Tryggja verður jafnræði heilsugæsla í þágu þjónustu við sjúklinga

Hildur Sverrisdóttir alþingismaður:

Heilsu­gæsl­an er mjög mik­il­væg­ur hlekk­ur sem fyrsti viðkomu­staður heil­brigðisþjón­ustu. Í byrj­un árs 2017 var tekið í gagnið nýtt fjár­mögn­un­ar­kerfi fyr­ir heilsu­gæslu­stöðvar á höfuðborg­ar­svæðinu. Kristján Þór Júlí­us­son, þáver­andi heil­brigðisráðherra Sjálf­stæðis­flokks­ins, ýtti því úr vör og með breyt­ing­um á fjár­mögn­un heilsu­gæsl­unn­ar var verið að færa inn í rekst­ur heilsu­gæsl­unn­ar fag­lega og fjár­hags­lega hvata sem stuðluðu að betri þjón­ustu og hag­kvæm­ari rekstri. Grund­vallar­for­send­ur end­ur­bót­anna fólust í gjör­breyttu fyr­ir­komu­lagi við fjár­mögn­un þjón­ust­unn­ar þar sem mark­miðið var að umb­una fyr­ir skil­virka og góða þjón­ustu í sam­ræmi við þarf­ir not­enda.

Fjár­mögn­un­in bygg­ist á því að fjár­magn til rekstr­ar hverr­ar stöðvar end­ur­spegli þann sjúk­linga­hóp sem heilsu­gæslu­stöðin þjón­ar. Þá fylg­ir fjár­magnið sjúk­lingn­um þannig að ef hann fær­ir sig á aðra heilsu­gæslu­stöð fylg­ir fjár­magnið með.

Far­sæl breyt­ing

Mark­mið breyt­ing­anna var að auka gæði og skil­virkni þannig að grunn­heil­brigðisþjón­usta væri veitt í meira mæli á heilsu­gæslu­stöðvum. Það hef­ur þegar skilað ár­angri þar sem hlut­deild veittr­ar þjón­ustu á heilsu­gæslu­stöð jókst af heild­ar­grunn­heil­brigðisþjón­ustu og þá fjölgaði skráðum ein­stak­ling­um heilsu­gæslu­stöðva og þúsund­ir fluttu sig yfir á aðra heilsu­gæslu­stöð sem hentaði þeim bet­ur. Þá gerði þetta fjár­mögn­un heilsu­gæsl­unn­ar gagn­særri og raun­særri og var skref í rétta átt. Ánægju­mæl­ing­ar hafa einnig sýnt að þær nýju einka­reknu stöðvar sem ruddu sér til rúms í kjöl­far breyt­ing­anna raða sér efst á blað yfir bestu þjón­ust­una.

Ný­leg skekkja veld­ur áhyggj­um

Þó að stefnt hafi verið að því að all­ar heilsu­gæslu­stöðvar sætu við sama borð þegar kæmi að því að fjár­magn fylgdi sjúk­lingi í þágu þess að sjúk­ling­arn­ir þyrftu aldrei að finna fyr­ir því á nokk­urn hátt hvort um op­in­bera eða einka­rekna stöð væri að ræða þá hef­ur reynsla und­an­far­inna ára sýnt að þar lúta þó ekki all­ir sömu leik­regl­um, sem mynd­ar ósann­gjarna skekkju á milli þess­ara aðila. Sem dæmi má nefna að Land­spít­ali verðlegg­ur ýms­ar rann­sókn­ir sem hann sinn­ir fyr­ir hönd heilsu­gæslu­stöðvanna ekki jafnt á milli stöðvanna. Aðrir en op­in­ber­ar stofn­an­ir sem sinna op­in­berri þjón­ustu þurfa að kaupa trygg­ingu fyr­ir sinn rekst­ur og greiða eig­in ábyrgð á tjón­um af skatt­fé. Rík­is­rekn­ar heil­brigðis­stofn­an­ir geta fengið end­ur­greiðslu á virðis­auka­skatti á þjón­ustu sem aðrar heilsu­gæslu­stöðvar njóta ekki. Op­in­ber­ar heilsu­gæslu­stöðvar þurfa að fylgja lög­um um op­in­bera starfs­menn en ekki er tekið til­lit til kostnaðar vegna líf­eyr­is­skuld­bind­inga op­in­berra starfs­manna í fjár­mögn­un­ar­líkan­inu. Sér­stak­ar verðlags- og launa­bæt­ur, kostnaður vegna launa­hækk­ana ljós­mæðra og hjúkr­un­ar­fræðinga í kjöl­far gerðardóms og viðbót­ar­kostnaður vegna heims­far­ald­urs Covid-19, svo dæmi séu tek­in, hef­ur verið greidd­ur fram hjá fjár­mögn­un­ar­líkan­inu.

Þetta eru aðeins nokk­ur dæmi af mörg­um sem valda því að not­end­ur standa ekki jafn­fæt­is þegar kem­ur að vali milli heilsu­gæslu­stöðva á höfuðborg­ar­svæðinu og safn­ast þegar sam­an kem­ur. Til að gæta þess að jafn­ræði sé ör­ugg­lega fyr­ir hendi er mik­il­vægt að rýna fjár­mögn­un­ar­líkanið svo þætt­ir séu ekki sett­ir fram hjá líkan­inu í þágu op­in­beru stöðvanna og tryggja megi sem jöfn­ust tæki­færi sjúk­linga, starfs­fólks og heilsu­gæslu­stöðva til að nálg­ast og bjóða upp á sem besta grunn­heil­brigðisþjón­ustu, sem heilsu­gæslu­stöðvarn­ar eru nauðsyn­leg­ur hluti af.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. október 2022.