Stendur undir fjárfestingunni

„Söluandvirði Íslandsbanka hingað til stendur undir allri fjárfestingu í fjárlögum 2023″. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Bjarna Benediktssonar þegar fjárlagafrumvarp næsta árs var kynnt nú á dögunum.

„Það er hægt að segja sem svo að það virði sem við losuðum úr Íslandsbanka í þessum tveimur umferðum jafnist á við alla fjárfestingu ríkisins á næsta ári,“ sagði Bjarni. Eftirstandandi hlutur í bankanum gæti fjármagnað allar fjárfestingar ríkisins á einu ári. „Hinn kosturinn væri að taka fyrir því lán,“ sagði ráðherra.

Í nýju frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2023 er ráðgert að um 100 milljörðum króna verði varið í fjárfestingar. Söluandvirði Íslandsbanka hingað til nemur 108 milljörðum króna og stendur því undir allri fjárfestingu í fjárlögum 2023.

Stærsta einstaka byggingarframkvæmdin er bygging Nýs Landspítala sem áætlað er að verja um 13,4 milljörðum króna til á næsta ári. 11,8 milljörðum króna verður varið til endurgreiðslu á rannsókna- og þróunarkostnaði og 1,5 milljörðum króna í tengivegi. Þá eru Samhæfingarmiðstöð viðbragðsaðila og samgöngusáttmáli á höfuðborgarsvæðinu meðal verkefna sem finna má í fjárfestingarátaki 2021-2023.