Í frelsinu felst styrkur

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Frum­varp þing­manna Sjálf­stæðis­flokks­ins um fé­laga­frelsi á vinnu­markaði hef­ur valdið titr­ingi meðal margra, jafnt stjórn­mála­manna sem for­ystu­manna stétt­ar­fé­lag­anna. Kannski var ekki við öðru að bú­ast en umræðan sem hef­ur skap­ast hef­ur að mestu verið mál­efna­leg og án stór­yrða sem á stund­um er gripið til þegar deilt er um þjóðfé­lags­mál.

Rök­ræðan um fé­laga­frelsi á vinnu­markaði hef­ur dregið fram hug­mynda­fræðileg­an ágrein­ing sem er og hef­ur alltaf verið til staðar í ís­lensku sam­fé­lagi. Ann­ars veg­ar standa þeir sem treysta ein­stak­lingn­um til að taka ákv­arðanir um eig­in hag og hins veg­ar þeir sem telja nauðsyn­legt að hafa vit fyr­ir ein­stak­ling­um.

Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, orðaði þetta vel í fjör­ug­um umræðum um frum­varpið í liðinni viku: „… vilj­um við að sam­fé­lag­inu sé stýrt þannig að við hérna, vitr­ing­arn­ir á Alþingi, vit­um bet­ur og tryggj­um fólk­inu aðild að stétt­ar­fé­lög­um þrátt fyr­ir að þau skilji ekki að það er þeim fyr­ir bestu, vegna þess að við höf­um kom­ist að því hvað er fólki fyr­ir bestu? Þetta snýst nefni­lega um svona grund­vall­ar­atriði. Er fólk­inu treyst­andi til þess að taka ákv­arðanir um sitt eigið líf? Eða þurfa at­vinnu­rek­end­ur og launþega­hreyf­ing­in, og eft­ir at­vik­um alþing­is­menn, að taka fram fyr­ir hend­urn­ar á fólki og segja því hvað er þeim fyr­ir bestu? Þess vegna er það kjarna­atriði í þessu máli að þetta snýst um frelsi. Þetta snýst um trúna á því að ef maður virkj­ar fólk til þátt­töku um ákv­arðanir sem varða þeirra eigið líf að þá muni sam­fé­lag­inu fyrst vakna líf og fram­far­ir verða. En ekki þegar við tök­um þann rétt af fólki.“

Frelsi í orði ekki á borði

Eins og ég hef áður bent á hér á þess­um stað og ít­rekaði, þegar ég mælti fyr­ir frum­varp­inu, er fé­laga­frelsi á ís­lensk­um vinnu­markaði í orði en því miður ekki á borði. Þar ræður þyngst for­gangs­rétt­ar­á­kvæði í kjara­samn­ing­um, þó fleiri atriði spili inn í. For­gangs­rétt­ar­á­kvæðin fela í sér svo mikla þving­un gagn­vart launa­fólki að leggja má það að jöfnu við skylduaðild.

Eins og bú­ast mátti við hef­ur ýmis gagn­rýni verið sett fram á efni frum­varps­ins og þá hug­mynda­fræði að tryggja ís­lensku launa­fólki í raun fé­laga­frelsi – sömu rétt­indi og launa­fólk nýt­ur í þeim lönd­um sem við ber­um okk­ur gjarn­an sam­an við. Rauði þráður­inn er að frum­varpið feli í sér skerðingu á rétt­ind­um launa­fólks og veiki verka­lýðshreyf­ing­una. Hvor­ugt er rétt.

Fyrst um þá staðhæf­ingu að sam­tök launa­fólks veikist, nái fé­laga­frelsi fram að ganga.

Ég hafna þess­ari full­yrðingu. Ekki aðeins vegna þess að ég hef meiri trú en svo á verka­lýðshreyf­ing­unni, held­ur vegna þess að ég er sann­færður um að frelsið geti styrkt starf­semi verka­lýðsfé­laga. Af hverju? Vegna þess að verka­lýðsfé­lög­in munu hafa sér­staka hags­muni af því að sann­færa launa­fólk um að hags­mun­um þess sé best borgið með því að ganga til liðs við viðkom­andi stétt­ar­fé­lög. Þau munu leggja sig í líma við að gæta hags­muna viðkom­andi. For­ysta verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar mun skynja að ís­lenskt launa­fólk fær meiri áhuga á rétt­ind­um sín­um og kjör­um og meiri áhuga á starf­semi verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar en nú er, hætt­ir að vera jafn af­skipta­laust og það er, tel­ur sér skylt, vegna þess að það tók sjálf­stæða ákvörðun um að til­heyra fé­lag­inu, að taka þátt í að móta starf þess og stefnu og það mun taka þátt í að velja ein­stak­linga til for­ystu sem það treyst­ir. Ég vona að for­ystu­fólk í verka­lýðshreyf­ing­unni hafi ekki áhyggj­ur af auk­inni virkni og áhuga al­mennra fé­laga á störf­um og stefnu eig­in stétt­ar­fé­lags.

