Valdefling launafólks

Guðrún Hafsteinsdóttir alþingismaður:

Ný­lega mæltu 11 þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins fyr­ir frum­varpi um vernd fé­laga­frels­is á ís­lensk­um vinnu­markaði. Mark­mið frum­varps­ins er að tryggja launa­fólki frelsi til þess að velja sér stétt­ar­fé­lag eða eft­ir at­vik­um að standa utan slíkra fé­laga. And­stæðing­um frum­varps­ins hef­ur tek­ist að finna því allt til foráttu og ekk­ert til sparað í dig­ur­barka­leg­um yf­ir­lýs­ing­um um af­leiðing­ar þess ef frum­varpið yrði að lög­um og því haldið fram að það fæli í sér dauðadóm yfir verka­lýðshreyf­ing­unni.

Ófrum­leg­ur Sjálf­stæðis­flokk­ur

Miðað við viðbrögð þeirra mætti halda að frum­varpið fæli í sér nýj­ar, rót­tæk­ar og al­ger­lega óþekkt­ar breyt­ing­ar sem ekki þekk­ist á byggðu bóli. Þrátt fyr­ir að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hafi í gegn­um tíðina margoft lagt fram djarf­ar og fram­sækn­ar laga­breyt­ing­ar til vernd­ar rétt­ind­um fólks er það því miður ekki raun­in í þessu til­viki. Frum­varpið snýr ein­göngu að því að veita launa­fólki á Íslandi sömu rétt­indi og launa­fólki annarra landa og tryggja fé­laga­frels­inu sam­bæri­lega vernd og það nýt­ur ann­ars staðar á Norður­lönd­un­um. Rót­tækn­in og frum­leiki Sjálf­stæðis­flokks­ins er ekki meiri en svo að frum­varpið er að mestu leyti byggt á dönsku lög­un­um um fé­laga­frelsi á vinnu­markaði sem lög­fest voru í Dan­mörku árið 2006 til að bregðast við áfell­is­dómi frá Mann­rétt­inda­dóm­stól Evr­ópu í máli Søren­sens og Rasmus­sens gegn Dan­mörku sem féll sama ár. Þá hef­ur Evr­ópu­nefnd­in um fé­lags­leg rétt­indi margoft tekið fram í álykt­un­um sín­um að for­gangs­rétt­ar­á­kvæði í ís­lensk­um kjara­samn­ing­um feli í sér brot gegn fé­laga­frels­inu. For­gangs­rétt­ar­á­kvæði eru ákvæði kjara­samn­inga sem veita fé­lags­mönn­um til­tek­ins stétt­ar­fé­lags for­gang til ákveðinna starfa, hvort sem er við ráðningu eða upp­sögn. Í frum­varp­inu er brugðist við því og eru slík ákvæði gerð óheim­il.

Ómerki­legt frelsi?

And­stæðing­ar frum­varps­ins hafa gefið lítið fyr­ir fé­laga­frelsið, rétt eins og kom fram í ræðu Jó­hanns Páls Jó­hanns­son­ar, þing­manns Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, þar sem fram kom að í skyldu ófé­lags­bund­inna launa­manna til greiðslu fé­lags­gjalda og for­gangs­rétt­ar­á­kvæði kjara­samn­inga væri ekki mis­mun­un sem hann hefði „gríðarleg­ar áhyggj­ur af“. Þeirri af­stöðu verð ég að vera ein­dregið ósam­mála, enda tel ég alla mis­mun­un og sér­stak­lega þá sem geng­ur gegn mann­rétt­inda­ákvæðum vera í eðli sínu eitt­hvað til að hafa gríðarleg­ar áhyggj­ur af.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. október 2022.