Hver ákvað þetta?

Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir borgarfulltrúi:

Í ný­legri frétt Inn­herja um fjár­hags­spá Orku­veit­unn­ar má sjá að Orku­veit­an ætl­ar sér stóra hluti á næstu árum. Ann­ars veg­ar eru auk­in um­svif Car­bfix í píp­un­um eft­ir að hafa fengið grænt ljós í borg­ar­ráði og rýni borg­ar­full­trúa ráðsins. Hins veg­ar eru uppi áform um að leggja svo­kallaðan Lands­hring, ljós­leiðara um alla lands­byggðina, sem ég og aðrir borg­ar­full­trú­ar verðum fyrst vör við eft­ir frétt Inn­herja. Það hlýt­ur að eiga að vera póli­tísk ákvörðun að eitt af dótt­ur­fé­lög­um Orku­veitu Reykja­vík­ur, Ljós­leiðar­inn, ákveði að tengja ljós­leiðara á lands­byggðinni. Þá sér­stak­lega í ljósi þess að til stend­ur að fjár­magna fram­kvæmd­ina með hluta­fjáraukn­ingu sem er að hluta einka­væðing Ljós­leiðarans. Því er ekki annað hægt en að spyrja hvers vegna ekki hafi átt sér stað umræða inn­an borg­ar­stjórn­ar um þessi verk­efni. Var borg­ar­stjóri hafður í ráðum varðandi fyr­ir­hugaða hluta­fjáraukn­ingu eða samþykkti hann hana? Það lít­ur út fyr­ir að Orku­veit­an sé þegar byrjuð að hrinda þess­um áform­um í fram­kvæmd.

Í frétt­inni er jafn­framt sagt frá leigu Ljós­leiðarans á tveim­ur þráðum í ljós­leiðara­streng Atlants­hafs­banda­lags­ins, einnig þekkt­ur sem NATO-streng­ur, en hann ligg­ur um allt land. Jafn­framt er sagt frá sam­komu­lagi um kaup Ljós­leiðarans á búnaði Sýn­ar fyr­ir þrjá millj­arða króna, hvort tveggja mik­il­væg skref í átt að nýj­um Lands­hring að sögn fram­kvæmda­stjóra Ljós­leiðarans. Hann seg­ir einnig að þótt hluta­fjáraukn­ing sé æski­leg sé hún ekki for­senda sam­komu­lags­ins við Sýn. Þá vakna skilj­an­lega spurn­ing­ar um fjár­mögn­un þessa verk­efn­is. Verður sótt meira hluta­fé til borg­ar­inn­ar og ná­granna­sveit­ar­fé­laga? Eða mun meiri­hlut­inn und­ir for­ystu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar leita til einkaaðila um hluta­fé til að fjár­magna upp­bygg­ingu fjar­skipta á lands­byggðinni? Síðast en ekki síst má velta fyr­ir sér hvort ná­granna­sveit­ar­fé­lög­in, meðeig­end­ur borg­ar­inn­ar í Orku­veitu Reykja­vík­ur, hafi verið höfð með í ráðum.

Óháð ágæti þess­ara áforma Orku­veit­unn­ar er mörg­um spurn­ing­um ósvarað, en til þess er borg­ar­stjórn ein­mitt; að tryggja lýðræðis­lega umræðu og gagn­sæi ákv­arðana um um­svif borg­ar­inn­ar og fyr­ir­tækja henn­ar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. október 2022.