Hvað er að frétta?

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Af ein­hverj­um ástæðum telja marg­ir fjöl­miðlar það frétt að tveir landsþekkt­ir miðaldra karl­ar sem aldrei verða sam­mála um nokk­urn skapaðan hlut séu að ríf­ast á sam­fé­lags­miðlum og að ein­hverj­ir minni spá­menn blandi sér í deil­urn­ar, sum­ir með subbu­leg­um hætti.

Það er auðvitað ekki frétt­næmt að þekkt­ur hægrimaður og leiðtogi ís­lenskra sósí­al­ista deili harka­lega. En það geta marg­ir haft nokkra skemmt­un af skylm­ing­un­um því báðir eru ágæt­lega rit­fær­ir og oft orðheppn­ir. Ann­ar beit­ir húmorn­um bet­ur en flest­ir en hinn er ódrep­andi í að boða hug­mynda­fræði sem sag­an og reynsla tug­millj­óna hafa ekki farið vel með. En það er frétt að skemmd­ir séu unn­ar á hús­næði stjórn­mála­flokks og það er al­var­leg frétt ef haft er í hót­un­um við ein­stak­ling vegna stjórn­mála­skoðana. Engu skipt­ir hversu frá­leit­ar okk­ur þykja skoðanir viðkom­andi. Við eig­um öll, hvert og eitt og sam­eig­in­lega, að hafa burði til að for­dæma hót­an­ir um of­beldi.

Hnútukast tveggja karla er ekki frétt frek­ar en að nokkr­ir gervilim­ir ungr­ar stúlku, sem er þekkt kyn­lífs­stjarna, hafi bráðnað. Það er hins veg­ar raun­veru­leg frétt að rekst­ur kyn­líf­stækja­versl­un­ar­inn­ar Blush gangi vel og að velt­an hafi auk­ist veru­lega á liðnu ári.

Drulla og hel­víti

Al­veg óháð því hvað fólki finnst um Vik­una með Gísla Marteini þá lýs­ir það ein­stakri frétta­fá­tækt að slá því upp að ein­hver ön­ug­ur spyrji á Twitter: „Er þetta hel­víti að byrja aft­ur?“ Það er lít­il frétt í því að Gísli Marteinn snúi aft­ur á skjá­inn þegar haust­ar, en það hefði verið frétt­næmt ef Rík­is­út­varpið hefði ákveðið að taka þætti sjón­varps­manns­ins af dag­skrá. Og hvernig má það vera að fjöl­miðill telji það frétt og slái því upp að mynd­list­armaður „drulli“ yfir nýj­ustu mynd Baltas­ars Kor­máks í færslu á Face­book? Í al­vöru?

Frá­sögn af því að ung stjórn­mála­kona sem er að taka sín fyrstu skref í póli­tík hafi „frum­sýnt“ nýja kær­ast­ann er for­vitni­leg vegna þess að hún sval­ar áhuga okk­ar á sam­ferðafólki, ekki síst því sem mest er áber­andi. En það er frá­leitt að gera eng­an grein­ar­mun á slíkri frá­sögn og frétt­um af stríðsátök­um, stýri­vaxta­hækk­un­um eða um­deild­um stjórn­valdsákvörðunum.

Palla­dóm­ur þing­manns, sem sjálf­ur þolir illa gagn­rýni, um að for­seti þings­ins sé „ákv­arðana­fæln­asti maður“ sem hann viti um, er ekki frétt held­ur aðeins sleggju­dóm­ur – skoðun þar sem ruglað er sam­an yf­ir­veg­un við ákv­arðana­töku og fljót­færni þess sem alltaf er snögg­ur að saka aðra um ófag­leg vinnu­brögð.

Það er því miður orðið of al­gengt að stór­yrði og palla­dóm­ar sem lát­in eru falla á sam­fé­lags­miðlum rati inn á frétt­asíður net­miðla líkt og um al­vöru­frétt sé að ræða. Þetta er verra en krana­blaðamennska þar sem frum­kvæðið kem­ur þó frá blaðamann­in­um sem kall­ar fram skoðun áhrifa­fólks á ákveðnu máli í stað þess að bíða eft­ir því að ein­hver skrifi á sam­fé­lags­miðla og þá helst með stór­yrðum. Krana­blaðamennska var eit­ur í bein­um áhrifa­mestu blaða- og frétta­manna síðustu ára­tuga. Áhrif þeirra og leiðsögn virðist gleymd og graf­in. Þeir hefðu bent fjöl­miðlung­um sam­tím­ans á að af­rit­un og lím­ing af Face­book og Twitter (copy & paste) ætti litla sam­leið með blaðamennsku. En vissu­lega kunni frétt að liggja und­ir steini sé hon­um velt við og kannað af hverju viðkom­andi skrif­ar eða tal­ar með þeim hætti sem hann ger­ir, og leitað skýr­inga og álits annarra. Og ekki er ólík­legt að gömlu læri­feðurn­ir hefðu reynt að beina at­hygli blaðamanna að því að segja frá og graf­ast fyr­ir um gang saka­máls sem er til rann­sókn­ar vegna meintr­ar byrlun­ar. Fjöl­miðlung­ar koma þar við sögu. Frá þeirri rann­sókn er lítið sagt.

