Er Ísland uppselt?

Ásmundur Friðriksson alþingismaður:

Ég hef heim­sótt og kynnt mér þær aðstæður sem hæl­is­leit­end­ur á Íslandi búa við. Kveikj­an að þess­ari grein var heim­sókn mín í blokk­ir í húnæði á veg­um Útlend­inga­stofn­un­ar þar sem hæl­is­leit­end­ur búa. Aðstæður þeirra eru óboðleg­ar en í einu hús­inu búa um 140 manns í 50 her­bergj­um. Nýj­ustu frétt­ir eru af skrif­stofu­hús­næði þar sem hundrað manns eiga að sofa á her­manna­bedd­um og sækja sal­ern­isaðstöðu í gáma úti á plani. Mér er sagt að aðbúnaður hæl­is­leit­enda í Grikklandi sé á pari eða betri en á Íslandi þótt öðru sé haldið fram.

Íbúa­fjöldi Grinda­vík­ur á hverju ári

Nú fer sá tími í hönd að reikna megi með að hæl­is­leit­end­um sem koma til lands­ins fjölgi. Veru­lega. Útlend­inga­stofn­un hef­ur 20 hót­el og íbúðablokk­ir á leigu. Til að mæta fjölg­un hæl­is­leit­enda til ára­móta þarf 3-4 blokk­ir til að hýsa þann viðbótar­fjölda sem er á leiðinni. Svo kem­ur nýtt ár með yfir 3.000 hæl­is­leit­end­um, sem er sam­bæri­leg­ur heild­ar­fjölda íbúa í Grinda­vík. Hér er rauðgló­andi hús­næðismarkaður og fátt eft­ir af hús­næði nema íþrótta­hús, safnaðar­heim­ili og kirkj­ur fyr­ir þetta fólk að búa í. Hug­mynd­ir eru uppi um að flytja inn gáma­ein­ing­ar og búa til sér­stök hverfi fyr­ir hæl­is­leit­end­ur. Í Svíþjóð hef­ur reynsl­an af slík­um hverf­um ekki verið góð, svo ekki sé nú meira sagt.

Fé­lagsþjón­ust­an og hús­næðismarkaður­inn sprung­in

Sam­kvæmt samn­ingi við ríkið taka Reykja­nes­bær, Hafn­ar­fjörður, Reykja­vík­ur­borg, Ak­ur­eyri og Árborg á móti hæl­is­leit­end­um og tvö þau fyrst­nefndu bera höfuð og herðar yfir önn­ur sveit­ar­fé­lög þegar kem­ur að fjölda hæl­is­leit­enda í þjón­ustu. Þar eru fé­lagsþjón­ust­an og hús­næðismarkaður­inn sprung­in. Grunn­skóla­kerfið og heilsu­gæsl­an eru sömu­leiðis kom­in að þol­mörk­um. Í Hafnar­f­irði áttu tveir starfs­menn að vinna að mál­efn­um hæl­is­leit­enda en þeir eru nú 16 og um­fangið allt í sam­ræmi við þess­ar töl­ur. Sveit­ar­fé­lög­in vilja, skilj­an­lega, að auk­inni þjón­ustu fylgi aukið fjár­magn. Þau eru að kikna und­an álag­inu.

Íslenskt skatt­fé fjár­magn­ar hryðju­verk

Útlend­inga­stofn­un og úr­sk­urðar­nefnd út­lend­inga­mála hafa veitt hæl­is­leit­end­um frá Venesúela for­gangsaf­greiðslu við landa­mær­in. Í dag er talið að sex millj­ón­ir íbúa frá Venesúela séu að flýja bág kjör og slæmt stjórn­ar­far í heima­land­inu. Þeir sem þekkja gleggst til þess­ara mála telja að einn dag­inn muni sú staðreynd skapa al­gert ófremd­ar­ástand við landa­mær­in. Allt bend­ir til þess að stór hluti hæl­is­leit­enda frá Venesúela greiði glæpa­hringj­um til að kom­ast til Íslands. Þegar hæl­is­leit­and­inn er kom­inn til Íslands og fer á fram­færslu rík­is­sjóðs koma kruml­ur glæpa­hringj­anna á ný og krefjast hærri greiðslu. Glæpa­hring­irn­ir hafa umboðsmenn hér á landi sem halda áfram að inn­heimta og beita fólkið harðræði við inn­heimt­una. Þannig lend­ir fjár­magn frá ís­lensk­um skatt­greiðend­um í hönd­um glæpa­hringja. Glæpa­hringja sem nota ís­lenska skatt­pen­inga til að fjár­magna man­sal og hryðju­verk.

