Menntun er fjár­festing til fram­tíðar

Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:

„Menntun er fjárfesting til framtíðar“ er góð vísa sem aldrei er of oft kveðin. Skólinn er okkar mikilvægasta jöfnunartæki og góðir skólar eru grunnur að góðu samfélagi.

Íslenskt menntakerfi er að mörgu leyti gott, við höfum góða kennara sem eru án efa allir að gera sitt besta. En íslenska menntakerfið kostar mikla peninga og samkvæmt alþjóðlegum mælingum, til að mynda Pisa, erum við ekki að ná árangri í samræmi við þá fjármuni sem við verjum í fjárfestinguna. Of margir, sérstaklega drengir, geta ekki lesið sér til gagns. Stelpurnar okkar glíma við kvíða. En þau eru auðvitað ekki vandamálið heldur er verkefni okkar að laga þetta, sjá til þess að öllum börnum líði vel og að þau fái eins mikið út úr grunnskólanum og kostur er. Það er því nauðsynlegt að ráðast í úrbætur. Tryggja þarf að kennarar hafi rými og stuðning til að mæta hverjum og einum nemanda þar sem hann er staddur með námsefni við hæfi. Kennsluaðferðirnar þurfa að byggja á vísindum og þær þurfa að virka.

Ég ætla að leyfa mér að efast stórkostlega um vísindin á bak við hraðlestrarpróf hjá ungum börnum og að slík kennsluaðferð sé til þess fallin að bæta lestur og lesskilning sem hlýtur alltaf að vera aðal­atriðið. Það hlýtur að vera þörf á fjölbreyttari lausnum, mælingum og kennsluháttum.

Kveikjum neistann

Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar var stofnað nýlega en að því koma Samtök atvinnulífsins og Háskóli Íslands og hefur setrið aðsetur hjá Menntavísindasviði HÍ. Hermundur Sigmundsson, prófessor við Háskóla Íslands, mun leiða rannsóknir á vegum setursins ásamt teymi fræðimanna við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og NTNU-háskóla í Noregi.

Vestmannaeyjar eru þátttakendur í verkefni setursins sem hlotið hefur nafnið Kveikjum neistann, og það er óhætt að segja að verkefnið hafi kveikt neistann hjá börnunum í Eyjum og vonandi hafa Eyjamenn núna kveikt neistann hjá öðrum sveitarfélögum að keyra sama verkefni.

Á dögunum var haldið málþing í Vestmannaeyjum um verkefnið og hvernig hefur til tekist. Ótrúlegur árangur er hjá börnunum sem hafa náð mikilli færni í lestri á einu ári. Ánægja barnanna, foreldranna og kennaranna er mikil enda hefur samfélagið allt komið að átakinu. Bókasafnið spilar líka stórt hlutverk og þar hafa allar barnabækurnar verið litamerktar eftir erfiðleikastigi, opnunartími hefur verið lengdur og áhersla lögð á að fjölskyldan fari saman á bókasafnið, lesi saman og að foreldrar séu fyrirmynd í þessum efnum.

En verkefnið gengur ekki aðeins út á lestur heldur er uppbrot í stundaskránni og aukin áhersla á hreyfingu mikilvægur liður í því. Börn hafa mikla hreyfiþörf og það er nauðsynlegt að skólinn hvetji til og auki möguleika barna á að hreyfa sig enda er það bæði gott fyrir líkama og huga barnanna.

Aukið valfrelsi barnanna til að velja fög eftir ástríðu sinni í ástríðutímum er líka hluti af verkefninu en með því eykst ánægja barnanna sem koma glöð heim úr skólanum hafandi fengið að fást við verkefni við hæfi, hreyft sig og notið þess að sinna ástríðu sinni.

Það verður spennandi að fylgjast með skólabænum Vestmannaeyjum á næstu misserum og vonandi slást fleiri sveitarfélög í hópinn. Hvort sem það er undir merkjum verkefnisins Kveikjum neistann eða annarra átaksverkefna. Því ljóst er að átaks er þörf í lestrarkunnáttu og menntun barnanna okkar.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 25. október 2022.