Innistæðulaus gífuryrði

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Stjórnsýsluúttekt ríkisendurskoðanda á sölu 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars síðastliðnum er ekki sá áfellisdómur sem margir stjórnarandstæðingar höfðu vonast eftir. Stóryrðin og sleggjudómarnir, sem féllu síðasta vor, verða ekki studd með vísan til skýrslunnar. Andstæðingar þess að umbreyta áhættusömum eignum ríkisins í fjármálafyrirtækjum í mikilvæga innviði fyrir íslenskt samfélag, munu örugglega ekki gefast upp. Þeir halda áfram tilraunum sínum til að grafa undan trausti og sá fræjum tortryggni með gífuryrðum til að koma í veg fyrir að haldið verði áfram að draga ríkið út úr aðalhlutverki á fjármálamarkaði.

Ríkisendurskoðandi kemst að eftirfarandi niðurstöðu í ítarlegri skýrslu sinni um söluna á Íslandsbankabréfunum:

„Þrátt fyrir ýmsa annmarka á söluferlinu dregur Ríkisendurskoðun ekki í efa að fjárhagsleg niðurstaða söluferlis á hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka þann 22. mars 2022 hafi verið ríkissjóði almennt hagfelld. Það á einnig við um þróun á gengi bréfa í bankanum á eftirmarkaði í kjölfar sölunnar. Þó er ekki hægt að fullyrða að salan hafi verið ríkissjóði eins hagkvæm og verða mátti.“

Niðurstaðan er í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar 19. apríl síðastliðinn, þar sem sagði að þeir „annmarkar sem í ljós hafa komið við undirbúning og framkvæmd sölu á eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum hafa leitt í ljós þörfina fyrir endurskoðun á lagaumgjörð og stofnanafyrirkomulagi“.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að ljóst sé „að framkvæmd sölunnar stóð ekki að öllu leyti undir væntingum stjórnvalda, m.a. um gagnsæi og skýra upplýsingagjöf“. Vaknað hafi „spurningar, álitamál og gagnrýni um framkvæmd sölunnar sem fór fram sem nauðsynlegt er að rannsaka og upplýsa almenning um“.

Mikilvægt innlegg

Ríkisendurskoðandi gagnrýnir margt sem betur hefði mátt fara í söluferlinu, ekki síst að kynna hefði átt fyrirkomulagið betur. Þá hafi ekki verið nægilega vandað til gerðar sölusamnings sem Bankasýslan gerði við umsjónaraðila, söluráðgjafa og seljanda. Ljóst er einnig að illa var haldið um tilboðsbók seljanda. Aðfinnslur Ríkisendurskoðunar beinast bæði að undirbúningi og framkvæmd. Einnig er ljóst að það voru mistök að láta Íslandsbanka leika lykilhlutverk í sölu á eigin bréfum. Slíkt skapar alltaf hættu á hagsmunaárekstrum og orðsporsáhættu.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar er mikilvægt innlegg í að móta lagaramma til framtíðar um sölu ríkiseigna almennt og þá sérstaklega í fjármálafyrirtækjum. Sú vinna er þegar hafin, eins og fyrrnefnd yfirlýsing ríkisstjórnarinnar ber með sér.

„Þeir annmarkar sem í ljós hafa komið við undirbúning og framkvæmd sölu á eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum hafa leitt í ljós þörfina fyrir endurskoðun á lagaumgjörð og stofnanafyrirkomulagi.“

Þá segir að ríkisstjórnin hafi ákveðið að „leggja það til við Alþingi að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður og innleitt verði nýtt fyrirkomulag til að halda utan um eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum“. Lögð verði áhersla á ríkari aðkomu Alþingis og gagnsæi betur tryggt samhliða upplýsingagjöf til almennings. Þess er að vænta að frumvarp þessa efnis líti dagsins ljós á komandi vikum.

