú á kærleikann – á Guð í alheimi og í okkur sjálfum. Í trúnni finnast ekki svör við öllum okkar spurningum en við vitum að aðeins sá sem þykist vita nóg spyr ekki. „Enginn finnur, sem einskis leitar. Og sá einn leitar, sem skilur, að honum er einhvers vant,“ skrifaði herra Sigurbjörn Einarsson biskup í hugvekju sem birtist í Morgunblaðinu í febrúar 2008: „Vitsmunadramb, þekkingarhroki, oflæti vegna gáfna og lærdóms fær þunga dóma bæði í helgum ritningum og fyrir dómstóli lífsins og reynslunnar fyrr og síðar.“
Trúin tortryggð
Sá er ekki trúir hefur ekki þörf fyrir að spyrja. Í veraldarhyggju trúleysis, hraða samtímans og velmegun er hættan sú að andleg næring verði fábreytileg og innihaldslaus. Aðeins það sem hægt er að kaupa, grípa og eignast er einhvers virði. Trúin á Guð er gerð útlæg úr skólum og opinberu lífi. Að þiggja kristna blessun er litið hornauga. Trúin er tortryggð og skorið á kristnar rætur. Kennimaðurinn Sigurbjörn Einarsson varaði oft og iðulega við því að í hugsunarlausri velsæld og veraldarhyggju létum við „helgidóminn veðrast og fylla alla forgarða heiðnum hugsmíðum“.
Sigurður Sigurjónsson, einn farsælasti leikari landsins, sagði að spurning Kolbrúnar Bergþórsdóttur blaðamanns um hvort hann væri trúaður væri stór og til væru mörg og flókin svör. Í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu 2009 sagðist Sigurður hafa velt trúmálum talsvert fyrir sér: „Já, ég er trúaður maður og hef lesið talsvert um trúmál. Ég sæki kirkju og mér líður vel í kirkjunni minni. Ég trúi á þær leiðbeiningar sem eru settar fram í kristninni. Þær eru umferðarreglurnar okkar. Fallegar reglur sem við eigum að fara eftir. Það tekst ekki alltaf en breytir ekki því að ég trúi á þær.“
Líklegast er óhætt að segja að flestir geti tekið undir með leikaranum sem játar trú sína en viðurkennir um leið að sér takist ekki alltaf að fylgja orði Krists – umferðarreglunum. Í samtímanum er það meiri áskorun en oft áður. Í skjóli samfélagsmiðla höfum við orðið óheflaðri og harkalegri hvert við annað. Berum minni virðingu fyrir ólíkum skoðunum. Erum tilbúin til að særa og meiða samferðafólk með stóryrðum og sleggjudómum. Í mörgu er umburðarlyndið á undanhaldi og þar eiga báðir sök; trúleysinginn og trúmaðurinn sem gengur gegn kærleiksorði Krists.
Andleg næring
Á jólum býðst okkur ekki aðeins andleg næring heldur fáum við einnig staðfestingu á því að kristin trú byggist á trausti á orðum og persónu Jesú Krists. „Hann vekur það traust á sér, að maður vill þiggja það að fylgja honum og lofa honum að hjálpa sér til þess að sjá lífið og tilveruna í ljósi hans,“ skrifaði Sigurbjörn í hugvekju í mars 2008. Þannig sjáum við „allt sköpunarverkið með undrun þess og dásemdum, gátum þess og skuggum, í sama ljósi“. Trúin og traustið á Krist svari ekki öllu og leysi ekki allar gátur. En öll getum við notið ljóssins ef við viljum taka á móti því.
Kveikt er ljós við ljós,
burt er sortans svið.
Angar rós við rós,
opnast himins hlið.
Niður stjörnum stráð,
engill fram hjá fer.
Drottins nægð og náð
boðin alþjóð er.
(Stefán frá Hvítadal)
Jólin eru hátíð ljóss og friðar, hátíð gleði, fegurðar og hins sanna og góða. Þegar við fögnum komu frelsarans öðlumst við ró hugans. Helgi jólanna stendur okkur öllum til boða ef við opnum hjartað fyrir ljósinu. Guð hvorki neyðir okkur né þvingar til að taka á móti Jesú. Hann býður öllum sem vilja leiðarljós kærleika og vonar.
Kom blessuð, ljóssins hátíð, – helgi þín
minn hug og vilja göfgi, vermi, fylli,
svo máttug verði og heilög hugsun mín
og hörpu mína Drottins andi stilli
…
„Ó, gef mér barnsins glaðan jólahug,
við geisla ljósadýrðar vært er sofnar.
Þá hefur sál mín sig til þín á flug,
og sérhvert ský á himni mínum rofnar.“
(Guðmundur Guðmundsson)
Ég óska lesendum Morgunblaðsins og landsmönnum öllum gleðilegra jóla.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. desember 2022.