Höfuðborg skuldanna

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Fjár­hags­áætl­un Reykja­vík­ur­borg­ar fyr­ir árið 2023 var samþykkt í borg­ar­stjórn í fyrrinótt. Áætl­un­in sýn­ir að meiri­hluti Sam­fylk­ing­ar, Fram­sókn­ar­flokks, Pírata og Viðreisn­ar hef­ur eng­in tök á fjár­mál­um borg­ar­inn­ar. Rekst­ur­inn er ekki sjálf­bær og borg­in stend­ur frammi fyr­ir mikl­um skulda­vanda.

Borg­ar­bú­ar blekkt­ir

Fyr­ir borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­ar í vor var því haldið fram af borg­ar­stjóra að fjár­hags­staða Reykja­vík­ur­borg­ar væri sterk og að hún ætti ekki við neinn vanda að stríða í þeim efn­um. Um leið og borg­ar­stjóri hélt þessu fram boðaði hann jafn­framt ný út­gjöld upp á tugi millj­arða króna. Því miður létu marg­ir kjós­end­ur blekkj­ast fyr­ir kosn­ing­ar en nú er komið á dag­inn að fjár­hags­staða borg­ar­inn­ar er mjög slæm. Væri það verðugt rann­sókn­ar­verk­efni að skoða mun­inn á þeirri fjár­mála­stöðu, sem áróður­svél borg­ar­stjóra í ráðhús­inu hélt að kjós­end­um fyr­ir kosn­ing­ar, og raun­veru­legri stöðu.

Froðuhagnaður vegna fé­lags­legra íbúða

Stór liður í fjár­hags­áætl­un borg­ar­inn­ar er svo­nefnd „mats­breyt­ing fjár­fest­ing­ar­eigna“.

Fé­lags­leg­ar íbúðir borg­ar­inn­ar eru end­ur­metn­ar og aukið verðmæti þeirra skráð sem hagnaður í bæk­ur borg­ar­inn­ar. Þetta er reiknaður hagnaður (froða) en ekki raun­veru­leg­ur. Þessi mats­breyt­ing nam 20,5 millj­örðum á síðasta ári og mun nema 29,5 millj­örðum á þessu ári. Án þessa froðuhagnaðar væri rekstr­artap sam­stæðu borg­ar­inn­ar um fimmtán millj­arðar króna á yf­ir­stand­andi ári.

Íþyngj­andi vaxta­gjöld

Sam­kvæmt út­komu­spá munu vaxta­gjöld borg­ar­inn­ar rúm­lega tvö­fald­ast á milli ár­anna 2021 og 2022. Vaxta­gjöld­in voru tæp­lega 13 millj­arðar í fyrra en verða rúm­lega 26 millj­arðar í ár. Gert er ráð fyr­ir að þau lækki að nýju og verði 18,5 millj­arðar á næsta ári. Auðvitað er þó vandi um slíkt að spá.

Þrátt fyr­ir grafal­var­lega skulda­stöðu ætla borg­ar­stjóri og aðrir borg­ar­full­trú­ar meiri­hlut­ans enn að auka skuld­irn­ar.

Langvar­andi skulda­söfn­un Sam­fylk­ing­ar

Skuld­ir borg­ar­inn­ar (A- og B-hluta) munu aukast um 35 millj­arða króna á ár­inu og verða komn­ar í 442 millj­arða núna um ára­mót­in. Sam­kvæmt frum­varpi að fjár­hags­áætl­un munu skuld­ir borg­ar­inn­ar aukast um 22 millj­arða á næsta ári og verða 464 millj­arðar í árs­lok 2023.

Auk­in skuld­setn­ing er fjár­mála­stefna vinstri meiri­hlut­ans í Reykja­vík í hnot­skurn. Ef haldið verður áfram á þeirri óheilla­braut að hækka skuld­ir Reykja­vík­ur­borg­ar um tugi millj­arða á ári stefn­ir borg­in í greiðsluþrot inn­an nokk­urra ára. Eng­inn skuld­set­ur sig út úr fjár­hags­vanda og skipt­ir þá ekki máli hvort um er að ræða heim­ili, fyr­ir­tæki eða sveit­ar­fé­lag.

Reykja­vík­ur­borg hef­ur safnað skuld­um linnu­lítið í ald­ar­fjórðung, lengst af und­ir for­ystu borg­ar­stjóra Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Erfitt er að sjá í hvaða veru­leika þeir stjórn­mála­menn lifa, er halda því fram að slík­ur rekst­ur sé í lagi og koma þar að auki stöðugt með hug­mynd­ir að nýj­um út­gjalda­verk­efn­um, sem al­menn­ing­ur á að greiða. Slík fjár­mála­stefna er ábyrgðarlaus en á tím­um hárra vaxta er hún bein­líns hættu­leg.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. desember 2022.