Auðvitað er skýrsla Ríkisendurskoðunar ekki yfir gagnrýni hafin. Vangaveltur um það hvort hægt hefði verið að fá hærra verð fyrir hlutabréfin en raun varð eru ekki annað en vangaveltur. Enginn er þess umkominn að fella þar dóm.

Tilboðsfyrirkomulagið, sem stuðst var við, er nýlunda hér á landi en ágætlega þekkt í öðrum löndum. Nýlega seldi írska ríkið hluti í Allied Irish Banks í tvennu lagi. Þar var söluverðið 6,5% og 7,8% undir dagslokagengi á markaði. Í tilfelli Íslandsbanka var „afslátturinn“ 4,1%, sem er vísbending um að vel hafi tekist til við verðlagninguna. Ef markmið með sölu á eignarhlutum ríkisins er aðeins það að hámarka verðið hefði verið skynsamlegast að selja einum kaupanda – hæstbjóðanda – bankann í heild sinni eða góðan meirihluta í það minnsta. En þá hefðu önnur markmið ekki náðst, s.s. um fjölbreytt, heilbrigt og dreift eignarhald.

Raunveruleg pólitík

Ákvörðun um að selja eignarhluti ríkisins í Íslandsbanka er í eðli sínu pólitísk og í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að „halda áfram að draga úr eignarhaldi ríkisins í fjármálakerfinu og nýta fjármuni sem liggja í slíkum rekstri í uppbyggingu innviða“. Margir stjórnarandstæðingar eru í hjarta sínu, leynt eða ljóst, mótfallnir þessari stefnu. Þeir halda áfram tilraunum sínum til að þyrla upp moldviðri, óháð skýrslu ríkisendurskoðanda.

Stóryrðin, sleggjudómarnir og dylgjurnar verða ekki rökstudd með aðstoð Ríkisendurskoðunar. Í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins síðastliðið mánudagskvöld var Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi spurður hvort „einhvers konar lögbrot“ hefði átt sér stað við söluferlið. Svarið var skýrt:

„Nei, við erum ekki að benda á lögbrot í söluferlinu en við erum hins vegar að benda á ýmsa annmarka í framkvæmd þess, sannarlega.“

Svarið kemur ekki á óvart enda er hvergi í skýrslunni látið að því liggja að lög hafi verið brotin. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að ríkisendurskoðanda er bæði rétt og skylt að vekja athygli Alþingis og eftir atvikum lögreglu og annarra eftirlitsstofnana á því ef grunur vaknar um að lög hafi verið brotin eða lagafyrirmælum ekki fylgt við framkvæmd stjórnvalda.

Fjármálaeftirlit Seðlabankans [FME] vinnur enn að rannsókn á starfsháttum eftirlitsskyldra seljenda vegna Íslandsbankasölunnar. Vísbendingar eru um að þar hafi ýmislegt farið úrskeiðis. Ekki er ólíklegt að niðurstaða FME hafi áhrif á lagasetningu um fyrirkomulag á sölu ríkiseigna.

Eitt stendur óhaggað. Ríkissjóður hefur fengið um 108 milljarða króna fyrir sölu hlutabréfa í Íslandsbanka og heldur enn á 42,5% hlut. Búið er að tryggja dreift eignarhald á bankanum með þátttöku almennings, lífeyrissjóða og erlendra fjárfesta. Áhætta ríkisins af áhættusömum rekstri hefur verið minnkuð og jarðvegurinn fyrir heilbrigðara fjármálakerfi verið undirbúinn í samræmi við tillögur hvítbókar um fjármálakerfið frá 2018. Söluandvirðið hefur verið nýtt til að styrkja innviði samfélagsins. Áhættusamri ríkiseign hefur verið umbreytt meðal annars í nýjan Landspítala, samgöngubætur og hjúkrunarheimili. Sú umbreyting er pólitík sem skilar árangri fyrir almenning. Gífuryrðin skipta þar engu.

Morgunblaðið, 16. nóvember 2022.