Tveir milljarðar í öflugt samstarf háskólanna

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur sett á laggir tveggja
milljarða króna sjóð sem ætlað er að ýta undir öflugt samstarf allra háskóla á Íslandi. Allt að einum
milljarði króna verður úthlutað strax á þessu ári, 2022, og sambærilegri upphæð árið 2023. Auglýst
verður eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum á næstu vikum.

Að sögn ráðherra er hinn nýi samstarfssjóður liður í viðleitni ráðherra til að ýta undir nýsköpun og
framfarir á þessu skólastigi. Öflugt samstarf sé forsenda aukinna gæða háskólanáms á Íslandi.
„Ísland er fámennt land og því hefur verið haldið fram að við séum of fá til að reka sjö háskóla. Ég hef
hvatt skólana til að skoða aukið samstarf sín á milli og jafnvel sameiningar sem mér finnst mikilvægt að
þeir eigi frumvæði að. Samstarf háskóla, þvert á landshluta og rekstrarform hefur vaxið mjög á
undanförnum árum. Ég vil sjá háskólana ganga enn lengra enda tel ég nánast útilokað að háskólanemar
hér á landi fái menntun á heimsmælikvarða nema skólarnir taki höndum saman.“


Nánari upplýsingar um þætti sem litið verður til við úthlutun úr samstarfssjóðnum er að finna á vef
Stjórnarráðsins.