Hvernig getum við aðstoðað Úkraínu?

Diljá Mist Einarsdóttir, Alþingismaður:

Á dögunum fór fram góður fundur EES-þingmanna og þingmanna ESB í Strassborg. Dagskráin var áhugaverð, en við ræddum m.a. Úkraínu, orkumálin og samstarf í netvörnum. Tíminn var vel nýttur og fundarmenn áttu opinskátt samtal um dagskrárefnin.

Mesta athygli mína vakti hreinskiptin framsaga Witolds Waszczykowskis, pólsks þingmanns og fyrrverandi utanríkisráðherra, um stöðuna í Úkraínu. Waszczykowski lagði áherslu á að við yrðum öll að leggja okkar af mörkum til að aðstoða Úkraínumenn. Það væri ekki nóg að hjálpa þeim að verjast, markmiðið yrði að vera að vinna sigur á Rússum á úkraínsku landsvæði, þótt kollegar hans í Berlín og París töluðu sumir hverjir fyrir öðru. Ef stríðinu lyktaði ekki með sigri Úkraínumanna væri ljóst að fleiri Evrópulönd yrðu fórnarlömb heimsvaldagræðgi Pútíns.

En hvernig taldi Waszczykowski að við ættum að aðstoða Úkraínumenn og verja okkur sjálf þar með? Hann nefndi að það væru nokkrir möguleikar til þess, m.a. með því að vinna með NATO og með auknu samstarfi við Bandaríkin. Hann gaf hins vegar ekki mikið fyrir hugmyndir úr vísindaskáldsögu (e. science fiction ideas) sem hann kallaði svo, um að styrkja Evrópu sem hernaðarvettvang. Þegar eldur væri í húsinu væri ekki verið að hugsa um að byggja slökkviliðsstöð. Við værum að auki með slökkviliðsstöð; hún héti NATO og yfir 20 Evrópulönd ættu þar aðild. Hann lagði því áherslu á að við reiddum okkur á þegar reyndan öryggisviðbúnað í stað þess að gleyma okkur í framtíðardraumum til að fullnægja pólitískum metnaði ESB-leiðtoga.

Í framsögu minni undir sama dagskrárlið harmaði ég það að Evrópuþjóðir hefðu látið varnaðarorð Úkraínumanna og annarra þjóða sem vind um eyrun þjóta árum saman. Vonandi hafa þessar þjóðir lært á alvarlegum mistökum að leggja nú betur við hlustir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.