100 ára ártíð Hannesar Hafstein

Í dag eru 100 ár síðan Hannes Hafstein fyrsti ráðherra Íslands lést 61 árs að aldri. Hannes varð fyrsti ráðherra Íslands þann 1. febrúar 1904 og átti þannig ríkan þátt í sögu sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Hann var ráðherra til 1909 og svo aftur frá 1912 til 1914. Hannes var í senn mikill sjálfstæðissinni og baráttumaður fyrir frelsi.

Hannes var fæddur á Möðruvöllum í Hörgárdal 4. desember 1861. Hann var Alþingismaður Ísfirðinga 1900-1901, alþingismaður Eyfirðinga 1903-1915 og landskjörinn alþingismaður 1916-1922. Hann var forseti sameinaðs þings 1912.

Hannes var lögfræðingur. Hann var settur sýslumaður í Dalasýslu 1886, sat að Staðarfelli. Málaflutningsmaður við landsyfirréttinn 1887. Sinnti síðan lögfræðistörfum um hríð. Landshöfðingjaritari frá 1889 og jafnframt að nýju málaflutningsmaður við landsyfirréttinn 1890–1893. Sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Ísafirði 1896–1904. Bankastjóri við Íslandsbanka 1909–1912. Varð aftur bankastjóri við Íslandsbanka 1914 og gegndi því starfi til 1917, er hann varð að láta af því vegna vanheilsu. Þá var Hannes foringi Heimastjórnarflokksins 1901–1912.