Mis­skiln­ing­ur og vanþekk­ing

Í op­in­berri umræðu hafa komið fram ýms­ar full­yrðing­ar um efni frum­varps­ins, sem ým­ist eru byggðar á mis­skiln­ingi eða hrein­lega vanþekk­ingu, þar sem aug­ljóst er að viðkom­andi hef­ur ekki kynnt sér efni frum­varps­ins.

Full­yrðing: At­vinnu­rek­end­ur geta kosið að ráða aðeins til sín fólk sem stend­ur utan stétt­ar­fé­laga.

Þessi staðhæf­ing bygg­ist á mis­skiln­ingi, enda kem­ur skýrt fram í 3. gr. frum­varps­ins að vinnu­veit­anda „…er óheim­ilt að synja um­sækj­anda um laust starf eða segja launa­manni upp starfi á grund­velli fé­lagsaðild­ar hans“. Í 4. gr. er auk þess mælt fyr­ir um skaðabóta­skyldu vinnu­veit­anda, brjóti hann gegn ákvæðum 3. gr.

Full­yrðing: Launamaður get­ur ákveðið hvert sjúkra­sjóðsgreiðslur fara.

Rangt. Eina breyt­ing­in í frum­varp­inu, hvað sjúkra­sjóði varðar, er sú að auk­in skylda er lögð á at­vinnu­rek­anda sem hef­ur í för með sér að allt launa­fólk nýt­ur sjúkra­trygg­inga, óháð stétt­ar­fé­lagsaðild. Að óbreytt­um lög­um er at­vinnu­rek­anda skylt að greiða í sjúkra­sjóði „viðkom­andi stétt­ar­fé­lags“. Standi launamaður hins veg­ar utan fé­lags neita stétt­ar­fé­lög alla jafna að taka við greiðslum í sjúkra­sjóð fyr­ir hans hönd. Í þeim til­vik­um er launamaður­inn ekki sjúkra­tryggður, enda hef­ur at­vinnu­rek­and­inn sinnt sinni skyldu, lög­um sam­kvæmt, og eng­ar frek­ari kröf­ur gerðar til hans. Í frum­varp­inu er hins veg­ar mælt fyr­ir um að við slík­ar aðstæður verði á at­vinnu­rek­anda skylt að tryggja launa­mann­inn á eig­in ábyrgð. Með þessu verður allt launa­fólk á ís­lensk­um vinnu­markaði sjúkra­tryggt. Varla get­ur það tal­ist „aðför að launa­fólki“.

Full­yrðing: At­vinnu­rek­end­um verður gefið tæki­færi til að greiða launa­fólki smán­ar­laun. Það verður ekk­ert til sem heit­ir lág­marks­laun, sem samið sé um í kjara­samn­ing­um.

Þetta er kolrangt. Ákvæði frum­varps­ins gefa at­vinnu­rek­end­um ekki tæki­færi til að greiða launa­fólki smán­ar­laun, enda hef­ur frum­varpið eng­in áhrif á lág­marks­laun. Í 1. mgr. 1. gr. laga starfs­kjara­laga nr. 55/​1980 seg­ir eft­ir­far­andi:

„Laun og önn­ur starfs­kjör, sem aðild­ar­sam­tök vinnu­markaðar­ins semja um, skulu vera lág­marks­kjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðning­ar­tíma fyr­ir alla launa­menn í viðkom­andi starfs­grein á svæði því er samn­ing­ur­inn tek­ur til. Samn­ing­ar ein­stakra launa­manna og at­vinnu­rek­enda um lak­ari kjör en hinir al­mennu kjara­samn­ing­ar ákveða skulu ógild­ir.“

Með eng­um hætti er hróflað við þess­um skýru ákvæðum starfs­kjara­laga. Lág­marks­laun verða enn í gildi sam­kvæmt kjara­samn­ing­um og það verður, hér eft­ir sem hingað til, lög­brot að greiða lægri laun.

Mik­il­vægi stétt­ar­fé­laga

Sú umræða sem hef­ur skap­ast í kring­um frels­is­frum­varpið hef­ur ekki aðeins varpað ljósi á hug­mynda­fræðileg­an ágrein­ing um rétt ein­stak­lings­ins. Hún hef­ur ekki síður knúið fram umræður um mik­il­vægt hlut­verk og skyld­ur verka­lýðsfé­laga. Síðustu mánuði og raun­ar miss­eri hef­ur op­in­ber umræða um sam­tök launa­fólks því miður ein­kennst frem­ur af deil­um, hjaðninga­víg­um og inn­an­mein­um. Nái frum­varpið að breyta því er til mik­ils unnið.

Ég skil áhyggj­ur margra verka­lýðsleiðtoga af því að með því að virða fé­laga­frelsi launa­fólks á borði en ekki aðeins í orði, veikist sam­tök launa­fólks. Sjálf­ur er ég sann­færður um að hið þver­öfuga ger­ist. Í frels­inu felst styrk­ur. Launa­fólk fær auk­inn áhuga á rétt­ind­um sín­um og sann­fær­ist bet­ur um að bar­átta fyr­ir þeim verður best háð sam­eig­in­lega. Um leið aukast kröf­urn­ar til þeirra sem velj­ast til for­ystu og aðhaldið eykst. Varla get­ur nokk­ur staðið gegn því.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. október 2022.