Verðbólgan einungis lægri í einu öðru Evrópulandi

Verðbólga á Íslandi mælist nú töluvert minni en í flestum öðrum samanburðarlöndum í Evrópu. Verðbólgan er einungis minni í einu landi en hér. Þetta kemur fram í nýlegri tilkynningu frá hagfræðideild Landsbanka Íslands.

„Síðustu ára­tugi hef­ur verðbólga hér á landi jafn­an verið hærri og stund­um mun hærri en í þeim lönd­um sem við vilj­um bera okk­ur sam­an við. Í dag er þessu öf­ugt farið og er verðbólga hér á landi nú minni en í lang­flest­um sam­an­b­urðarlönd­um,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Þá segir að verðhækkanir í mat og drykk hafi verið minni hérlendis en víðast hvar annars staðar og að orkukostnaður hafi hækkað margfalt minna. Verðbólga hérlendis er byrjuð að hjaðna, ólíkt því sem á við í flestum öðrum löndum Evrópu þar sem enn má ekki sjá nein merki hjöðnunar.

Sé horft til samræmdrar vísitölu neysluverðs (SVN) í Evrópu var hún 6% á Íslandi í september en verðbólga á mæli­kv­arða neyslu­verðsvísi­töl­unn­ar var á sama tíma 9,3%.

„SVN er mæld og reiknuð í 36 löndum í Evrópu og sé litið til septembermánaðar var einungis eitt land með minni verðbólgu en við. Þetta var Sviss en þar var verðbólga 3,2% á mælikvarða SVN. Það land sem kom næst á eftir okkur var Frakkland með 6,2% verðbólgu og því næst Malta með 7,4%. Á Norðurlöndunum lá verðbólgan á bilinu 7,7% (Noregur) til 11,2% (Danmörk),“ segir í tilkynningunni.

Nánar má lesa um greiningu Landsbankans hér.