Bjarni

Stóraukin framlög til heilbrigðis-, löggæslu- og örorkumála

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, hefur lagt fram tillögur að breytingum við aðra umræðu fjárlagafrumvarps ársins 2023. Þar sem gert er ráð fyrir auknum framlögum til nokkurra veigamikilla málaflokka. Þyngst vega heilbrigðismál, þar sem lögð er til rúmlega 12 milljarða króna aukning – en að auki má m.a. nefna löggæslumál, málefni öryrkja og fatlaðs fólks, orkumál og nýsköpun. Á sama tíma er staðinn vörður um þau meginmarkmið opinberra fjármála að stöðva hækkun skuldahlutfalla.

Af þeim 12,2 milljörðum sem lagðir eru til í heilbrigðismál er gert ráð fyrir að 4,3 milljarðar renni í að styrkja Landspítalann, Sjúkrahúsið á Akureyri og heilsugæsluna. Lagt er til að auka framlög til lögreglunnar um 900 milljónir kr. með hliðsjón af markmiðum um viðbragðstíma, málsmeðferðarhraða og öryggisstigs auk 500 m.kr. hækkunar í aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi.

Þá er lagt til að styrkja Landhelgisgæsluna með 600 milljóna kr. hækkun, m.a. vegna aukins eldsneytiskostnaðar, endurnýjunar búnaðar og leigu nýs flugskýlis.

Frítekjumark öryrkja hækkað

Lagt er til að framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála hækki um 3,7 milljarða kr. en þar af fari 1,1 milljarður kr. til að hækka frítekjumark atvinnutekna öryrkja í 200.000 kr. á mánuði.

Alls er gert ráð fyrir að hækkun vegna ýmissa verkefna sem tengjast fjölgun flóttafólks og umsækjendum um alþjóðlega vernd, ásamt stuðningi við Úkraínu, nemi um 5 milljarða kr.

Áframhaldandi orkuskipti og átak í jarðhitaleit

Af öðrum málum má nefna að lögð er til hækkun til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina sem nemur 5,5 milljörðum kr. en stærsti hluti þess er annars vegar 4 milljarða kr. til að mæta áætlaðri fjárþörf vegna endurgreiðslna til kvikmyndagerðar á næsta ári og hins vegar 1,3 milljarðs kr. vegna uppfærðrar áætlunar á styrkjum til fyrirtækja vegna endurgreiðslna á rannsókna- og þróunarkostnaði.

Sjá nánar í frétt á vef fjármálaráðuneytisins hér.