Frelsisverðlaun SUS 2022 voru afhent í Valhöll

Frelsisverðlaunin hafa verið veitt þeim einstaklingi og lögaðila sem þykja að mati SUS hafa lagt sitt af mörkum í frelsisbaráttunni í víðtækum skilningi. Í ár kynntum við einnig til leiks nýjan flokk frelsisverðlaunanna en einnig voru veitt verðlaun fyrir þann kjörna fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem þótti hafa skarað fram úr í frelsisbaráttunni.

– Flokkur einstaklinga:
Í ár hlaut Heiðar Guðjónsson athafnamaður frelsisverðlaunin í flokki einstaklinga. Heiðar hefur verið áberandi í umræðu um frelsismál og talað afgerandi máli frelsisins á opinberum vettvangi.

– Flokkur lögaðila:
Frú Ragnheiður, verkefni Rauða krossins, hlaut frelsisverðlaunin í flokki lögaðila. Frú Ragnheiður hefur gjörbreytt nálgun í meðferð notenda fíkniefna á Íslandi og átt stóran þátt í að breyta hugarfari almennings í þá átt að notendur fíkniefna eigi við heilbrigðisvanda að etja og þeim beri að hjálpa en ekki refsa og afneita.

– Flokkur kjörinna fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir hlaut frelsisverðlaunin í flokki kjörinna fulltrúa. Þórdís hefur tekið skýra afstöðu með Úkraínu á alþjóðavettvangi, vakið athygli á mikilvægi vestrænnar samvinnu og þeim gildum sem tryggja frelsi og mannréttindi. Þá hefur hún talað fyrir frelsi ungra kvenna í Íran og kvenfrelsi á opinberum vettvangi.