Raun­veru­leik­inn á Íslandi er ann­ar en fólk held­ur. Umræðan hef­ur leit­ast við að kæfa þá sem reynt hafa að sporna við fót­um. En þeir sem virða eng­in landa­mæri og skilja ekki að hverri krónu verður ekki eytt nema einu sinni telja að Ísland geti tekið á móti t.d. millj­ón­um hæl­is­leit­enda frá Venesúela. Þetta fólk vill ekki sjá að hér eru all­ir innviðir sprungn­ir, það vant­ar marg­ar blokk­ir und­ir hæl­is­leit­end­ur bara til næstu ára­móta. Og á næsta ári má reikna með að þúsund­ir bæt­ist í hóp­inn að öðru óbreyttu. Á það fólk að búa í gáma­hverf­um þar sem skól­ar og fé­lagsþjón­usta eru löngu sprung­in? Reynsla annarra þjóða er að slík get­tó­mynd­un er stór­hættu­leg hverju sam­fé­lagi.

Fyr­ir hverja er hæl­is­leit­enda­kerfið?

Fólkið sem hæl­is­leit­enda­kerfið var búið til fyr­ir hef­ur gleymst. Fólk sem er að flýja stríð og of­sókn­ir gegn minni­hluta­hóp­um og er á flótta til að bjarga eig­in lífi og lim­um. Í staðinn tök­um við á móti stærst­um hluta hæl­is­leit­enda sem þegar hafa fengið vernd í öðrum lönd­um Evr­ópu og inn­an Schengen. Allt að 50% hæl­is­leit­enda sem fá hér vernd hafa þegar fengið land­vist­ar­leyfi í öðrum lönd­um Evr­ópu. Það fólk er ekki að flýja stríð eða bjarga eig­in lífi og lim­um. Það er að flýja fjár­hags­lega af­komu í lönd­um Evr­ópu. Hæl­is­leit­enda­kerfið er ekki hugsað fyr­ir fólk sem er að flýja efna­hags­lega erfiðleika. Hér er fram­færsla hæl­is­leit­enda betri en víðast ann­ars staðar og straum­ur­inn ligg­ur til betra lífs á Íslandi. Sú staðreynd birt­ist í því að 4-6 sinn­um fleiri hæl­is­leit­end­ur koma til Íslands en sækja til Svíþjóðar miðað við höfðatölu. Í sam­an­b­urði við hinar Norður­landaþjóðirn­ar sækja hér hlut­falls­lega flest­ir um hæli og hlut­falls­lega lang­flest­ir fá hér hæli.

Við erum að missa tök­in og gröf­um þannig skipu­lega und­an mögu­leik­um okk­ar Íslend­inga til að standa sóma­sam­lega að mót­töku hæl­is­leit­enda sem eiga ekki í önn­ur hús að venda.

Íslensk stjórn­völd þurfa að móta heild­stæða stefnu í þess­um mála­flokki og halda sig við hana. Búa til kerfi, byggt á því að málsmeðferð og niðurstaða bygg­ist á jafn­ræði og gagn­sæi, og inn­leiða sam­bæri­leg­ar regl­ur og gilda í ná­granna­lönd­um okk­ar. Ekki kerfi sem laðar að sér starf­semi glæpa­hringja og þar sem taf­ir á málsmeðferð verða að keppikefli.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. október 2022.