Ísland hækkar á frelsisvísitölu Fraser

Ísland færist upp um 9 sæti á frelsisvísitölu Fraser stofnunarinnar á tveimur árum.  Ísland vermir 20. sæti frelsisvísitölunnar, en samanburðarrannsóknin nær til 165 landa.  Ísland var í 23. sæti í fyrra en 29. sæti árið 2020.  Í rannsókninni er efnahagslegt frelsi í þessum 165 löndum borið saman.  Niðurstöðurnar eru birtar í nýrri skýrslu Fraser Institute.

Í frétt Rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál segir m.a. að  staða Íslands helgist einkum af sterkum lagalegum og pólitískum innviðum auk ríkrar verndar eignarréttar. Þó sé nokkuð íþyngjandi regluverk í viðskiptaumhverfi fyrirtækja og á vinnumarkaði borið saman við önnur lönd.

Í fréttinni segir að samkvæmt skýrslunni ríki enn mest efnahagslegt frelsi í Hong Kong, þar á eftir komi Singapúr, svo Sviss og Nýja-Sjáland. Þá koma Danmörk, Ástralía, Bandaríkin, Eistland, Máritíus og Írland í sætum 5 til 10. Sé litið til annarra Norðurlanda eru Finnar í 25. sæti, Norðmenn í 32. sæti og Svíþjóð deilir 33. sætinu með Austurríki og Síle.

Þegar litið er til stærstu hagkerfanna eru helstu niðurstöður þær að Bandaríkin eru í 7. sæti, Japan í 12. sæti, Þýskaland í 25. sæti, Ítalía í 44. sæti, Frakkland í 54. sæti, Mexíkó í 64. sæti, Indland í 89. sæti, Rússland í 94. sæti, Brasilía í 114. sæti og Kína í 116. sæti. Botn listans verma svo Simbabve, Súdan og Venesúela. (Athugið að harðstjórnarríki eins og Norður Kórea og Kúba er ekki raðað hér þar sem gögn eru ekki fyrir hendi.)

Hornsteinar efnahagslegs frelsis

Hornsteinar efnahagslegs frelsis eru samkvæmt skýrslunni valfrelsi einstaklinga, viðskiptafrelsi, samkeppnisfrelsi, sterkir lagalegir innviðir, aðgangur að traustum gjaldmiðli og vernd eignarréttar. Vísitala atvinnufrelsis (index of economic freedom) ræðst af fimm meginþáttum:

  • Umfangi opinbers reksturs, skatta og fyrirtækja. 
  • Lagalegu umhverfi og friðhelgi eignarréttar. 
  • Aðgangi að traustum peningum. 
  • Frelsi til alþjóðlegra viðskipta.
  • Reglubyrði á fjármagns- og vinnumarkaði og um fyrirtæki. 

Lesið meira um þá meginþætti sem liggja matinu til grundallar, um einkunnir Íslands í lykilflokkum og um hvað betur mætti fara skv. skýrslunni í frétt Rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál.

Um Frelsisvísitöluna

Rannsóknin nær til 165 lands. Miðað er við upplýsingar frá árinu 2020, en frá því ári eru nýjustu samanburðarhæfu gögnin. Í skýrslunni eru jafnframt uppfærðar niðurstöður eldri skýrslna í tilvikum þar sem gögnin hafa verið tekin til endurskoðunar. Skýrslunni ber að taka með þessum fyrirvara, sem fylgir einatt almennar samanburðarrannsóknum af þessu tagi. Hins vegar veitir þessi skýrsla, sem er ein sú vandaðasta sinnar tegundar, góðar vísbendingar um efnahagslegt frelsi hér á landi í alþjóðlegum samanburði og þróun þess á undanförnum áratugum.

Skýrsluna má lesa hér í heild sinni.

Ársskýrslan er unnin undir stjórn Fraser Institue í Kanada í samstarfi sjálfstæðra rannsóknar- og fræðslustofnana í um í 100 löndum sem tengjast böndum í gegnum Samstarfsnet um efnahagslegt frelsi. RSE er aðili að samstarfsnetinu.