Berg­máls­hell­ir

Skil­in milli frétta, afþrey­ing­ar, hreinn­ar skemmt­un­ar og aug­lýs­inga eru hægt að bít­andi að þurrk­ast út. Frétt­ir um hvar, hvenær, hverj­ir og hvers vegna verða hægt og bít­andi auka­atriði og skemmtana­gildið tek­ur völd­in. Þessi þróun er ekki bund­in við Ísland. Net­væðing frétta hef­ur gert skil­in, sem prent- og ljósvakamiðlar gera á milli frétta, afþrey­ing­ar og skemmti­efn­is, óljós­ari en áður.

Auðvitað er ekk­ert að því að fjöl­miðlar segi frá hinu furðulega og skemmti­lega, frá sam­tíma­fólki sem stend­ur á tíma­mót­um, og öðru sem fang­ar at­hygli al­menn­ings. Eitt hlut­verk fjöl­miðla er að vera vett­vang­ur afþrey­ing­ar og skemmt­un­ar.

Þegar sam­fé­lags­miðlar eru hins veg­ar orðnir mik­il­væg upp­spretta fjöl­miðla sem vilja leggja áherslu á frétt­ir og frétta­skýr­ing­ar er hætt­an sú að þeir fest­ist í berg­máls­helli með há­vær­um ein­stak­ling­um sem hafa unun af því að fella sleggju­dóma yfir fólki og mál­efn­um svo draum­ur­inn um að kom­ast í „frétt­ir“ dags­ins ræt­ist. Fjöl­miðlung­ar sem lifa og hrær­ast í berg­máls­helli eru ekki lík­leg­ir til að sýna frum­kvæði við frétta­öfl­un.

Um það er ekki deilt að fjöl­miðlar gegna lyk­il­hlut­verki í frjáls­um sam­fé­lög­um. For­senda fyr­ir skyn­sam­leg­um ákvörðunum er að fyr­ir liggi rétt­ar upp­lýs­ing­ar – staðreynd­ir um sam­tím­ann sem sett­ar eru í nauðsyn­legt sam­hengi. Fyr­ir­tæki, ein­stak­ling­ar, heim­ili, stjórn­völd og aðilar vinnu­markaðar­ins byggja litl­ar og stór­ar ákv­arðanir á frétt­um.

Gagn­rýni, opin umræða, upp­lýs­inga­frelsi, frjáls fjöl­miðlun og val­frelsi borg­ar­anna er eina trygg­ing þess að all­ar helstu stofn­an­ir sam­fé­lags­ins búi við nauðsyn­legt aðhald. Rík­is­rek­in fjöl­miðlun gref­ur und­an þess­ari trygg­ingu. Grafið er und­an fjár­hags­leg­um grunni sjálf­stæðra fjöl­miðla og þar með getu þeirra til að upp­fylla skyld­ur sín­ar við sam­fé­lagið, val­frelsi borg­ar­anna er virt að vett­ugi og aðhald að fjöl­miðlum verður tak­markað. Ef ein­hverj­um mis­lík­ar við frjáls­an fjöl­miðil er alltaf hægt að segja upp áskrift­inni, hætta að horfa eða hlusta og miðill­inn miss­ir tekj­ur. Rík­is­miðill­inn læt­ur sér fátt um finn­ast því all­ir eru þvingaðir til að greiða áskrift­ar­gjaldið hvað sem taut­ar og raul­ar.

All­ir þurfa aðhald. Stjórn­mála­menn og rík­is­kerfið allt þurfa aðhald og gagn­rýni. At­vinnu­rek­end­ur og for­ysta verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar þurfa aðhald. Al­menn­ing­ur treyst­ir því að fjöl­miðlar veiti stofn­un­um sam­fé­lags­ins aðhald.

Aðhaldið fæst ekki í berg­máls­helli sam­fé­lags­miðla.

Morgunblaðið, 7.september 2022.