Á morgun, þriðjudaginn 11. október á alþjóðlegum degi stúlkubarnsins, opnar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ljósmyndasýningu Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) um barnungar mæður í þróunarríkjum. Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi kemur að skipulagningu sýningarinnar hér á landi og fékk til þess styrk frá utanríkisráðuneytinu. Sýningin verður opnuð á 1. hæð Smáralindar (fyrir utan Lyfju) en gert er ráð fyrir að hún ferðist svo um landið í vetur.
Ljósmyndasýningin ber nafnið „Child Mothers“ og fjallar um sögur ungra stúlkna í þróunarríkjum sem eignast börn á meðan þær eru sjálfar enn á barnsaldri. Í slíkri stöðu hafa þær síður tækifæri til að stunda nám og eiga á hættu að glíma við ýmis heilsufarsleg vandamál sem tengjast ótímabærum þungunum. Þessi hópur þarf sérstaka athygli ef uppfylla á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Skrifstofustjóri norrænu skrifstofu UNFPA, Pernille Fenger, verður viðstödd opnunina svo og nemendur í Salaskóla í Kópavogi.